Með símann að vopni

„Í draumi sér­hvers manns er fall hans falið.

Þú ferðast gegn­um dimm­an kynja­skóg

af blekk­ing­um, sem brjóst þitt hef­ur alið

á bak við veru­leik­ans köldu ró.“

Þess­ar ljóðlín­ur Steins Stein­ars frá ár­inu 1942 er freist­andi að heim­færa á þá feigðarför sem Pútín Rúss­lands­for­seti leiðir nú þjóð sína í. Nina L. Khrus­hcheva, langafa­barn fyrr­ver­andi leiðtoga Sov­ét­ríkj­anna, skrifaði í Morg­un­blaðið í gær að Pútín virt­ist hafa fallið fyr­ir sjálf­hverfri þrá­hyggju sinni um að end­ur­heimta valda­stöðu Rúss­lands með eigið skil­greint áhrifa­svæði.

Stjórn­mála­skýr­ing­um ber al­mennt sam­an um að Pútín hafi of­metið stuðning hefðbund­inna banda­lagsþjóða Rúss­lands við árás hans á Úkraínu. Og að sama skapi van­metið viðbrögð Vest­ur­landa. Ekki látið sér detta í huga að Þjóðverj­ar myndu án hiks ákveða að senda vopn til Úkraínu; aldrei trúað því að rúss­nesk­ir bank­ar yrðu svipt­ir aðgengi að SWIFT-kerf­inu, að Sviss myndi frysta eig­ur Rússa þar, ekki látið sér til hug­ar koma að sá sem hann taldi fóst­bróður sinn í Ung­verjalandi myndi taka stöðu með Evr­ópu­sam­band­inu. Hann get­ur ekki einu sinni treyst á stuðning Er­dog­ans í Tyrklandi og hef­ur mögu­lega þurft að segja hon­um það nokkr­um sinn­um.

Fjöl­miðlar, t.d. bæði hinn breski Guar­di­an og banda­ríska CNN, hafa fjallað um hvernig sím­inn er orðinn áhrifa­mesta vopn Volodímírs Selenskís, for­seta Úkraínu. Hann hef­ur verið óþreyt­andi að hringja í leiðtoga fjöl­margra ríkja, ekki aðeins þeirra sem næst Úkraínu liggja held­ur víða um heim. Og hann hef­ur verið per­sónu­leg­ur, full­ur til­finn­inga og eld­móðs. Þannig hafi hon­um tek­ist að ná áður óþekkt­um árangri í að fá vest­ræn ríki til að samþykkja þving­un­araðgerðir gegn Rúss­um. Aðgerðir sem fyr­ir viku hefðu þótt óhugs­andi.

Í eina tíð var talað um að Víet­nam­stríðið hefði því sem næst verið háð í beinni út­send­ingu, því frétt­ir af því bár­ust svo hratt um heim­inn. Síðar var því haldið fram að Flóa­stríðið hefði verið fyrsta stríðið í beinni út­send­ingu og mátti til sanns veg­ar færa, því þaðan bár­ust gervi­hnatta­mynd­ir í raun­tíma. Ar­ab­íska vorið var m.a. rakið til þess að mót­mæl­end­ur náðu að stilla sam­an strengi sína á sam­fé­lags­miðlum. Og nú stefn­ir í að sími Selenskís verði sá tækni­búnaður sem skipt­ir sköp­um í Úkraínu.

Merk­asti ár­ang­ur Selenskís er lík­lega sá að minna aðra þjóðarleiðtoga á að hvað sem allri leikja- og hernaðarfræði líður þá bitn­ar ófriður á sak­lausu fólki. Þjóðarleiðtog­um ber ein­fald­lega skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stend­ur til að bregðast við sím­töl­um sem minna á þau ein­földu sann­indi. Hvað sem allri leikja­fræði líður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. mars 2022