Mikil fórn fyrir sérhagsmuni

Þorsteinn Pálsson

Eftir kosningar hefur ríkisstjórnin aðeins tekið eina stefnumarkandi ákvörðun í efnahagsmálum. Hún er sú að fresta því að taka á skuldavanda ríkissjóðs þar til á næsta kjörtímabili.

Í utanríkis- og varnarmálum hefur engin ný stefnumarkandi ákvörðun verið tekin.

Aðvörunarskot seðlabankastjóra

Í byrjun þessa mánaðar kom Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fund efnahagsnefndar Alþingis. Boðskapur hans var pólitískt aðvörunarskot:

Það verður að eyða hallanum. Val ríkisstjórnarflokkanna er niðurskurður eða hækkun skatta.

Nú eru liðnar þrjár vikur frá því að seðlabankastjóri lét þessi orð falla.

Ríkisstjórnin situr enn þögul og aðgerðalaus.

Flóttaleiðin

Eina framlag ríkisstjórnarinnar til umræðna um stöðu þjóðarbúskaparins er tilkynning forsætisráðherra um að hún hafi boðað þjóðhagsráð til reglulegra funda. Þar sitja aðilar vinnumarkaðarins og Seðlabankinn með ríkisstjórninni.

Ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um annað en að fresta vandanum. Flóttaleiðin er að bíða eftir tillögum aðila vinnumarkaðarins í tengslum við kjarasamninga og hugsanlega framkvæma þær.

Afleiðingin er sú að hagsmunasamtökin ráða í lokuðum bakherbergjum en ríkisstjórnin ber ábyrgð gagnvart Alþingi og þjóðinni.

Ádeila sem stjórnarandstaðan trompar ekki

Athyglisvert er að stjórnarandstaðan tekur ekki mest upp í sig í gagnrýni á þá stóru ákvörðun að skjóta skuldavandanum yfir á næsta kjörtímabil. Stærstu orðin koma frá Seðlabankanum og aðilum í innsta kjarnanum í baklandi Sjálfstæðisflokksins.

Seðlabankastjóri fórnaði heiðri sínum á síðustu dögum kosningabaráttunnar til að hjálpa ríkisstjórninni með fordæmalausum pólitískum afskiptum. Eigi að síður mætir hann á fund efnahagsnefndar Alþingis fimm mánuðum síðar með þung aðvörunarorð vegna stóru ákvörðunarinnar um frestun á skuldavandanum.

Fyrrum forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins fór þeim háðungarorðum um stóru ákvörðunina að hún fæli í sér að flytja vandann yfir á næstu ríkisstjórn. Og fyrrverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra sagði í umsögn Viðskiptaráðs um stóru ákvörðunina að með henni væri ríkisstjórnin að kynda undir verðbólgu.

Stjórnarandstaðan getur varla trompað þessa gagnrýni þótt hluti hennar taki hraustlega undir hana.

Kjölfestuímyndin í efnahagsmálum farin

Þessi innanbúðargagnrýni skilur þingflokk Sjálfstæðismanna eftir á berangri. Hann hefur fórnað kjarnanum í efnahagsstefnu sinni og þar með þeirri gömlu ímynd að vera kjölfestan í efnahagsmálum.

Augljóst er að ákvörðun af þessu tagi er ekki tekin út í loftið. Það er ekki þannig að enginn hafi áttað sig á stöðunni. Hún er ekki afleiðing gáleysis.

Veruleikinn er sá að engin ríkisstjórn með VG í forystu getur gert neitt annað en að flytja skuldavandann yfir á næstu ríkisstjórn.

Frumkvæðið í varnar- og öryggismálum horfið

Flestar þjóðir Evrópu eru nú að endurmeta utanríkispólitíska stöðu sína. Það kemur fram í auknu umfangi varnarmála, þéttara samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins og öflugri pólitískri og efnahagslegri samvinnu innan Evrópusambandsins.
Á Alþingi hafa þingmenn Viðreisnar flutt tillögu um sams konar þríþætt mat á utanríkispólitískri stöðu Íslands í breyttum heimi. Þá hafa þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata flutt tillögu um að þjóðin fái að ákveða hvort viðræður um fulla aðild að Evrópusambandinu verði hafnar á ný.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja aftur á móti að engin þörf sé á endurmati og fráleitt sé að stíga skref fram á við í fjölþjóðasamskiptum. Þeir vilja ekki ganga skrefi lengra en VG treystir sér til.

Fyrir vikið er Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur frumkvæðisafl í utanríkis- og varnarmálum.

Pólitískri stöðu fórnað fyrir sérhagsmuni

Hvað veldur því að þingflokkur Sjálfstæðismanna tekur yfirvegaða ákvörðun um að fórna gömlu ímynd sinni?

Svarið er einfalt:

Þingflokkurinn veit að hann getur ekki farið í ríkisstjórn með neinum öðrum flokki en VG til þess að koma í veg fyrir að þeir, sem hafa einkarétt á að nýta sjávarauðlindina, greiði eðlilegt gjald fyrir tímabundin afnot.

Varðstaðan um þessa sérhagsmuni er talin miklu mikilvægari en það gamla hlutverk að vera kjölfestan í ríkisfjármálum og efnahagsmálum.

Af sömu ástæðu vilja þingmenn Sjálfstæðismanna að sá flokkur hafi forystu fyrir ríkisstjórn, sem ekki trúir á málstað landsins í utanríkis- og varnarmálum.

Sérhagsmunagæslan ein og sér er dapurleg. En þessi víðtæku áhrif hennar eru hættuleg.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. mars 2022