Öryggi Íslands og framtíðin

Blóðug inn­rás Rússa í Úkraínu er hryll­ing­ur. Hún er mann­leg­ur harm­leik­ur. Á þess­ari stundu er hug­ur okk­ar fyrst og fremst bund­inn við ör­lög fólks­ins, sem þarf að þola hörm­ung­ar stríðsátaka og lúta í lægra haldi fyr­ir of­ríki.

Grimmi­legt of­ríki Rússa gagn­vart þess­ari grannþjóð á fyrst og fremst ræt­ur í því að alræðis­stjórn­in hræðist það mest að sjá lýðræði dafna hand­an landa­mær­anna.

Rússlandi stend­ur ekki hernaðarleg ógn af Úkraínu eða öðrum grann­ríkj­um. En lýðræðisáhrif­in eru smit­andi.

Alræði gegn lýðræði

Í raun og veru er þetta hernaður alræðis­ins gegn lýðræðinu. Þess vegna snert­ir hann okk­ur ekki bara til­finn­inga­lega. Þetta er hernaður gegn sér­hverju lýðræðis­ríki í Evr­ópu. Samstaðan með Úkraínu er ekki aðeins sam­kennd með fólki í fjar­lægu landi. Hún er líka nauðsyn­leg vegna okk­ar eig­in hags­muna og gilda.

Við stönd­um frammi fyr­ir þeim veru­leika að það er ekki kostnaðarlaust að verja full­veldi lands­ins. Og fáar þjóðir eiga meir und­ir öðrum í því efni en við. Að sama skapi eru skyld­ur okk­ar til sam­stöðu meiri en annarra.

Mik­il­vægt er að líta ekki á stríðið í Úkraínu sem ein­angrað fyr­ir­bæri. Þetta er ekki einn af þess­um at­b­urðum sem fanga hug okk­ar í nokkra daga eða vik­ur og heyr­ir svo gleymsk­unni til. Úkraínu­stríðið skrif­ast held­ur ekki á einn vit­stola mann.

Valda­jafn­vægið hef­ur rask­ast

Við erum að horfa á lang­tímaþróun. Ekki bara þróun í sam­skipt­um Rússa og NATO. Þessi átök eru hluti af spennu milli alræðis­stjórna í heim­in­um og lýðræðis­ríkj­anna. Og lýðræðis­rík­in hafa verið að veikj­ast. Nær­tæk­asta dæmið eru vax­andi áhrif Kína og þverr­andi áhrif Banda­ríkj­anna.

Í þessu sam­hengi þurf­um við líka að hafa í huga að friður og ör­yggi ráðast ekki bara af vopna­valdi. Viðskipti og efna­hags­leg sam­vinna eru grund­vall­arþátt­ur þegar kem­ur að því að treysta og varðveita frið þjóða í milli.

Á tím­um kalda stríðsins ríkti ákveðið valda­jafn­vægi. Sú heims­mynd breytt­ist við fall Berlín­ar­múrs­ins. Á síðustu árum hef­ur spenn­an vaxið og jafn­vægið rask­ast. Þetta er sú breiða mynd sem við þurf­um að horfa á.

Kjarn­orkuógn­in

Tengsl­in milli Úkraínu­stríðsins og Íslands snú­ast ekki um augna­bliksviðhorf. Pútín var að hag­nýta sér veik­leika lýðræðisþjóðanna í nýrri heims­mynd.

Framtíðar­sýn hans er að halda áfram svo lengi sem hann tel­ur að lýðræðis­rík­in standi verr að vígi en alræðis­rík­in.

Í Kúbu­deil­unni stóðu þjóðir heims á barmi kjarn­orku­átaka. Í þess­ari deilu hafa Rúss­ar bein­lín­is hótað að beita kjarna­vopn­um.

Það hef­ur ekki gerst áður á mínu ævi­skeiði. Fyr­ir mér sýn­ir það djúpa al­vöru þessa máls.

Þjóðarör­yggi

Eft­ir síðari heims­styrj­öld höfðu Banda­rík­in for­ystu um stofn­un Atlants­hafs­banda­lags­ins. Það er varn­ar­banda­lag þjóða í Norður-Am­er­íku og Evr­ópu. Íslandi var boðin stofnaðild að banda­lag­inu vegna hernaðarlegr­ar þýðing­ar lands­ins.

Í þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands, sem samþykkt var sam­hljóða á Alþingi 2016, eru aðild­in að Atlants­hafs­banda­lag­inu og varn­ar­samn­ing­ur­inn við Banda­rík­in sér­stak­lega til­greind meðal þeirra atriða sem helst tryggja sjálf­stæði, full­veldi og friðhelgi landa­mæra Íslands.

Hafi ein­hver haldið að aðild­in að Atlants­hafs­banda­lag­inu og varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in væri bók­staf­ur á blaði, aðeins til marks um gamla sögu, hef­ur Úkraínu­stríðið gjör­breytt þeirri ímynd. Þessi horn­steinn vest­rænn­ar sam­vinnu hef­ur ekki verið meira lif­andi veru­leiki í ára­tugi en ein­mitt nú.

Á dög­un­um tók ég þátt í þing­manna­fundi NATO- og Evr­ópu­sam­bands­ríkja í Par­ís um ör­ygg­is­mál. Það var ánægju­legt að finna þá miklu sam­stöðu, sem þar ríkti. Full­trú­ar ólíkra þjóða og alls lit­rófs­ins í póli­tík­inni sýndu þar þá sam­stöðu, sem úr­slit­um ræður þegar alræðisöfl­in ráðast gegn lýðræðinu.

En við skul­um líka viður­kenna að vel­sæld og langvar­andi friður í Evr­ópu hafði slævt varðstöðuna. Þess­ir at­b­urðir hafa þétt raðirn­ar á ný.

Sam­starf um hervarn­ir og viðskiptafrelsi

En við skul­um ekki gleyma því að stofn­un Atlants­hafs­banda­lags­ins var ekki eina viðbragð vest­rænna ríkja eft­ir síðari heims­styrj­öld. Banda­rík­in ákváðu að veita stríðshrjáðum Evr­ópu­ríkj­um gíf­ur­lega efna­hagsaðstoð, sem kennd var við Mars­hall hers­höfðingja og ut­an­rík­is­ráðherra.

Sam­hliða þess­ari efna­hagsaðstoð lögðu Banda­rík­in fast að Evr­ópuþjóðunum að bind­ast sam­tök­um um aukna sam­vinnu á sviði viðskipta og efna­hags­mála. Evr­ópu­sam­bandið er sprottið úr þeim jarðvegi.

Lýðræðisþjóðirn­ar gerðu sér grein fyr­ir því að úti­lokað var að tryggja frið og ör­yggi með hervörn­um ein­um sam­an. Aukið viðskiptafrelsi, vax­andi hag­sæld og sömu leik­regl­ur fyr­ir alla hafði jafn mikla þýðingu til að ná því mark­miði.

Hervarn­ir og viðskiptafrelsi voru þannig frá upp­hafi tvær hliðar á sama pen­ingi. Og eru enn.

Viðskiptafrelsi og friður

Það hef­ur verið gæfa Íslands að eiga fulla aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu og aðild að kjarna Evr­ópu­sam­bands­ins, innri markaðnum, í gegn­um EES-samn­ing­inn. Hvort tveggja hef­ur þjónað heild­ar­hags­mun­um lands­ins.

And­stæðing­ar fullr­ar aðild­ar Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu hafa stund­um á und­an­förn­um árum reynt að rök­styðja málstað sinn með því að benda á að það hafi verið stofnað til að stuðla að friði eins og ein­hver önn­ur lög­mál gildi um Ísland í þeim efn­um.

Veru­leik­inn er auðvitað sá, að ein­mitt þessi til­gang­ur Evr­ópu­sam­bands­ins styrk­ir rök­semd­irn­ar fyr­ir því að við stíg­um loka­skrefið til fullr­ar aðild­ar.

Síðustu at­b­urðir sýna, svo ekki verður um villst, að banda­lag um varn­ir og efna­hag verður ekki í sund­ur slitið.

Eng­ir aukaaðilar

Al­gjör ein­hug­ur hef­ur verið um að fylgja Evr­ópu­sam­band­inu í efna­hagsþving­un­um gegn Rúss­um. Þar höf­um við ekki verið nein­ir aukaaðilar.

Eng­inn hef­ur ef­ast um að hags­mun­ir Íslands fel­ast í fullri aðild að þeim ráðstöf­un­um.

Að sama skapi ætti öll­um að vera ljóst að full aðild að allri efna­hags- og viðskipta­sam­vinnu þjóðanna er ekki síður mik­il­væg.

Með því fær­um við út full­veldi lands­ins og auk­um viðskiptafrelsi ein­stak­linga og fyr­ir­tækja. Tog­streita Banda­ríkj­anna og Kína mun að auki hafa áhrif á frjáls heimsviðskipti. Þá er mik­il­vægt að eiga skjól á stór­um markaði sem trygg­ir viðskiptafrelsi í rík­ari og ör­ugg­ari mæli en við njót­um nú þegar.

Framtíðin

Þátt­taka okk­ar í fjölþjóðasam­starfi mótaðist á tíma kalda stríðsins. Heims­mynd­in er nú gjör­breytt. Við stönd­um and­spæn­is nýj­um áskor­un­um, ann­ars kon­ar valda­hlut­föll­um í heim­in­um og vax­andi þörf lýðræðisþjóðanna fyr­ir sam­vinnu, ekki bara um hervarn­ir held­ur einnig um grunn­gildi, menn­ingu, viðskipti og efna­hag.

Viðbrögð okk­ar við stríðinu í Úkraínu eiga því ekki að ein­skorðast við dag­inn í dag. Við þurf­um að horfa fram í tím­ann. Við þurf­um að meta stöðu Íslands í nýju ljósi og tryggja framtíðar­hags­muni lands­ins á öll­um sviðum.

Það ger­um við með auk­inni áherslu á aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu og varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in. En um leið þurf­um við að dýpka sam­starfið við Evr­ópu­sam­bandsþjóðirn­ar með fullri aðild Íslands. Hún hef­ur sjald­an verið brýnni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2022