Skiptir máli að standa við orð sín í stjórnmálum?

Mesta hól sem ég hef hlotið í pólitíkinni kom frá pólitískum andstæðingi, ef hægt er að kalla fólk andstæðinga, hann sagði hneykslaður að ég talaði eins eftir kosningar og fyrir kosningar. Reyndar átti þetta að vera pilla á mig en í mínum huga var ekki hægt að segja neitt fallegra við mig.

Þetta er einmitt hugleiðing mín í þessum pistli, að vera samkvæmur sjálfum sér í pólitík. Sá hópur sem oftast er svikinn eftir kosningar eru eldri borgarar. Það er eins og rótgrónir stjórnmálaflokkar taki atkvæðum eldra fólks sem gefnum, fólk fari ekki að skipta um stjórnmálaskoðun eftir sjötugt, eða hvað?

Tíðin hefur verið erfið undanfarin tvö ár. Kófið hefur haldið okkur frá mannamótum og nú loks þegar horfir til betri tíðar ákveða veðurguðirnir að gera lífið erfitt eitthvað áfram. Eldri borgarar hafa svo sannarlega fengið að kenna á ástandinu með einangrun og oft á tíðum aukinni einsemd og versnandi andlegri heilsu. Félagsstarf eldri borgara á að vera forgangsmál.

Það er því sorglegt að þeir flokkar sem mynda meirihluta bæjarstjórnar í Hafnarfirði og setja málefni eldri borgara gjarnan í öndvegi í aðdraganda prófkjara og kosninga, skuli ekki sjá sóma sinn í því að sjá til þess að moka snjó og hálkuverja við félagsaðstöðu eldri Hafnfirðinga, þeim að kostnaðarlausu.

Fulltrúar Viðreisnar í umhverfis- og framkvæmdaráði hafa vakið máls á þessu. Við trúum því og treystum að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjái sóma sinn í því að nýta völd sín og áhrif til handa þeim hópi sem búinn er að greiða sína skatta og sín gjöld í áratugi. Að þessum hópi sé sýndur í verki sá  sómi og það þakklæti sem eldri Hafnfirðingar eiga skilið, þó ekki sé nema til að líta betur út í prófkjörsviku flokksins.

Ég vildi óska þess að félagi minn í bæjarstjórn tæki upp á þeirri nýbreytni að framkvæma eftir kosningar það sem hann segist ætla að gera í kosningabaráttunni.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 3. mars 2022