Stærsti minni hluti ræður

Þorsteinn Pálsson

Skoðana­kannanir hafa í gegnum tíðina sýnt mikla ó­á­nægju með stjórn­kerfi fisk­veiða. Af­gerandi meiri­hluti er yfir­leitt á móti.
Við fyrstu sýn lýsa skoðana­kannanir því mjög ein­dreginni af­stöðu alls al­mennings.

Ein­föld spurning en flókinn veru­leiki

Frá því að fyrstu kvóta­lögin voru sett fyrir nærri fjórum ára­tugum hefur þjóðin gengið ellefu sinnum til al­þingis­kosninga. Þessi af­dráttar­lausa af­staða í skoðana­könnunum hefur hins vegar aldrei skilað sér inn í stjórnar­sátt­mála að kosningum loknum.

Hvers vegna í ó­sköpunum er þetta svona?

Svarið er: Veru­leikinn er flóknari en ein­faldar spurningar í skoðana­könnunum. Það kemur til að mynda fram í því að innan margra stjórn­mála­flokka eru afar skiptar skoðanir á málinu.
Þótt mikill meiri­hluti þjóðarinnar lýsi ó­á­nægju með kerfið í könnunum eru skoðanir kjós­enda jafn skiptar og flokkanna á því hverju eigi að breyta eða hvað eigi að koma í staðinn.

Af­leiðing sundrungar

Af­leiðingin af þessari sundrungu er sem sagt þessi: Stærsti minni­hluti á Al­þingi hefur frá fyrsta degi ráðið ferðinni.
Þegar margar ó­líkar skoðanir eru innan sama flokks leiðir það einnig til þess að for­ystu­menn hans setja ekki fram kröfur um breytingar þegar þeir fá tæki­færi til að semja um aðild að ríkis­stjórn. Stærsti minni­hlutinn heldur þá stöðu sinni.

Litlu minni­hlutarnir verða svo á­hrifa­lausir. Þannig er staðan enn í dag.

Helstu á­greinings­efnin eru þessi: 1. Gjald­taka. 2. Tíma­mörk veiði­réttar. 3. Fram­sal. 4. Veð­setning. 5. Út­hlutun eftir veiði­reynslu, með upp­boði eða sam­kvæmt pólitísku mati.

Þjóðar­eign eða sér­eign

Breið sam­staða hefur verið um að líta á fiski­miðin sem þjóðar­eign. Innan Sjálf­stæðis­flokksins heyrðist þó ný­lega það sjónar­mið að breytingar jafn­giltu þjóð­nýtingu.

For­sætis­ráð­herra kom ekki fram stjórnar­skrár­til­lögu um þjóðar­eign í fyrra þó að af­gerandi meiri­hluti sé fyrir henni á Al­þingi.

Þetta kann að skýrast af því að innan stærsta stjórnar­flokksins líti sumir á veiði­réttinn sem sér­eign út­gerðarinnar.

Tíma­mörk veiði­réttar

Við­reisn, Sam­fylking, Fram­sókn, VG, Píratar, Flokkur fólksins og hluti Sjálf­stæðis­flokks vilja tíma­bundinn veiði­rétt. Meiri­hluti Sjálf­stæðis­flokks og Mið­flokkur eru á móti.

Ríf­legur meiri­hluti er því á Al­þingi fyrir þessari mikil­vægu breytingu.

Hún nær hins vegar ekki fram að ganga vegna þess að Fram­sókn hefur fallið frá þessu grund­vallar­stefnu­máli í fimm ríkis­stjórnum frá alda­mótum, VG í þremur og Sam­fylking í tveimur.

Fram­sal og veð­setning

Frjálst fram­sal nýtur stuðnings Við­reisnar, Sjálf­stæðis­flokks, Sam­fylkingar, Fram­sóknar, Mið­flokks og hluta VG. Öruggur meiri­hluti er þannig fyrir því á Al­þingi.

Veð­setning skipa hefur alltaf náð til afla­heimilda þeirra. Ef lána­stofnanir fengju ekki veð í afla­hæfi skipa fengi enginn lán. Ríki eða sveitar­fé­lög yrðu því að gera út flest öll skip, þar á meðal smá­báta.

Ó­tví­ræður meiri­hluti er fyrir veð­setningu en Sam­fylking, Píratar og Flokkur fólksins eru á móti. Hluti VG er einnig á móti.

Út­hlutunar­reglur

Við­reisn og Sam­fylking styðja upp­boð á veiði­heimildum. Hluti Sjálf­stæðis­manna og fylgj­enda Pírata eru einnig þeirrar skoðunar.
Fram­sókn, Mið­flokkur, hluti VG og meiri­hluti Sjálf­stæðis­flokks styðja ó­breytt á­stand.
Hluti Pírata og hluti VG vilja pólitíska út­hlutun út frá byggða­sjónar­miðum.

Auð­linda­gjald

Ekkert raun­veru­legt auð­linda­gjald er greitt í dag. Í þess stað greiða út­gerðir mjög lágan við­bótar­tekju­skatt, sem kallast veiði­gjald.

Meiri­hluti Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar og Mið­flokkur vilja ó­breytt á­stand. VG vilja ó­breytt á­stand þegar þau eiga aðild að ríkis­stjórn.

Við­reisn, Sam­fylking, Píratar og Flokkur fólksins vilja hærri greiðslur fyrir veiði­rétt. Það gerir einnig hluti Sjálf­stæðis­flokks, hluti Fram­sóknar­flokks og hluti VG þegar þau eru í stjórnar­and­stöðu.

Grund­völlur sáttar

Þetta er grautar­leg mynd. En meðan þeir flokkar, sem fara í sam­starf með stærsta minni­hlutanum, sætta sig við ó­breytt á­stand heldur það á­fram.

Verði á hinn bóginn unnt að knýja fram breiðari mála­miðlun er lík­legast, sam­kvæmt þessari greiningu, að á­fram verði byggt á afla­hlut­deildar­kerfi með fram­sali. Breytingarnar fælust aftur á móti í tíma­bindingu veiði­réttar og hærra gjaldi, sem mögu­lega fengist með upp­boði á litlum hluta afla­hlut­deilda á hverju ári.

Sátt með þessum breytingum myndi við­halda þjóð­hags­legri hag­kvæmni en gera þjóðar­eignina virka.

Hvað er að óttast?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. mars 2022