Sterkt sveitarfélag fjárfestir í þágu íbúa

Geta sveitarfélaga til að ráðast í framkvæmdir og bæta þjónustu ræðst af stöðu bæjar- eða borgarsjóðs. Ef sveitarfélög standa sterk, geta þau staðið fyrir kraftmiklum fjárfestingum þegar á þarf að halda. Reykjavík, sem langstærsta og langöflugasta sveitarfélag landsins, hefur á undanförnum árum gefið kröftuglega í hvað varðar framkvæmdir, því við höfum haft möguleikana til þess. Fjölskyldur, atvinnulífið og hagkerfið allt hefur þurft á innspýtingu og stuðningi að halda og við því var brugðist.

Hægt er að sjá, af hve mikilli festu var brugðist í samantektum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á vef Sambandsins sést að sveitarfélögin öll og fyrirtæki þeirra stefna að því að fjárfesta fyrir tæpa 92 milljarða á þessu ári, umfram það sem þau ætla að selja af eignum.

Reykjavík stendur fyrir helmingi fjárfestinga

Fjárfesting Reykjavíkur og fyrirtækja hennar 2022 verður, samkvæmt þessu, 49% af heildarfjárfestingum sveitarfélaga. Á sama tíma eru öll önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu með 15% hlut. Þar er stærst Kópavogur með 7% fjárfestinga og Garðabær með um 5%, aðeins minna en framlag Árborgar til heildarfjárfestinga sveitarfélaga. Þetta er ekki einsdæmi.

Í fyrra voru fjárfestingar Reykjavíkur og fyrirtækja hennar um 57% af heildarfjárfestingum sveitarfélaga. Samanlagt framlag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til fjárfestinga, utan Reykjavíkur, var 12%.

Fjármálaráðherra óskaði eftir því að sveitarfélögin myndu taka þátt í að halda uppi atvinnulífi og fjölskyldum landsins, með því að auka við fjárfestingar. Svo virðist sem Reykjavík ein hafi hlustað hér á höfuðborgarsvæðinu og nýtt stærð sína og krafta til að styðja við aðgerðir ríkisins til að ýta efnahag Íslands upp úr efnahagslegum öldudal. Á sama tíma virðist sem ákall Bjarna hafi verið sett fram fyrir daufum eyrum bæjarstjórna hér í kring, sem öllum er stjórnað af Sjálfstæðisflokknum.

Með lægsta skuldahlutfallið

Þegar horft er á skuldahlutfall borgar- og bæjarsjóða á höfuðborgarsvæðinu í fjárhagsáætlunum 2022, er augljóst af hverju það stafar. Skuldahlutfall borgarsjóðs er mun lægra en annarra og hefur því meira rými til fjárfestinga. Hæst verður hlutfallið á Seltjarnarnesi, 142%. Í Hafnarfirði verður hlutfallið 135%. Í Mosfellsbæ verður hlutfallið 124%. Í Kópavogi verður hlutfallið 122%. Í Garðabæ verður hlutfallið 120%. Reykjavík rekur svo hér lestina með lægsta skuldahlutfall borgar- og bæjarsjóða, sem verður 114%.

Vegna stöðu sinnar hefur Reykjavík haft mikið rými til að fara í skynsamar fjárfestingar sem mun bæta þjónustu og einfalda lífið í borginni. Við höfum haft rými til að stórauka framlög til skóla og leikskóla og fara í stórátak í viðhaldsmálum skóla. Til að fjárfesta í stafrænni þjónustu sem mun umbylta allri þjónustu borginnar og vísa veginn fyrir önnur sveitarfélög. Við höfum haft rými til að fjárfesta með íþróttafélögum í íþróttamannvirkjum, byggja nýja sundlaug í Úlfarsárdal, endurhanna borgarrými og gera umhverfið okkar allt meira aðlaðandi.

Verkefni á komandi kjörtímabili

Það verða fjölmörg verkefni á næstu fjórum árum sem þarf að taka föstum tökum. Við höfum verið í stórátaki í fjárfestingum. Það átak á ekki að vara langt inn í verðbólgutíma og ef skortur verður hér á starfsfólki.

Við hófum undirbúning á sölu á Malbikunarstöðinni Höfða, sem þarf að klára. Þá er vert að skoða hvort betra sé að kaupa þjónustu einkaaðila til að sinna sumum öðrum verkefnum borgarinnar. Það á að vera forgangsatriði að þjónustan sem borgin veitir sé góð og sinnt af virðingu við borgarbúa. Það á að skipta minna hver greiðir þeim starfsmönnum laun og launatengd gjöld.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. mars 2022