Stríð sem breytir heimsmyndinni

Stríðið í Úkraínu hefur breytt öllu. Hlutverk stjórnmálanna núna er að bregðast við breyttri heimsmynd af ábyrgð. Það þarf að ræða og mynda skilning á hvaða áhrif hin breytta staða hefur á Evrópu og á Ísland. Út frá því tökum við svo næstu skref. Allir flokkar eiga þess vegna að sameinast um að fram fari opið samtal á vettvangi stjórnmálanna um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Þeir flokkar sem eru andvígir alþjóðlegu samstarfi innan Evrópusambandsins eiga ekki að neita þjóðinni um þetta samtal. Og þeir flokkar eiga ekki að óttast lýðræðislega og beitta umræðu. Þau viðbrögð að segja grundvallarmál ekki á dagskrá spegla ekki annað en ótta.

Söguleg samstaða

Alþjóðleg samvinna innan Evrópusambandsins, með fullri aðild Íslands, hefur sjaldan átt meira erindi við íslenskt samfélag. Heimsmyndin er einfaldlega gjörbreytt. Viðbrögðin við innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu sýna það. Þetta er árás á alla Evrópu og þau gildi sem standa hjarta okkar næst; lýðræði, frelsi og mannréttindi. Þessari árás höfum við mætt með aðgerðum af áður óþekktum þunga. Með efnahagsþvingunum sem fá ef nokkur fordæmi eru fyrir. Einnig markar vatnaskil í baráttunni við rússnesk stjórnvöld að Evrópusambandið hafi heimilað vopnaflutning til varnar Úkraínu, líkt og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, komst sjálf að orði þegar sambandið samþykkti slíkan flutning í fyrsta sinn í sögu þess.

Viðbrögð Íslendinga

Viðbrögð íslensks almennings við stríðinu í Úkraínu taka mið af þessari breyttu heimsmynd. Þær áskoranir sem við stöndum nú frammi fyrir færa okkur sannleikann um vaxandi og brýna þörf lýðræðisþjóða fyrir samvinnu hvað öryggi og hervarnir varðar, en samvinnan snýst þó ekki síður um að varðveitaf frelsi, lýðræði og mannréttindi og tryggja áfram öflugt samstarf á sviði viðskipta og efnahags. Það er af þessari ástæðu að Evrópuríkin tala nú fyrir nánara samstarfi innan Evrópu og almenningur virðist á sama máli. Hér heima segist helmingur Ísendinga hlynntur aðild að Evrópusambandinu á meðan þriðjungur er andvígur. Þar blasir við að hagsmunum fámenns ríkis er best borgið í nánara samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.

Sterkari staða Íslands í Evrópusamstarfi

Það er í þessum anda sem þingflokkur Viðreisnar hefur nú lagt fram þingsályktunartillögu um aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnamálum sem miðar meðal annars að því að að styrkja stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu. Þannig tryggjum við best öryggishagsmuni landsins og styrkjum pólitíska stöðu þess. Hagsmunir okkar eru samofnir hagsmunum Evrópu. Þessir hagsmunir felast í vörnum, efnahagslegu öryggi, varðveislu friðar, lýðræðis og frelsis. Þröngir sérhagsmunir mega ekki standa þessum hagsmunum í vegi.

Helsta markmið Evrópusambandsins frá upphafi hefur verið að tryggja frið og lýðræði. Evrópusambandið var stofnað til að koma í veg fyrir stríð og standa saman að friði. Nú stöndum við frammi fyrir baráttu um gildi, baráttu fyrir gildum lýðræðis, frelsis, mannréttinda og friðar. Þessi gildi hafa kannski stundum gleymst í umræðu um Evrópuhugsjónina, enda hefur Evrópa blessunarlega að mestu verið laus undan hörmungum stríðsreksturs og stríðsglæpa. Áherslan hefur fyrst og fremst verið á efnahagslega hagsmuni, sem tengjast þessum gildum sannarlega sterkt en tengsl viðskipta og efnahagsmála við meginmarkmiðið um frið eru kannski ekki ofarlega í huga á friðartímum. En eftir síðari heimsstyrjöld þegar stríð var fólki ofarlega í huga gerðu lýðræðisþjóðir sér grein fyrir því að útilokað væri að tryggja frið og öryggi eingöngu með hervörnum. Viðskiptafrelsi, vaxandi hagsæld og sömu leikreglur fyrir alla eru þannig vörður að markmiðinu um frið og hafa jafnframt mikilvæga sjálfstæða þýðingu. Það breytir því ekki að varnir og viðskiptafrelsi voru á þeim tíma tvær hliðar á sama peningi.

Þörf á umræðu um pólitíska stöðu Íslands í Evrópu

Breytt heimsmynd hefur framkallað viðhorfsbreytingu hjá þjóðinni. Ákveðnir stjórnmálaflokkar kjósa að líta undan en vindarnir í samfélaginu blása einfaldlega eins og þeir gera,óháð þessum flokkum. Síðustu atburðir kalla á þéttara samstarf innan Atlantshafsbandalagsins og aukið framlag af hálfu Íslands til sameiginlegra verkefna bandalagsþjóðanna. ÍSvíþjóð og í Finnlandi er vaxandi umræða um fulla aðild landanna að Atlantshafsbandalaginu. Skoðanakannanir sýna meirihlutastuðning við slíka grundvallarbreytingu. Einnig hafa Danir breytt stefnu sinni í öryggismálum, annars vegar með auknum útgjöldum til varnarmála og hins vegar með því að falla frá fyrirvara þeirra gagnvart ESB um varnarmál, samþykki danska þjóðin það í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Nálgun Þýskalands hefur sömuleiðis breyst, rétt eins og margra aðildarríkja Evrópusambandsins sem hafa þegar ákveðið að auka framlög til varnarmála.

Nú þarf að eiga sér stað opin og beinskeytt umræða um pólitíska og efnahagslega stöðu Íslands í Evrópu. Ljóst er að varnar- og öryggismál munu fá stærra hlutverk í Evrópusamstarfinu vegna innrásarinnar í Úkraínu og þar getur Ísland styrkt áhrifastöðu sína með því að sitja við borðið í Evrópusambandinu eins og í Atlantshafsbandalaginu. Það gerir okkur kleift að taka sterkari afstöðu með friði, lýðræði og grundvallarmannréttindum á sama tíma og eigin hagsmunir eru tryggðir. Reynslan af alþjóðastarfi okkar síðustu ára og áratuga hefur sýnt okkur það og nú eigum við að taka skrefið til fulls innan Evrópu.

Greinin birtist fyrst á Vísi 21. mars 2022