Þjóðaröryggi og frelsi

Stríðsátökin í Úkraínu og breytt heimsmynd kalla á nánari samvinnu innan NATÓ og ESB. Ísland er þar engin undantekning. Viðreisn hefur nú lagt fram þingsályktunartillögu um aukið samstarf í utanríkis,- öryggis- og varnarmálum.

Við teljum þörf á áætlun um aukna þátttöku Íslands í borgaralegum störfum vegna sameiginlegra verkefna NATÓ. Nú þegar bandalagsríki okkar stórauka framlög til varnarmála er rétt að Ísland leggi sitt af mörkum, með sínum hætti.

Þegar öryggisumhverfi heimsins er gjörbreytt verður að taka upp virkt samtal við þann aðila sem hefur skuldbundið sig til að tryggja ytri varnir ríkisins. Það er mikilvægt að varnarsamningurinn við Bandaríkin feli í sér vörn gegn netárásum og tryggi órofið samband Íslands við umheiminn á ófriðartímum, svo sem á sviði flutninga, fjarskipta og orkuöryggis. Þörf er á skýrari og afgerandi verkferlum, komi til þess að virkja þurfi aðstoð á ófriðartímum.

Meta þarf fordómalaust út frá hagsmunum landsins hvort tryggja þurfi viðvarandi veru varnarliðs hér á landi. Forsætisráðherra slær þennan möguleika sjálfkrafa út af borðinu, mat á öryggishagsmunum má ekki einu sinni fara fram. Þetta er varasamt út frá sjónarmiðum þjóðaröryggis; viðkvæmni innan flokks forsætisráðherra við að nefna varnarlið og NATÓ getur ekki ráðið för.

Samvinna þjóða um varnarmál og viðskipti eru tvær hliðar á sama peningnum. Þar sem frelsi, lýðræði og efnahagslegur stöðugleiki ríkir eru meiri líkur á að varanlegur friður ríki. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi veru okkar í NATÓ og samkvæmt nýjustu könnunum er tæpur helmingur þjóðarinnar fylgjandi aðild að ESB en einungis þrettán prósent alfarið andvíg. Hér sjáum við miklar breytingar á viðhorfum almennings. Skiljanlega. Öryggi smáþjóðar, gildi hennar og staða er sterkari, verandi fullur þátttakandi í stærri heild.

Það er brýnna en nokkru sinni fyrr að ræða utanríkis- og varnarmál í heildstæðu samhengi og leggja mat á hvar hagsmunum Íslands er best borgið. Virkari þátttaka í NATÓ og full aðild að Evrópusambandinu eru þar augljósir kostir. Síðustu atburðir sanna það. Þess vegna leggjum við fram okkar þingsályktunartillögu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. mars 2022