Veikur stjórnarsáttmáli á örlagatímum

Þorsteinn Pálsson

Stríð Rússa gegn Úkraínu varpar skýru ljósi á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs í utanríkis- og varnarmálum.

Stefna Íslands hefur um langa hríð falist í vestrænum gildum: lýðræði, mannréttindum, velferð og frjálsum viðskiptum.

Þessum markmiðum höfum við náð fram með aðild að Atlantshafsbandalaginu og innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn.

Atburðir síðustu daga eru til marks um að þetta er í raun grundvöllurinn, sem Ísland stendur á í samfélagi þjóðanna.

Fjallabaksleið

Í þessu ljósi er fróðlegt að skoða hvernig stjórnarflokkarnir nálgast þetta viðfangsefni í þriggja mánaða gömlum stjórnarsáttmála.

Í formálanum er ekki minnst á utanríkis- og varnarmál. Það er heldur ekki gert í þeim hluta sáttmálans sem lýsir stefnu stjórnarinnar. Í verkefnalistanum er hins vegar kafli um utanríkis- og alþjóðamál og þróunarsamvinnu.

Hornsteinar utanríkisstefnunnar eru taldir þar: Auk lýðræðis og mannréttinda eru það friðsamlegar lausnir, sjálfbær þróun og jafnrétti kynjanna. Síðan segir að norrænt samstarf sé grundvallarþáttur í alþjóðlegu samstarfi Íslands.

Atlantshafsbandalagið er hvergi nefnt berum orðum. Aftur á móti er vísað í samþykkt Alþingis um þjóðaröryggisstefnu. Þetta er að fara fjallabaksleið að veruleikanum.

Gamall frasi

Varðandi hina raunverulegu meginstoð utanríkisstefnunnar segir í verkefnaþætti stjórnarsáttmálans að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Orðalagið er tekið beint úr ræðum og skrifum talsmanna Sósía­listaflokksins og Alþýðubandalagsins á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þá tók þessi frasi til beggja bandalaganna í Evrópu.

Þetta er hins vegar sérkennileg yfirlýsing í stjórnarsáttmála árið 2022 í ljósi þess að í þrjá áratugi hefur Ísland átt fulla aðild að innri markaði Evrópusambandsins, sem er uppistaðan í starfi þess.

Þrátt fyrir þessi afdráttarlausu orð í stjórnarsáttmálanum verður ekki annað séð en utanríkisráðherra líti svo á, bæði í orðum og athöfnum, að aðildin að innri markaði Evrópusambandsins sé annar hornsteinn utanríkisstefnunnar ásamt þátttöku í Atlantshafsbandalaginu.

Öfugt við stjórnarsáttmálann hefur málflutningur utanríkisráðherra verið skýr og fölskvalaus.

Feluleikur

Ósamræmi á milli stjórnarsáttmála og raunveruleika í utanríkis- og varnarmálum á rætur að rekja til þess að innan allra stjórnarflokkanna er andstaða við hluta stefnunnar, sem forystumenn þeirra hafa ekki treyst sér til að takast á við.

Innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar er andstaða við aðildina að innri markaði Evrópusambandsins. Hún er fárra ára gömul. VG er aftur á móti andvígt aðild að Atlantshafsbandalaginu frá gamalli tíð. Í stjórnarsáttmálanum reyna forystumennirnir að fela þennan vanda.

Feluleikur með svo veigamikil atriði, sem snúa að sjálfu öryggi, fullveldi og efnahagslegu sjálfstæði landsins, er ekki hættulaus á örlagatímum.

Og hinu má ekki gleyma að efnahagssamstarfið snýst ekki bara um frelsi í viðskiptum og hagvöxt. Það er órjúfanlegur þáttur í varðveislu friðar.

Hættan

Gæfumunur Íslands og Úkraínu felst í skjólinu, sem þessar tvær raunverulegu meginstoðir utanríkisstefnunnar veita.

Stjórnvöld eiga ekki að gefa í skyn að norrænt samstarf sé grundvöllur utanríkisstefnunnar þegar hún í raun byggir á aðild að Atlantshafsbandalaginu og innri markaði Evrópusambandsins.

Engum vafa er undirorpið að mikill meirihluti þjóðarinnar styður raunverulegu utanríkisstefnuna.

En fari stjórnvöld í kringum þá hluti eins og köttur um heitan graut getum við einn góðan veðurdag staðið andspænis því að skilninginn skorti.

Ríkisstjórnin ætti því að endurskrifa stjórnarsáttmálann svo að raunveruleikinn blasi þar skýr við landsmönnum og öðrum þjóðum.

Norrænt samstarf

Í Svíþjóð og Finnlandi er vaxandi stuðningur við að færa formlegt samstarf landanna við Atlantshafsbandalagið á nýtt stig með fullri aðild. Það myndi treysta mjög norræna samvinnu.

Alveg á sama hátt er eðlilegt að setja á dagskrá stjórnmálaumræðunnar hér heima spurninguna um fulla aðild að Evrópusambandinu.

Við erum nú þegar aðilar að kjarna Evrópusamstarfsins. Lokaskrefið myndi styrkja efnahagslega stöðu Íslands og veita traustara pólitískt skjól á þeim óvissutímum, sem fram undan eru. Hagsmunum Íslands er best borgið með því.

Slíkt skref myndi styrkja til muna norræna samvinnu og að því leyti vera í góðu samræmi við það sem stjórnarsáttmálinn segir um ágæti hennar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2022