Draugagangur í kerfinu

Dag­legt líf er smám sam­an að fær­ast í eðli­legt horf aft­ur hér á landi eft­ir Covid-far­ald­ur síðustu tveggja ára. Allra mest hef­ur álagið verið á heil­brigðis­kerf­inu okk­ar og því fag­fólki sem þar starfar og verst var staðan á Land­spít­al­an­um. „Ómann­eskju­legt álag“ var lýs­ing­in sem gjarn­an var notuð á ástand­inu. Þar hlýt­ur fólk að fagna því sér­stak­lega að vera komið aft­ur í hefðbundið at hins dag­lega lífs.

Málið er hins veg­ar ekki al­veg svo ein­falt. Til viðbót­ar við það gríðarlega álag sem Covid hafði í för með sér þá af­hjúpaði far­ald­ur­inn líka ýmsa veik­leika í kerf­inu okk­ar. Að auki leiddi hann til þess að gaml­ir draug­ar sem hafa herjað á heil­brigðis­kerfið allt of lengi voru látn­ir óáreitt­ir í myrkr­inu. Nú er orðið tíma­bært að baða draug­ana ljósi með það fyr­ir aug­um að reyna að hrekja þá á brott einn af öðrum.

Mig lang­ar hér að beina at­hygl­inni að var­huga­verðri þróun í rann­sókn­ar­starfi Land­spít­al­ans. Í ný­legri skýrslu ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæk­is­ins McKins­ey um framtíðarþróun þjón­ustu Land­spít­ala er sýnt fram á van­fjár­mögn­un og van­rækslu við að efla hlut vís­inda í starf­semi spít­al­ans, en um er að ræða eitt af lög­bundn­um hlut­verk­um hans. Af­leiðing­arn­ar eru víðtæk­ar, m.a. glötuð tæki­færi til ný­sköp­un­ar og bættr­ar þjón­ustu við sjúk­linga auk þess sem erfitt er að laða vel menntað fag­fólk til starfa og halda því í starfi, eins og fram kem­ur í nýrri álykt­un stjórn­ar Fé­lags pró­fess­ora við rík­is­háskóla.

Þetta er ekki ný staða. Fyr­ir fjór­um árum spurði ég þáver­andi heil­brigðisráðherra út í málið og vísaði ann­ars veg­ar í tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar sem sýndu að Land­spít­al­inn fengi um­tals­vert minna fjár­magn en sam­bæri­leg­ar stofn­an­ir til rann­sókna og hins veg­ar í yf­ir­lit um vís­inda­lega birt­ar rann­sókn­ir spít­al­ans sem sýndu að Land­spít­al­inn væri í vax­andi mæli sam­starfsaðili sem út­veg­ar gögn en ekki sá aðili sem leiddi. Rann­sókn­arniður­stöður Land­spít­al­ans vektu minni at­hygli en þær gerðu 10 árum áður og vís­bend­ing­ar væru um að leiðin lægi enn niður á við. Þáver­andi ráðherra viður­kenndi að þetta væri sér­stakt áhyggju­efni sem þyrfti að bregðast við.

Heil­brigðisráðherra og ráðherra vís­inda, iðnaðar og ný­sköp­un­ar þurfa að bregðast þegar í stað við nýj­um ábend­ing­um eig­in ráðgjafa með því að efla stuðning við vís­inda­hlut­verk spít­al­ans. Verði það ekki gert er ein­fald­lega hol­ur hljóm­ur í metnaðarfull­um mark­miðum og fal­leg­um lof­orðum. Það þarf að standa und­ir ábyrgð með aðgerðum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2022