Enginn yrkir fallegt ljóð

Þorsteinn Pálsson

Íljóði Tómasar svipar hjörtum mannanna saman í Súdan og Grímsnesinu. Nú slá pólitísku hjörtun í takt í Stjórnarráðshúsinu og Downingstræti 10. En enginn yrkir fallega um það.

Breski forsætisráðherrann vildi láta innanbúðarúttekt nægja vegna Partygate, en stjórnarandstaðan krafðist rannsóknar á vegum þingsins, auk lögreglurannsóknar. Á endanum létu þingmenn Íhaldsflokksins undan þungu almenningsáliti.

Forsætisráðherra Íslands vill láta stjórnsýsluúttekt á bankasöluhneykslinu duga. Stjórnarandstaðan leggur til rannsókn á vegum þingsins. Munurinn er sá að hér slá hjörtu allra stjórnarþingmanna í takt við Boris.

Pólitíska leikjafræðin er þekkt: Að þæfa siðferðilega erfið mál nógu lengi í von um að vitund almennings gufi upp.

Pólitísk gildi

Stríð ríkisstjórnarinnar við almenningsálitið snýst mest um pólitískar ákvarðanir hennar sjálfrar.

  1. Ríkisstjórnin ákvað að selja lokuðum hópi fagfjárfesta. Hún vissi nákvæmlega hverjir tilheyrðu þeim hópi. Ríkisstjórnin hafnaði hugmynd ráðherra samkeppnis- og neytendamála um opna almenna sölu.
  2. Ríkisstjórnin ákvað að selja þessum afmarkaða hópi eign ríkisins með afslætti, án þess að gild viðskiptaleg og enn síður nokkur siðferðileg rök stæðu til þess.

Það þarf ekki rannsókn til að leiða þetta í ljós. Reiði almennings beinist að þeim siðferðilegu gildum, sem búa að baki þessum pólitísku ákvörðunum.

Það er ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til pólitískra og siðferðilegra álitaefna af þessu tagi. Þessi hluti málsins snýst einfaldlega ekki um lög eða verkferla. Hann snýst um þá ábyrgð á pólitískum gildum ríkisstjórnarinnar, sem þingmenn stjórnarflokkanna bera einir.

Lögin

Helstu lagalegu álitaefnin eru fimm:

  1. Gat fjármálaráðherra framselt það vald og þá ábyrgð, sem lög um bankasölu og fjárlög mæla skýrt fyrir um að liggi hjá honum?

2. Hver átti að samþykkja eða synja tilboðum frá nákomnum ættingjum fjármálaráðherra? Svarið gæti oltið á því hvort framsal á valdi og ábyrgð ráðherra var gilt.

3. Átti ekki sá ráðherra, sem fer með málefni fjármálaeftirlitsins, að víkja sæti þegar það hóf rannsókn á máli, sem hann ber stjórnskipulega ábyrgð á?

4. Ríkisstjórnin virti að vettugi skýr fyrirmæli laga um að kappkosta að auka virka samkeppni við sölu á eignarhlutum. Hver ber ábyrgð á þessari vanrækslu?

5. Grunsemdir eru um innherjaviðskipti. En þar ná rannsóknarheimildir fjármálaeftirlitsins hvorki til Bankasýslunnar né ráðuneytisins.

Þessi lögfræðilegu álitaefni eru ekki flókin og málsatvik liggja ljós fyrir. Hvert og eitt þeirra, nema kannski það fimmta, geta gert stjórnskipulega og um leið pólitíska ábyrgð virka. En draga verður í efa að rétt sé að úrskurða um lagalega ábyrgð með stjórnsýsluúttekt.

Alþingi

Tvær nefndir þingsins fengu skriflegar upplýsingar um væntanlegt söluferli. Með nákvæmum lestri máttu stjórnarþingmenn og aðrir hugsanlega gera sér grein fyrir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að selja eign ríkisins með afslætti til lokaðs hóps fjárfesta, hverjir tilheyrðu honum og að sumir myndu innleysa hagnaðinn strax.

Siðferðilegi vandinn er sá að ráðherrarnir sögðu þingmönnum og þjóðinni að þeir væru einungis að selja fáum öflugum og ábyrgum fagfjárfestum, sem treysta mætti til að hafa langtíma áhuga á rekstri bankans. Fyrir vikið segjast stjórnarþingmenn koma af fjöllum.

Hér eru áhöld um hvort ríkisstjórnin var með orðræðu af þessu tagi að villa um fyrir Alþingi. Gagnvart almenningi lítur málið þannig út. Þetta er alvarleg spurning um siðareglur ráðherra og alþingismanna og ætti að afgreiða samkvæmt því. Ríkisendurskoðun á tæpast úrlausn um það.

Kjósendur

Eftir eðlilegum lýðræðislegum leikreglum ákveður forsætisráðherra hvort þeir þurfa að axla pólitíska ábyrgð, sem hana bera. En hún getur ekki bæði vikið sér undan því hlutverki og hafnað rannsóknarnefnd þingsins.

Þau siðferðilegu gildi, sem forsætisráðherra talar fyrir, njóta enn stuðnings þingmanna stjórnarflokkanna, þar á meðal viðskiptaráðherra, sem í byrjun talaði um nauðsyn á pólitískri ábyrgð.

Kannski er einfaldasta útgönguleiðin fyrir stjórnarflokkana að setja málið bara í dóm kjósenda í næsta mánuði. Þar gætu þeir spurt kjósendur: Eiga þessi sameiginlegu pólitísku gildi okkar ekki erindi inn í þína borgarstjórn, bæjarstjórn eða sveitarstjórn?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. apríl 2022