Forboðið umræðuefni

Í dymbilvikunni átti fréttavaktin á sjónvarpsstöðinni Hringbraut viðtal við Jón Daníelsson, prófessor við LSE, um bankasöluna. Þar komu fram þrjú kjarnaatriði, sem ríkisstjórnin hefur forðast eins og heitan eld að ræða og aðrir fjölmiðlar hafa ekki gefið gaum:

  1. Hann staðhæfir að íslenskir bankar skili miklu meiri hagnaði en bankar í kringum okkur.
  2. Hann staðhæfir að það sem valdi þessu sé að bankaþjónusta hér á landi sé sú dýrasta í Evrópu.
  3. Hann staðhæfir að bankarnir njóti fákeppnishagnaðar því girðingar verji þá fyrir samkeppni.

Þessi afdráttarlausa og skýra framsetning dregur vel fram þann vanda sem blasir við öllum almenningi og þorra fyrirtækja sem eiga viðskipti við íslensku bankana og geta ekki annað. Því þau eru bundin í krónuhagkerfinu.

Það hallar á fyrirtæki og launafólk í þessum samskiptum. Vegna skorts á samkeppni standa bankarnir betur að vígi. Sú pólitíska og siðferðilega skylda hvílir á stjórnvöldum að jafna stöðuna. Í því efni hefur ekkert gerst í fimm ár. Hitt er lagaskylda þegar hlutir í fjármálafyrirtækjum eru seldir að huga að virkari samkeppni og stíga með því móti skref í þágu fyrirtækja og launafólks. Stjórnarflokkarnir hafa verið einhuga í að sinna í engu þessu lögboðna hlutverki.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins um bankasöluna í fyrra sagði þetta: „Það er því áhyggjuefni að í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um söluna á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, sem liggur til grundvallar umfjöllun fjárlaganefndar er ekki að finna neina umfjöllun er lýtur að áhrifum sölunnar á samkeppnisaðstæður á íslenskum fjármálamarkaði.“

Ríkisstjórnin þekkir lögin. Hún þekkir vandann. Hún veit af áhyggjum samkeppnisyfirvalda. Samt hefur hún ekkert aðhafst, aðhafðist ekkert í fyrra og aðhefst ekkert núna. Samkeppni á fjármálamarkaði í þágu fyrirtækja og launafólks er eitt af mörgum forboðnum umræðuefnum ríkisstjórnarinnar.

Ríkið á ekki að vera umsvifamesti leikandinn á bankamarkaði. En ríkisstjórn sem hundsar ítrekað kröfur um virkari samkeppni er ekki að vinna í þágu almannahagsmuna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. apríl 2022