Hvers vegna þarf að reisa girðingu milli þings og þjóðar?

Í Svíþjóð fer nú fram mik­il póli­tísk umræða um breytta heims­mynd í kjöl­far árás­ar Rúss­lands á Úkraínu, hver áhrif­in eru á Svíþjóð og hvernig Sví­ar geta tryggt ör­yggi sitt og varn­ir í kjöl­farið. Umræða um Atlants­hafs­banda­lagið er mik­il og eng­inn flokk­ur tal­ar um að „málið sé ekki á dag­skrá“. Þar fer fram opið og bein­skeytt sam­tal sem all­ir stjórn­mála­flokk­ar taka þátt í. Stjórn­mál­in nálg­ast krísu­ástand af ábyrgð með umræðu um hags­muna­mat sænsku þjóðar­inn­ar. Nálg­un sem er til fyr­ir­mynd­ar og um leið nauðsyn­leg. Viðbrögð rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur við þings­álykt­un­ar­til­lögu Viðreisn­ar, Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Pírata um að fram fari þjóðar­at­kvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram aðild­ar­viðræðum Íslands við Evr­ópu­sam­bandið hef­ur verið önn­ur. Viðbrögð for­sæt­is­ráðherra bera með sér að hún vilji helst ekki ræða málið og alls ekki við þjóðina. For­sæt­is­ráðherr­ann hef­ur í raun reist girðingu á milli þings og þjóðar með um­mæl­um um að þing­meiri­hluta þurfi til að þjóðin megi segja sitt í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Það hef­ur fjár­málaráðherra einnig gert með um­mæl­um um að þjóðar­at­kvæðagreiðslur geti verið tóm vand­ræði. Ut­an­rík­is­ráðherra sagði svo um liðna helgi að þetta með þjóðar­at­kvæðagreiðslur væri vandmeðfarið. Hvers vegna ætli viðbrögð ráðherr­anna séu á þessa leið? Hvað er svona hættu­legt við umræðu um hvernig hags­mun­ir Íslands eru best tryggðir?

Stjórn­mála­flokka að leiða sam­talið

Það hef­ur ríkt mik­ill sam­hug­ur á Alþingi um ein­dreg­inn stuðning við málstað Úkraínu, um mik­il­vægi refsiaðgerða gagn­vart Rússlandi og um það að liðsinna eigi fólki í Úkraínu á all­an þann hátt sem okk­ur er unnt. Í kjöl­far þarf jafn­framt að ræða hvaða áhrif hin breytta staða hef­ur fyr­ir Evr­ópu og Ísland. All­ir flokk­ar ættu þess vegna að sam­ein­ast um að fram fari sam­tal um kosti og galla aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu. Stjórn­mála­menn mega ekki hræðast efn­is­lega umræðu um þetta mál. Af þeirri umræðu sem nú fer fram í ríkj­un­um í kring­um okk­ur má sjá að flokk­arn­ir líta all­ir á það sem hlut­verk sitt að taka þátt í umræðu um stöðuna og viðbrögð við henni, óháð því hver afstaða þeirra er.

Þjóðar­at­kvæðagreiðsla og umræða í aðdrag­anda henn­ar er frá­bær leið til að þroska sam­talið um stöðu Íslands og hags­muni lands­ins gagn­vart Evr­ópu­sam­vinn­unni. Þessu sam­tali ættu all­ir stjórn­mála­flokk­ar að fagna en ekki að hlaupa frá umræðunni.

Er betra að eiga eng­an full­trúa?

Alþjóðleg sam­vinna inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins, með fullri aðild Íslands, hef­ur sjald­an átt meira er­indi við ís­lenskt sam­fé­lag. Viðbrögð Evr­ópu allr­ar við inn­rás Rúss­lands í Úkraínu bera þess sterkt merki. Það sjá­um við til dæm­is á því þegar Evr­ópu­sam­bandið til­kynnti um fyr­ir­hugaða vopna­flutn­inga til Úkraínu. Sú ákvörðun er sögu­leg af hálfu sam­bands­ins.

Við okk­ur blas­ir vax­andi þörf lýðræðisþjóða fyr­ir sam­vinnu, sem snýr að ör­yggi og vörn­um en ekki síður að grunn­gild­um þeirra; sam­vinnu um frið, frelsi, lýðræði, viðskipti og efna­hag. Það er af þess­ari ástæðu að meiri­hluti Finna er nú í fyrsta sinn hlynnt­ur NATO-aðild. Finnska þjóðin upp­lif­ir rétti­lega að heims­mynd­in er breytt. Það er af þess­ari ástæðu að helm­ing­ur Íslend­inga er nú hlynnt­ur aðild að Evr­ópu­sam­band­inu en aðeins um þriðjung­ur er and­víg­ur. Breytt heims­mynd hef­ur leitt til viðhorfs­breyt­ing­ar hjá þjóðinni.

Evr­ópu­sam­bandið var stofnað til að ríki gætu staðið sam­an að friði. Nú þegar þess­um gild­um ógnað er bar­átta fyr­ir lýðræði, frelsi og friði haf­in. Það mun styrkja full­veldi Íslands en ekki veikja að vera á meðal Evr­ópu­sam­bands­ríkja. Hags­mun­um fá­menns rík­is er best borgið í ná­inni sam­vinnu og auknu sam­starfi við aðrar Evr­ópuþjóðir, frem­ur en að standa fyr­ir utan.

Þjóðin eigi loka­orðið

Umræða um póli­tíska og efna­hags­lega stöðu Íslands í Evr­ópu er bæði mik­il­væg og nauðsyn­leg. Sterk rök hníga nú að því að al­menn­ing­ur taki af­stöðu til aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu ekki síst vegna nýs veru­leika í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um og hlut­verks Evr­ópu­sam­bands­ins í þeim efn­um. Ísland get­ur styrkt áhrifa­stöðu sína með því að sækj­ast eft­ir sæti við borðið í Evr­ópu rétt eins og í Atlants­hafs­banda­lag­inu. Mik­il­vægt er að þessi rök­ræða um áhrif breyttr­ar heims­mynd­ar sem og um kosti og galla aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu fái að fara fram og að henni ljúki með þjóðar­at­kvæðagreiðslu um áfram­hald aðild­ar­viðræðna. Eng­in skref verða tek­in fyrr en þjóðin hef­ur tekið ákvörðun þar um. Hags­mun­irn­ir eru ein­fald­lega þess eðlis að það er þjóðar­inn­ar að taka ákvörðun um næstu skref.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2022