Í hvaða liði viltu vera?

Guðbrandur Einarsson

Árás Rússlands á Úkraínu hefur gert það að verkum að margir hafa verið að endurskoða afstöðu sína til ýmissa hluta. Umræða um fæðuöryggi hefur meðal annars farið aðf stað og margir óttast að stríðsátök geti breiðst út til annarra landa.

Þá hafa margar þjóðir verið að skoða stöðu sína í samfélagi þjóðanna en einnig framlög sín til varnar- og öryggismála. Bæði Þjóðverjar og Danir eru að stórauka framlög sín til sinna herja og Finnar og Svíar, sem verið hafa utan NATO, útiloka nú ekki að sækja um aðild að bandalaginu. Það fyrsta sem forseti Úkraínu óskaði eftir til þess að styrkja stöðu landsins, við þessar skelfilegu aðstæður, var að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þar sem hann taldi að landinu væri best borgið í samfélagi þjóðanna í Evrópu.
Hvers vegna skyldi það vera?

Hér á Íslandi er umræðan um Evrópusambandið oftast lituð af eiginhagsmunum. Hvað fáum við út úr því að ganga í ESB? Vissulega er gott að spyrja slíkra spurninga og í mínum huga er enginn vafi á því að Ísland myndi njóta góðs af fjölmörgu sem þar er til staðar, aukins stöðugleika í efnahagsmálum og lýðræðislegrar aðkomu að því að skrifa þær reglur sem við innleiðum nú þegar. Ég er sannfærður um að ef gerð yrði hagsmunagreining á kostum þess að ganga í ESB þá myndu kostirnir vera mun fleiri en að standa fyrir utan sambandið. En við sem þjóð eigum líka að velta því fyrir okkur hvað við getum lagt til. Viljum við taka þátt í þeirri viðleitni Evrópu að skapa frið og velsæld í allri Evrópu, þar sem unnið hefur verið að því að tengja Evrópulöndin betur saman og jafna lífskjör milli Evrópulanda? Það var og hefur verið tilgangur Evrópusambandsins og flest lönd Evrópu hafa tekið ákvörðun um að fylkja sér á bak við þau markmið.

Hvenær skyldum við Íslendingar taka ákvörðun um að gera slíkt hið sama?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl 2022