Laskaðir leiðtogar

Íslendingar þurfa að ræða mun betur hvaða skyldur og ábyrgð fylgja ráðherraembættum og hvernig útfærslan á að vera. Við getum ekki haft ráðherra þar sem spurningum er ósvarað um tiltekna gagnrýniverða hegðun þeirra og ákvarðanir. Það veikir stöðu ráðherranna, dregur úr trúverðugleika og gengur gegn almannahagsmunum.

Þetta er lausleg samantekt á orðum Henrýs Alexanders Henrýssonar siðfræðings sem hefur verið kallaður til álits í fjölmiðlum undanfarna daga vegna umdeildra orða og athafna ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Rasísk ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra og formanns Framsóknarflokksins, eru alvarleg, en yfirhylmingin í kjölfarið var þó enn alvarlegri. Samt svo óþægilega kunnugleg. Þessi nálgun að bíða og vona að ekkert spyrjist út í stað þess að taka ábyrgð og klára málið. Svo þegar fréttir fara að leka af uppákomunni þá er einhver gerður út af örkinni til að afneita, segja ósatt. Þegar það dugar ekki, gerir jafnvel bara illt verra, þá kemur hálfvolg afsökunarbeiðni. Og gott ef það fylgir ekki með í umræðunni að almenningur þurfi að bera lærdóm af málinu. Við erum jú öll í þessu saman. Eftir situr laskaður ráðherra.

Svo selja stjórnvöld banka. Ef það er eitthvað sem situr óuppgert í íslenskri þjóðarsál þá er það einkavæðing bankanna á árunum fyrir hrun. Það var því öllum ljóst að aðferðafræðin við bankasöluna núna yrði að vera hafin yfir allan vafa ef sátt ætti að nást um málið. Í ljósi þess hvernig til tókst er eðlilegt að spyrja hvort ríkisstjórninni hafi einfaldlega verið slétt sama um þá sátt.

Hvort heldur er, er söluferlið nú orðið að enn einu deilumálinu í meðförum ríkisstjórnarinnar. Ekki vegna upprunalegra markmiða sölunnar á Íslandsbanka, sem Viðreisn hefur alltaf stutt, heldur vegna útkomunnar. Salan var mikilvægt skref í þá átt að losa um eignarhlut ríkisins í fjármálakerfinu en táknrænt gildi hennar og siðferðisleg skilaboð skipta líka miklu máli.

Bankasýslu ríkisins var falið, að höfðu samráði við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um tímasetningar, skiptingu áfanga og söluaðferðir, að tryggja að útfærslur á útboðsskilmálum yrðu í samræmi við greinargerð ráðherrans um söluna. Hvaða skilyrði voru sett í útboðinu til að tryggja dreift eignarhald og fjölbreytileika? Hvernig voru langtímafjárfestar skilgreindir? Hvernig voru skammtímafjárfestar skilgreindir? Af hverju var ekki sett skilyrði um orðspors­áhættu, samanber almennt skilyrði um að stuðla að samkeppni?

Stjórnarandstaðan á þingi óskaði eftir aðkomu sérstakrar rannsóknarnefndar til að fara ofan í kjölinn á þessu máli en þingmenn stjórnarflokkanna kusu að fylgja ráðum fjármálaráðherra og leita til Ríkisendurskoðunar sem hefur ekki yfir jafnvíðtækum rannsóknarheimildum að ráða. Þar að auki var úr röðum stjórnarliða strax hafin sterk sókn gegn stjórn og forstjóra Bankasölunnar sem framkvæmdi söluna að beiðni og samkvæmt forskrift fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á ferlinu. Bíða, afneita, finna blóraböggul. Sagan endalausa.

Eftir að þingið er farið í páskahlé stígur svo Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra fram og upplýsir að ekki hafi verið hlustað á mótbárur hennar innan ríkisstjórnarinnar. Að hún hafi verið á móti aðferðafræðinni og viljað fara aðra leið við sölu bankans. Sem viðskiptaráðherra fer Lilja með samkeppnismál og hagsmuni neytenda. Hún situr að auki í ráðherranefnd um efnahagsmál. Þetta þýðir einfaldlega að ekki var samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þá leið sem fjármálaráðherra valdi.

Hagsmunir almennings kalla á að það verði upplýst í eitt skipti fyrir öll hvernig sú ákvörðun var tekin innan ríkisstjórnarinnar að selja Íslandsbankabréfin á afslætti til valins hóps fjárfesta. Hin gamalkunna aðferð gömlu stjórnmálaaflanna dugar ekki hér.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. apríl 2022