Leikskóli fyrir Landspítala

Í langan tíma hefur blasað við mannekla hjá Landspítala. Ein af ástæðum fyrir flótta úr þessum mikilvægu starfsstéttum er vinnutíminn. Vaktavinna er ekki fjölskylduvæn og fátt í okkar samfélagi sem styður við fjölskyldufólk í þeirri stöðu. Það er viðbótarálag að finna út úr því hvar börnin eiga að vera þegar vaktirnar eru utan hefðbundins vinnutíma. Þau njóta ekki þess kosts eins og aðrar fjölskyldur að opnunartími leikskóla sé í takt við vinnutíma þeirra. Þetta hefur án vafa fælingarmátt á þá sem velja sér starf og aðstæður sem starfið býður upp á.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar því var hent fram fyrir stuttu að aðlaga þyrfti leikskóla betur atvinnulífinu. Gagnrýnt var að leikskólinn ætti ekki að þjóna atvinnulífinu þegar raunveruleikinn er sá að verið var að hugsa um hag barna og fjölskyldna. Það er hagur barnsins að það sé festa í lífi þess en að ekki þurfi að finna út úr því stanslaust hvernig eigi að leysa helgarvaktina og vakt sem byrjar örlítið fyrr eða síðar.

Best er fyrir barnið að leikskóli geti lagað sig að lífi fjölskyldna og þörfum þeirra. Barn á þessum aldri gerir ekki greinarmun á því að vera í leikskóla á laugardegi eða mánudegi eða í fríi á sunnudegi eða miðvikudegi heima með foreldrum. Það vantar sárlega þjónustu sem er sveigjanlegri.

Á næstu mánuðum munum við í Viðreisn í samstarfi við LSH beita okkur fyrir því að settur verði á laggirnar sérstakur leikskóli fyrir LSH í samstarfi við ríkið. Fyrirmyndir að slíkum leikskólum í nálægð við sjúkrahús sem eru sérstaklega ætlaðir starfsfólki má til að mynda finna á Norðurlöndunum. Við teljum rétt að sá skóli verði boðinn út til sjálfstætt starfandi aðila og tryggt að þjónustan verði á heimsmælikvarða líkt og er í leikskólum borgarinnar. Við viljum auka þjónustu við allt fjölskyldufólk í Reykjavík. Í framhaldinu má svo skoða hvernig hægt er að koma til móts við fleira starfsfólk í ólíkum fyrirtækjum og stofnunum þar sem hið hefðbundna módel þjónar ekki þörfum þess.

Starfsfólk og stjórnendur leikskóla munu koma að vinnu við að útfæra þessa nálgun og þarfir barna í sveigjanlegri skóla verða tryggðir. Almennt er mikil ánægja með störf leikskóla og halda þarf í þau gildi sem unnið er eftir þó að ákveðnir skólar hafi þennan sveigjanleika. Gaman verður að eiga samtöl og samstarf um það hvernig leikskóli fyrir Landspítala getur þjónað hagsmunum bæði barnsins og foreldrum. Tímarnir breytast og við með og við viljum enn betra líf fyrir börn og fjölskyldufólk í Reykjavík.

Greinin birsti fyrst í Fréttablaðinu 12. apríl 2022