Ríkisstjórnin utan þjónustusvæðis

Það hefur ríkt þögn á stjórnarheimilinu eftir að Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra setti fram pólitíska stríðsyfirlýsingu gagnvart Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra með orðum um að fjármálaráðherrans sé að axla ábyrgð á því hvernig sala á fjórðungseignarhluta ríkisins í Íslandsbanka fór fram. Viðskiptaráðherra beindi gagnrýni sinni sömuleiðis að Katrínu Jakobsdóttur, sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál með viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra. Þar segist Lilja hafa greint frá áhyggjum sínum vegna þeirrar aðferðafræði sem beita átti við söluna. Hún kveðst hafa komið sínum sjónarmiðum skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins. Forsætisráðherra hefur látið sér nægja að segja enga bókun liggja fyrir en hefur í engu svarað hvort það rétt sé að viðskiptaráðherra hafi mótmælt því að selja hlutinn í lokuðu útboði. Þessir þrír ráðherrar höfðu mest um söluna að segja.

Var óeining innan ríkisstjórnar?

Viðskiptaráðherra hefur ekki aðeins talað um ágreining og pólitíska ábyrgð fjármálaráðherra. Hún hefur lía sagt að „það muni koma meira í ljós í þessu máli á komandi dögum“. Þess vegna verður forsætisráðherra að greina frá því hverjar umræður voru á ráðherrafundi um efnahagsmál í aðdraganda útboðsins sem og á ríkisstjórnarfundum. Hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra hafi tjáð sig um umræður á þessum fundum, en auðvitað ´s almenningur á allan rétt á því að fá þessar upplýsingar. Um er að ræða sölu í þriðja stærsta hlutafjárútboði Íslandssögunnar upp á 52,5 milljarða króna. Hagsmunir almennings kalla á að upplýst verði hvernig sú ákvörðun var tekin innan ríkisstjórnarinnar að fara í lokað útboð.

Almannahagsmunamál að upplýsa um aðdragandann

Ábyrgð viðskiptaráðherra hefur líka þýðingu. Siðareglur ráðherra fjalla um upplýsingagjöf ráðherra til almennings:

Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.

Siðareglur ráðherra eru skýrar um frumkvæði ráðherra um upplýsingar sem varða almannahag. Skyldur ráðherra gagnvart Alþingi eru enn ríkari. Sú ákvörðun ráðherrans að greina Alþingi ekki frá áhyggjum sínum í svo stóru almannahagsmunamáli er auðvitað sérstök svo ekki sé fastar að orði kveðið. Var viðskiptaráðherra einangruð um þessa afstöðu sína innan ríkisstjórnar og jafnvel innan Framsóknarflokksins?

Spurningar til forsætisráðherra

Ríkisstjórnin hefur verið utan þjónustusvæðis alla páskana og ekkert viljað tjá sig um stærsta pólitíska mál dagsins í dag. Ég sendi þess vegna skriflega fyrirspurn til forsætisráðherra með ósk um skrifleg svör.

  1. Viðskiptaráðherra hefur greint opinberlega frá því að hafa verið mótfallin aðferðafræði við sölu á eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka þann 22. mars sl. Hún hafi ekki viljað að bréf yrðu seld til valins hóps fjárfesta og að fátt komi henni á óvart um það hver útkoman varð. Viðskiptaráðherra hefur jafnframt greint frá að hafa komið sjónarmiðum þar um skýrt á framfæri í aðdraganda útboðs. Með hvaða rökum hafnaði forsætisráðherra sjónarmiðum og viðvörunarorðum viðskiptaráðherra? Með hvaða rökum féllst forsætisráðherra á það fyrirkomulag sölunnar sem fjármálaráðherra lagði til?
  2. Telur forsætisráðherra að viðskiptaráðherra kunni að hafa gerst brotleg við siðareglur ráðherra með því að upplýsa ekki um þessi sjónarmið opinberlega fyrr en eftir að útboð hafði farið fram, en siðareglur ráðherra mæla fyrir um að ráðherra leyni ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess?
  3. Hefur forsætisráðherra skoðun á því hvort efni voru til að fjármálaráðherra hefði átt að víkja sæti við meðferð þessa máls á einhverju stigi málsins vegna sjónarmiða um vanhæfi?
  4. Í 3. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum eru raktar meginreglur sem gilda við sölumeðferð. Þar segir að þess skuli gætt að skilyrði sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skuli við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði. Hvers vegna var látið hjá líða að fara að þessum skilyrðum laga?

Greinin birtist fyrst á Vísi 19. apríl 2022