Viðreisn vill Reykjanesbrautina í stokk

Eitt stærsta mál Hafnarfjarðar og Hafnfirðinga undanfarin ár hefur verið skýr framtíðarsýn á hvað skuli gera við Reykjanesbrautina og hvað sé hægt að gera við hana til að auka lífsgæði bæjarbúa. Umferðarþunginn á gatnamótunum við Lækjargötu annars vegar og við Kaplakrika hins vegar hefur aukist ár frá ári í takt við fjölgun erlendra ferðamanna og öllum ljóst fyrir löngu að hringtorgin tvö eru algjörlega sprungin og hreinlega hættuleg. Og svo má ekki gleyma að nefna umferðarljósin tvö á milli Setbergs og Kaplakrika sem mynda algjöran flöskuháls á álagstímum og er einu umferðarljósin frá Sprengisandi og upp á Keflavíkurflugvöll.

Viðreisn hefur frá upphafi hér í Hafnarfirði talað fyrir því að Reykjanesbrautina skuli einfaldlega leggja í stokk og héldum við þessu máli vel á lofti fyrir sveitastjórnarkosningarnar í Hafnarfirði fyrir fjórum árum síðan. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í meirihluta í bænum undanfarin átta ár og einnig verið kjölfesta í ríkisstjórn landsins á sama tíma, með fjármálaráðuneytið á sinni könnu. Maður hlýtur því að spyrja sig hvernig á því standi að ekkert hafi áunnist í málinu af hálfu meirihluta bæjarstjórnar undanfarin ár.

Það er ljóst að um afar stóra framkvæmd er um að ræða sem þyrfti að skipuleggja vel til þess að halda kostnaði og raski í lágmarki fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga. En ávinningur bæjarbúa og í raun allra þeirra sem keyra Reykjanesbrautina í gegnum bæinn yrði aftur á móti mjög mikill. Fyrir það fyrsta myndi skapast gríðarlega verðmætt byggingarland á besta stað í bænum. Lóðasala á því landi myndi ganga upp í kostnað framkvæmdarinnar og bæjarbúum myndi fjölga í framhaldinu, sem greiða sitt útsvar inn í sameiginlega sjóði okkar allra. Einnig myndum við í Viðreisn vilja að hluti þeirra lóða sem myndu skapast yrðu eyrnamerktar meðal annars fyrir þjónustuíbúðir eldri borgara og fatlaða. Myndi þetta allt tengja bæinn okkar betur saman, auka þjónustu og auðvelda fólki sem býr til að mynda í Setberginu að komast til og frá hverfinu sínu. Hávaða-, sjón- og síðast en ekki síst umhverfismengun af akstri á brautinni í gegnum bæinn myndi snarminnka og umferðaröryggi í gegnum bæinn yrði mun meira en það er í dag. Á svæðinu mætti gera ráð fyrir hjólastígum og vistvænu hverfi í nútímalegum stíl, þar sem stutt er í alla þjónustu. Þetta myndi að sjálfsögðu auka lífsgæði Hafnfirðinga töluvert, eitthvað sem er okkur í Viðreisn hjartans mál.

Við í Viðreisn göngum því vongóð í brjósti inn í komandi kosningar og ætlum okkur að halda áfram að berjast fyrir málefnum Reykjanesbrautarinnar með ráðum og dáðum. Meiri lífsgæði, meira gegnsæi, meiri Viðreisn!

 

Greinin birtist fyrst á Vísi 26. apríl 2022