Að þegja þunnu hljóði

Viðbrögðin við skarpri vaxtahækkun Seðlabankans eru um margt athyglisverð.

Forystumenn launafólks mótmæla. Eru stóryrtir og segjast ætla að eyða áhrifum hennar með því að sækja vaxtahækkunarauka í kjarasamningum, til viðbótar við aðrar hækkanir.

Talsmenn atvinnulífsins eru hógværir. Þeir segja hækkunina áminningu um að stilla launahækkunum í hóf.

En forsætisráðherra, sem ber stjórnskipulega ábyrgð á stjórn peningamála, segir ekki neitt.

Þetta er lýsandi dæmi um forystuleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hitt lýsir þó ráðleysinu enn betur að hún samþykkir eðlilega verðbólgubætur til þeirra, sem eru allra lakast settir. En gerir síðan ekkert til að beita ríkisfjármálunum gegn verðbólgunni, sjálfu vandamálinu.

Ákvörðun Seðlabankans var óhjákvæmileg. En launafólk og stjórnendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja taka eftir því að vaxtahækkunin er miklu meiri en í samkeppnislöndunum.

Ein af ástæðunum fyrir þessu er sú að ríkissjóður kyndir nú undir verðbólgu í stað þess að vinna gegn henni eins og fjármálaráð hefur skýrlega bent á. Það er dýrkeypt afleiðing þess að hafa ríkisstjórn, sem semur óskalista en kemur sér ekki saman um stefnu. Eyðir um efni fram og gerði líka fyrir faraldur.

Önnur skýring á meiri vaxtahækkunum hér en annars staðar er sú að við búum í tvískiptu hagkerfi.

Annars vegar höfum við launafólk og flest lítil eða meðalstór fyrirtæki, sem eru bundin við krónuna. Hins vegar eru þau fyrirtæki, sem starfa utan krónuhagkerfisins. Þetta er meginhluti útflutnings landsmanna og stærstu ferðaþjónustufyrirtækin.

Klípa Seðlabankans er sú að ákvarðanir hans ná ekki nema að takmörkuðu leyti til þess stóra hluta þjóðarbúsins, sem stendur fyrir utan krónuna. Sá hluti er meira háður ákvörðunum seðlabanka annarra landa. Fyrir vikið þurfa þau, sem bara búa við krónuna, að borga miklu hærri vexti en hin.

Þetta er undirrót misréttis og vaxandi misskiptingar. Hún verður ekki leiðrétt nema með kerfisbreytingu í peningamálum.

Forsætisráðherra þegir svo þunnu hljóði í varðstöðu með þeim, sem telja sig ekki hafa annað erindi í pólitík en að viðhalda þessu ranglæti. Kall tímans er aftur á móti hitt: Að taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. maí 2022