Frá innri markaði til fullrar aðildar

Aðild Íslands að innri markaði Evr­ópu­sam­bands­ins var á sín­um tíma mun stærra skref en loka­skrefið þaðan til fullr­ar aðild­ar verður. Með því að stíga þetta skref styrkj­um við til muna bæði póli­tíska og efna­hags­lega stöðu lands­ins á nýj­um um­brota­tím­um.

Efna­hags­sam­vinna með þeim þjóðum, sem byggja á sömu gild­um og við, er jafn mik­il­væg fyr­ir full­veldi lands­ins eins og varn­ar­sam­starfið. Þetta tvennt verður ekki í sund­ur slitið.

Viðbrögð við nýrri óvissu

Skelfi­legt árás­ar­stríð Pútíns gegn Úkraínu­mönn­um er ekki aðeins ógn við lýðræði og mann­rétt­indi í okk­ar heims­hluta, held­ur hef­ur það þegar haft mjög al­var­leg viðskipta­leg og efna­hags­leg áhrif.

Póli­tísk áhrif stríðsins hafa jafn­framt aukið þá óvissu í heimsviðskipt­um sem fylgt hef­ur vax­andi spennu milli Banda­ríkj­anna og Kína. Hætt­an er að þetta skapi enn meiri tog­streitu milli lýðræðis­ríkja og ein­ræðis­ríkja.

Flest­ar þjóðir hafa brugðist við þess­um nýju aðstæðum með ein­um eða öðrum hætti. Stærstu skref­in hafa Finn­ar og Sví­ar tekið með ósk um fulla aðild að NATO. Bæði rík­in hafa lengi haft sam­starfs­samn­inga við banda­lagið, en nú töldu þau póli­tíska nauðsyn á að stíga loka­skrefið til fullr­ar aðild­ar.

Póli­tísk­ir fjötr­ar

Ég hef í flest­um efn­um verið ánægð með viðbrögð ut­an­rík­is­ráðherra. Þau hafa verið sterk og af­drátt­ar­laus svo langt sem þau hafa náð. En við höf­um ekki gert mikið meira en að fylgja lág­marks­skuld­bind­ing­um við banda­lagsþjóðir okk­ar í NATO og ESB.

En vandi ut­an­rík­is­ráðherra er sá að stjórn­arsátt­mál­inn bind­ur hend­ur henn­ar. Af þeim sök­um get­ur hún ekki tekið frum­kvæði að nein­um nýj­um skref­um, hvorki varðandi varn­ar­sam­vinn­una né efna­hags­sam­vinn­una.

Þess­ir póli­tísku fjötr­ar veikja Ísland. Við ríkj­andi aðstæður er óviðun­andi að rík­is­stjórn Íslands geti ekki vegna innri mót­sagna tekið nýj­ar ákv­arðanir til þess að styrkja stöðu lands­ins.

Ný skref á tveim­ur sviðum

Í ljósi þeirra nýju og gjör­breyttu aðstæðna sem Ísland stend­ur and­spæn­is, líkt og mörg önn­ur ríki, lagði þing­flokk­ur Viðreisn­ar í vet­ur fram til­lögu á Alþingi, sem fel­ur í sér að ut­an­rík­is­ráðherra fái umboð til þess að und­ir­búa margþætt viðbrögð.

Nauðsyn­legt er að viðbrögðin miði að því að efla þátt­töku okk­ar í NATO, treysta varn­ar­sam­vinn­una við Banda­rík­in og und­ir­búa loka­skrefið frá aðild að innri markaði Evr­ópu­sam­bands­ins til fullr­ar aðild­ar.

Við lít­um svo á að hags­mun­ir Íslands kalli á að stjórn­mál­in ræði ný skref á þess­um tveim­ur mik­il­væg­ustu sviðum ut­an­rík­is­stefn­unn­ar við fólkið í land­inu.

Auk­in þátt­taka í varn­ar­sam­starfi

Í varn­ar­mál­um leggj­um við til að Ísland sýni enn öfl­ugri sam­stöðu með banda­lagsþjóðunum með því að stór­auka þátt­töku í borg­ara­leg­um störf­um, sem tengj­ast sam­eig­in­leg­um verk­efn­um NATO.

Jafn­framt leggj­um við til að hafn­ar verði viðræður við Banda­rík­in um viðbót við varn­ar­samn­ing­inn. Þar yrði tryggt að hann næði til netárása, sem bein­ast að ör­yggi Íslands, og tæki með í reikn­ing­inn mik­il­vægi órof­inna sam­gangna, birgða- og fólks­flutn­inga, sæ­strengja og orku­ör­ygg­is.

Verk­ferla og ábyrgð á töku ákv­arðana þarf einnig að skýra komi til þess að virkja þurfi aðstoð Banda­ríkj­anna.

Full aðild að ESB

Und­ir­bún­ing­ur að loka­skref­inu frá aðild að innri markaði Evr­ópu­sam­bands­ins til fullr­ar aðild­ar tek­ur eðli­lega nokk­urn tíma. Við telj­um að fela ætti ut­an­rík­is­ráðherra að taka fyrsta skrefið með því að skila grein­ar­gerð um kosti og galla þess að taka þetta skref.

Þetta er nauðsyn­leg­ur und­an­fari fyr­ir þá umræðu, sem þarf að fara fram inn­an allra stjórn­mála­flokka, milli þeirra og við þjóðina. At­hygl­is­vert er að Finn­ar og Sví­ar unnu slík­ar grein­ar­gerðir um skrefið frá sam­starfs­samn­ing­um til fullr­ar aðild­ar að NATO á aðeins ör­fá­um vik­um.

Við vilj­um vandaðan und­ir­bún­ing af þessu tagi. Umræðuskjalið á hins veg­ar ekki að vera eitt­hvert skúffuplagg ráðuneyt­anna. Það á að þjóna mál­efna­leg­um umræðum, sem eru for­senda ákv­arðana, sem Alþingi þarf að hafa for­ystu um en þjóðin tek­ur á end­an­um.

Hug­sjón og hags­mun­ir

Það eru þung póli­tísk rök fyr­ir því að við hefj­um þenn­an und­ir­bún­ing núna. Við þurf­um að eiga sæti við borðið með lýðræðisþjóðunum í Evr­ópu. Það á ekki bara við um NATO held­ur einnig ESB.

Hér þurf­um við að gæta að tvennu. Ann­ars veg­ar að styrkja póli­tíska stöðu lands­ins og skjóta með því styrk­ari stoðum und­ir efna­hags­lega og viðskipta­lega hags­muni á hverf­ul­um tím­um. Hins veg­ar er það skylda okk­ar að efla sam­starf þjóða sem trúa á lýðræði, frjáls viðskipti og sömu leik­regl­ur fyr­ir stór­ar þjóðir sem smá­ar. Árás á þessi sam­eig­in­legu gildi okk­ar er árás á ör­yggi þjóðar. Þessi dýr­mætu gildi þarf að verja.

Nýj­ar ógn­ir knýja okk­ur til að huga líka í rík­ari mæli en áður að orku­ör­yggi sem fæðuör­yggi. Við get­um sjálf aukið fram­leiðslu land­búnaðar­af­urða. Um það mark­mið er ekki mik­ill ágrein­ing­ur.

For­send­an fyr­ir því að þetta mark­mið ná­ist er hins veg­ar að tryggja ör­ugg viðskipti með aðföng. Og til þess að tryggja að ný sókn á þessu sviði sé sjálf­bær þarf stærra markaðssvæði. Full aðild að ESB er því mik­il­væg­ur þátt­ur í að þessi framtíðar­sýn verði meira en orðin tóm. Öflug­ur stuðning­ur sam­bands­ins við at­vinnu­hátta­breyt­ing­ar á jaðarsvæðum skipt­ir þar líka máli.

Þannig renna hug­sjón­ir og hags­mun­ir sam­an í eitt í þessu hóf­lega en mik­il­væga skrefi fram á við. Nú er ekki tími til að hika eða bíða.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2022