Geimflaugar á geymslusvæðinu

Vitur maður hefur sagt að „framtíðin er þeirra sem búa sig undir hana í dag“. Framsýni er eitthvað sem Hafnarfjörður þarf á að halda, líkt og öll önnur samfélög manna á jörðinni. Við þurfum að skipuleggja og skapa umhverfi sem gott er að búa í og við þurfum að hlúa að öllum okkar íbúum. Til þess að svo geti orðið í framtíðinni er ekki nóg að halda áfram að vinna með sömu hugmyndirnar og hjakka í sama farinu og gert hefur verið áratugina á undan. Framtíðin hefur upp á svo margt stórfenglegt að bjóða og við verðum að vera tilbúin að grípa tækifærin. Tækni framtíðarinnar býr yfir endalausum möguleikum til þess að auðvelda okkur lífið og byggja upp atvinnulíf sem leggur grunn að velferð íbúa.

Snjallbær

Meðal þess sem við getum gert til að auðvelda okkur lífið er að innleiða snjalllausnir í rekstri og þjónustu bæjarfélagsins. Hafnfirðingar hafa alltaf verið snjallir en nú er komin tími til að taka það upp á næsta stig og gera Hafnarfjörð að alvöru snjallbæ. Möguleikarnir eru endalausir, t.d. er hægt að bæta aðgengi íbúa að upplýsingum og þjónustu með rafrænum lausnum, það er hægt að stýra umferðinni betur, það er jafnvel hægt að mæla innihald sorptunna í gegnum gervihnött eða 5G og skipuleggja þannig sorphirðuna betur.

Þekkingarþorp

Mikilvægt er að hlúa að þekkingu og nýsköpun. Í dag færist í vöxt að byggð eru frumkvöðlasetur í kringum ákveðna geira, þar sem hægt er að fá stuðning og njóta samlegðaráhrifa sem felast í nálægð við aðra skapandi aðila. Dæmi um slíkt er Sjávarklasinn í Reykjavík, Silicon dalurinn í Kaliforníu og nýsköpunarklasar Geimvísindastofnunar Evrópu. Nú stendur til að Tækniskólinn komi til Hafnarfjarðar á næstu árum. Við getum gripið það stóra tækifæri og gert það enn stærra með því að leggja grunninn að aðstöðu fyrir frumkvöðla og rannsóknarvinnu í tengslum við skólastarfið. Það er ljóst að í náinni framtíð verða þær greinar sem kenndar eru í Tækniskólanum meira og meira tæknivæddar. Gerum Hafnarfjörð að vöggu nýrrar þekkingar í tækni- og iðngreinum.

Evrópubær

Bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði hefur hætt til að horfa ekki yfir bæjarlækinn. Skortur hefur verið á víðsýni, samvinnu út fyrir bæjarmörkin og frumkvæði til að sækja sér bitastæð verkefni. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þó að það sé gott að búa í Hafnarfirði þá getur það orðið enn betra ef við víkkum aðeins sjónarhornið. Við getum t.d. aukið samstarf við önnur sveitarfélög og sparað þannig stórfé í innleiðingu á nýrri þjónustu og kaupum á aðföngum. Við getum verið mikið harðari í að sækja okkur sanngjarnan bita af kökunni hjá ríkinu og síðast en ekki síst þá getum við litið til Evrópu um fordæmi fyrir góðum verkefnum og styrki til að innleiða slík verkefni. Ísland er aðili að mörgum styrkjaverkefnum í Evrópu sem bæta eiga lífsgæði í álfunni í framtíðinni. Slík verkefni fela í sér margþætt tækifæri til þess að hrinda nýjungum í framkvæmd í samstarfi við önnur evrópsk bæjarfélög.  Berum okkur eftir björginni!

OK, við eigum kannski ekki eftir að skjóta upp eldflaugum á geymslusvæðinu við Straumsvík, en við gætum verið farin að smíða íhluti í þær á hafnarsvæðinu innan fárra ára.

Stjórnum eigin framtíð – ekki láta framtíðina stjórna okkur.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 12. maí