Heilbrigðistúrismi í boði stjórnvalda

Hanna Katrín Friðriksson Alþingiskosningar 2021 Reykjavík Suður RS 1 sæti Viðreisn

Yf­ir­lýst mark­mið er að heil­brigðis­kerfið okk­ar virki þannig að 80% ein­stak­linga kom­ist í aðgerðir inn­an 90 daga frá grein­ingu. Þetta er sam­kvæmt viðmiðun­ar­mörk­um embætt­is land­lækn­is um hvað get­ur tal­ist ásætt­an­leg bið eft­ir heil­brigðisþjón­ustu. Ég er hrædd um að þetta hljómi eins og lé­legt grín í eyr­um þeirra fjöl­mörgu sem hafa setið föst á biðlist­um mánuðum og jafn­vel árum sam­an eft­ir til­tekn­um úrræðum.

Ég hef skrifað hér áður um þá sturluðu stöðu að í okk­ar ríka sam­fé­lagi bíði hátt í tvö þúsund börn á biðlist­um eft­ir þjón­ustu í heil­brigðis­kerf­inu og hjá fé­lags­mála­stofn­un­um. Meðalbiðtím­inn er frá einu og upp í tvö ár eft­ir þeirri þjón­ustu sem um ræðir.

Það er líka dap­ur­leg staðreynd að full­orðið fólk bíður svo mánuðum og jafn­vel árum skipt­ir eft­ir bót meina sinna. Ég hef spurt hvernig rík­is­stjórn­in vilji leysa þessi mál. Hvort leggja eigi áherslu á að ná samn­ing­um við sér­fræðilækna? Við sjúkraþjálf­ara, tal­meina­fræðinga og sál­fræðinga? Hvort eigi að tryggja að þúsund­ir barna eyði ekki stór­um hluta æsk­unn­ar á biðlist­um? Við bíðum enn eft­ir svör­um. Fólk bíður enn eft­ir aðgerðum.

Ein sér­kenni­leg­asta birt­ing­ar­mynd þess­ar­ar stöðu er sá heil­brigðistúrismi sem stundaður er í nafni stjórn­valda þar sem fjöldi fólks er flutt­ur í aðgerðir utan land­stein­anna þegar biðin er orðin of löng hér heima. Þessi út­flutn­ing­ur á sér stað í vax­andi mæli í liðskiptaaðgerðum, efna­skiptaaðgerðum og aðgerðum vegna en­dómetríósu þó að hér á landi séu sér­fræðing­ar sem geta sinnt þess­ari þjón­ustu. Mótstaða rík­is­stjórn­ar­inn­ar er ekki til kom­in vegna þess að það skorti á þekk­ingu, færni eða aðstöðu sem þess­ir aðilar geta boðið. Mótstaðan er held­ur ekki til kom­in vegna þess að það sé ódýr­ara að flytja fólk í aðgerðir til út­landa. Nei, út­flutn­ing­ur á fólki í aðgerðir er­lend­is, sem í þokka­bót eru mun dýr­ari lausn­ir, er vax­andi at­vinnu­grein vegna þess að rík­is­stjórn­in vill ekki semja við ís­lenska einkaaðila. Ein­hverra hluta vegna er sama mótstaða ekki fyr­ir hendi þegar kem­ur að því að borga er­lend­um einkaaðilum fyr­ir þess­ar sömu aðgerðir.

Hvernig stend­ur á þess­ari vit­leysu? Í svari heil­brigðisráðherra við fyr­ir­spurn um þessi mál fyrr á ár­inu kom fram að það væri mik­il­vægt að all­ar ákv­arðanir um það hver sinnti hvaða hluta heil­brigðisþjón­ust­unn­ar væru tekn­ar með til­liti til heil­brigðis­kerf­is­ins í heild. Ég get al­veg tekið und­ir þau orð. En það sér hvert manns­barn að rík­is­stjórn­in er kom­in út í horn ef hún get­ur ekki upp­fyllt þetta skil­yrði og um leið svarað aðkallandi þörf fólks fyr­ir mik­il­væga heil­brigðisþjón­ustu. Eitt­hvað þarf að breyt­ast, því þetta geng­ur ein­fald­lega ekki svona leng­ur!

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2022