Hundrað milljarða klúður

Það munar um 100 milljarða. Um það getum við öll verið sam­mála. Það munar um þann pening í úr­bætur í heil­brigðis­kerfinu. Það munar um bið­listana sem hægt væri að stytta; lið­skipta­að­gerðir og auga­steina­að­gerðir. Krans­æða­að­gerðir og að­gerðir á hjarta­lokum. Brjóst­nám, of­fitu­að­gerðir og gall­steina­að­gerðir. Svo dæmi séu tekin.

Það munar um al­vöru inn­spýtingu í fjár­svelta geð­heil­brigðis­þjónustu, um niður­greiðslu á sál­fræði­þjónustu. Um styttri bið­lista eftir sjúkra­þjálfun og eftir tal­meina­þjónustu. Það munar um ný hjúkrunar­heimili. Það munar um betri þjónustu við börn og styttri bið­lista eftir fjöl­þættum úr­ræðum þar. Svo fleiri dæmi séu tekin.

Það munar um sam­göngu­úr­bætur sem hægt væri að tryggja, um brýr, jarð­göng og Sunda­braut. Um al­vöru fram­kvæmdir við Borgar­línu. Það munar um nýjan þjóðar­leik­vang. Það munar um aukinn kraft í lofts­lags­málin. Svo enn fleiri dæmi séu tekin.

Það munar sem sagt um 100 milljarðana sem ríkis­stjórnin klúðraði. 100 milljarðana sem áttu að renna í ríkis­sjóð á næsta ári eftir sölu á þriðja og síðasta hlut ríkisins í Ís­lands­banka. Eftir klúðrið á sölu annars á­fanga hefur ríkis­stjórnin gefið frekari sölu á hlut í bankanum upp á bátinn. Það liggur þá fyrir að báknið á fjár­mála­markaði verður ekki minnkað á kjör­tíma­bilinu. Og 100 milljarðarnir munu liggja þar inni ó­nýttir.

Þetta bak­slag er í sjálfu sér eðli­legt. Kannski jafn­vel þakkar­vert að ríkis­stjórnin geri sér grein fyrir því að hún ræður ekki við verk­efnið. En mikið fjári er það dýr­keypt. Það vantar betri einka­væðara, sagði fé­lagi minn Pawel Bar­toszek, borgar­full­trúi Við­reisnar, í beittri grein í Við­skipta­blaðinu í liðinni viku. Það er hverju orði sannara. Við­reisn hefur alla tíð talað fyrir mikil­vægi þess að virkja krafta einka­fram­taksins. Við studdum söluna á hlut ríkisins í Ís­lands­banka. For­senda þess stuðnings var að salan yrði á grund­velli al­manna­hags­muna með gegn­sæi, jafn­ræði og traust í fyrir­rúmi. Svo varð ekki í með­förum ríkis­stjórnarinnar eins og þekkt er. Það skiptir máli hverjir stjórna og í þágu hverra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. maí 2022