Ísland á að setja sér metnaðarfulla fjarvinnustefnu

Fjarvinna jókst til muna á tímum heimsfaraldurs og sóttvarnaaðgerða. Reynslan leiddi af sér nýja hugsun og nálgun um hvar fólk getur unnið vinnuna sína. Til varð skilningur á því að einn fastur vinnustaður sé ekki eina leiðin. Í júlí 2020 sögðu 78% starfsfólks á evrópskum vinnumarkaði að þau myndu kjósa að geta unnið áfram í fjarvinnu að einhverju leyti. Fjarvinna hefur sömuleiðis verið litin jákvæðum augum af vinnuveitendum vegna jákvæðra áhrifa á framleiðni og vegna þess að sveigjanleiki leiðir til aukinnar starfsánægju. Fjarvinna og tækni tengd henni skapa jafnframt ný tækifæri fyrir fyrirtæki og stofnanir til að draga úr rekstrarkostnaði vegna húsnæðis og ferða.

Fjarvinna á auðvitað ekki alls staðar við en þar sem hún á við getur hún haft jákvæð áhrif á marga þætti starfsins og á jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Margir kjósa að geta átt kost á fjarvinnu að hluta í stað þess að vinna eingöngu að heiman. Fjarvinnustefna getur haft jákvæð áhrif á samgöngur og umferðarþunga og um leið stutt við markmið stjórnvalda í umhverfis- og loftslagsmálum. Síðast en ekki síst felast mikil tækifæri í fjarvinnustefnu fyrir landsbyggðirnar. Aukin áhersla á fjarvinnu sem og störf án staðsetningar leiðir til þess að hægt er að stunda vinnu óháð búsetu.

Tími skrifstofunnar liðinn í Finnlandi

Á meðan heimsfaraldur Covid-19 stóð sem hæst voru allt að 37% starfsfólks í Evrópu í fjarvinnu. Hlutfallið var hins vegar umtalsvert hærra í Finnlandi, þar sem það fór í 59% samkvæmt könnuninni „Living, working and COVID-19“ frá 2020. Finnland hefur til lengri tíma verið leiðandi í að liðka fyrir fjarvinnu þegar kostur er á. Árið 2019 var Finnland með eitt hæsta hlutfall starfsfólks í fjarvinnu í Evrópu, en hlutfall starfsfólks sem var reglulega í fjarvinnu var 14,1% í Finnlandi á meðan hlutfallið í öðrum Evrópuríkjum var að meðaltali um 5,4%. Þegar litið var til þeirra sem unnu að hluta til í fjarvinnu var þetta hlutfall 25% í Finnlandi.

Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að tími skrifstofunnar er að líða undir lok í Finnlandi? Finnar eru framarlega í stafrænni tækni, sbr. Digital Economy and Society Index (DESI). Sterkir stafrænir innviðir í Finnlandi hafa verið lykilþáttur í háu hlutfalli starfsfólks í fjarvinnu. Þá er atvinnumarkaðurinn sjálfur og samsetning starfa í Finnlandi þannig að hátt hlutfall starfa hentar til fjarvinnu. Finnsk stjórnvöld hafa stigið markviss skref til að styðja við fjarvinnu þar sem hún á við. Sveigjanlegur vinnutími hefur verið lögfestur í finnskri lagasetningu alveg frá 1996. Árið 2011 buðu 92% fyrirtækja í Finnlandi starfsfólki upp á sveigjanlegan vinnutíma. Þessi stefna er grundvallarþáttur um að koma til móts við fjölskyldur og foreldra á vinnumarkaði og það á ekki að líta fram hjá því að fjarvinnustefna getur haft ólík áhrif á kynin. 1. janúar 2020 tóku gildi lög í Finnlandi sem heimiluðu starfsfólki í fullu starfi að skipuleggja um helming vinnutíma síns, þ.e. hvar og hvenær vinna þess er innt af hendi.

Mörg stærri alþjóðleg fyrirtæki hafa innleitt blöndu af fjar- og staðvinnu þannig að samkomulag er um hversu oft starfsfólk mætir á skrifstofu, en að öðru leyti hefur starfsfólk frelsi um hvar það innir af hendi sín verkefni.

Fjarvinna í þágu loftslagsmála

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Liður í því að ná þeim fram er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bílaumferð og samgöngum innanlands. Fjarvinnustefna getur stutt við þau markmið. Reynsla Finna sýnir þessi tengsl. Árið 2109 unnu um 357.000 starfsmenn í fjarvinnu í Finnlandi en í heimsfaraldrinum fór sú tala upp í 790.000.

Frá 2019-2020 dró úr meðalakstri um 4%, þ.e. um fjölda ekinna kílómetra fólksbíla. Fjarvinna er vafalítið stór þáttur í því þótt aðrir þættir hafi einnig haft áhrif svo sem færri samkomur. Samkvæmt spám þar í landi er talið að árið 2030 verði fjöldi starfsmanna í Finnlandi í fjarvinnu 577.000. Samkvæmt sömu spám er reiknað með að hægt verði að minnka koltvísýringslosun frá bílaumferð á ársgrundvelli um allt að 125.000 tonn vegna aukinnar fjarvinnu.

Fjarvinna og byggðastefna haldast í hendur

Hið opinbera getur bæði skapað atvinnutækifæri og rekið kraftmikla byggðastefnu með því að vera sveigjanlegra í nálgun um fastar starfstöðvar. Sem stendur er eitt ráðuneyti af 12 með framsækna stefnu í þessum efnum en hvers vegna vinnur Stjórnarráðið ekki allt eftir fjarvinnustefnu?

Þannig er hægt að laða að og halda í hæfileikaríkt starfsfólk, spara í skrifstofurekstri og ferðakostnaði, auka sveigjanleika starfsfólks og leggja markmiðum á sviði loftslagsmála lið. Íbúar á landsbyggðunum gætu keppt um störf opinberra stofnana með því að vinna hana í fjarvinnu, ýmist að heiman eða á sérstakri fjarvinnuaðstöðu.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að stjórnvöld framkvæmi úttekt á tækifærum í fjarvinnu og fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað. Í kjölfarið verði lagðar fram tillögur um að auka möguleika á fjarvinnu þar sem henni verður komið við. Teknar verði saman upplýsingar um þá reynslu sem varð til í heimsfaraldrinum og settar fram tillögur um hvernig má auka hlut fjarvinnu á íslenskum vinnumarkaði. Með þessu geta íslensk stjórnvöld orðið leiðandi um að festa fjarvinnustefnu í sessi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. maí 2022