Skýr sýn Viðreisnar um ábyrga stjórn

Viðreisn er flokk­ur, sem legg­ur upp úr því að vandað sé til verka og að al­manna­hags­mun­ir séu sett­ir í fyrsta sæti. Viðreisn er flokk­ur á miðjunni, sem get­ur unnið bæði til hægri og vinstri. Það sem skipt­ir mestu máli er að vinna að raun­hæf­um lausn­um að vanda­mál­um til að borg­ar­bú­ar geti gengið að þjón­ustu borg­ar­inn­ar vísri, þegar á þarf að halda. Viðreisn er mik­il­væg rödd í borg­ar­stjórn Reykja­vík, sem tal­ar fyr­ir frjáls­lyndi, jafn­rétti og ábyrgð í fjár­mál­um. Eft­ir því höf­um við starfað og mun­um gera það áfram.

Viðreisn stend­ur við lof­orðin

Fyr­ir síðustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar, þá sögðumst við ætla að lækka fast­eigna­skatta á fyr­ir­tæki. Við stóðum við það ári áður en áætlað var. Á næsta kjör­tíma­bili ætl­um við að ganga lengra og lækka fast­eigna­skatt­ana enn meira. Með Viðreisn í meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar verður hægt að treysta á að við lof­orðin verður staðið.

Kjörn­um full­trú­um ber að fara vel með al­manna­fé og sýna ábyrgð í rekstri. Það höf­um við gert með þeim ár­angri að skulda­hlut­fall borg­ar­sjóðs er það lægsta af öll­um sveit­ar­fé­lög­um á höfuðborg­ar­svæðinu. Heims­far­ald­ur setti aðeins strik í reikn­ing­inn hjá Reykja­vík eins og hjá rík­inu og öll­um öðrum sveit­ar­fé­lög­um. En styrk­ur borg­ar­inn­ar kom þá ber­lega í ljós þegar farið var í stór­átak í fram­kvæmd­um og innviðaupp­bygg­ingu til að styðja við efna­hags­lífið. Á sama tíma drógu önn­ur sveit­ar­fé­lög sam­an í fram­kvæmd­um.

Viðreisn stóð fyr­ir því að gera fyrstu fjár­mál­s­tefnu borg­ar­inn­ar. Hún sýn­ir skýrt hvert við erum að stefna. Við vilj­um að inn­an tveggja ára verði rekst­ur borg­ar­sjóðs halla­laus eft­ir áfall síðustu ára. Til sam­an­b­urðar ger­ir formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins ráð fyr­ir að ríkið safni skuld­um til árs­ins 2026 hið minnsta.

Reykja­vík­ur­borg á að hvetja til heil­brigðrar sam­keppni og halda að sér hönd­um varðandi verk­efni sem einkafram­takið get­ur sinnt. Hún á ekki að standa í sam­keppn­is­rekstri. Við vilj­um skoða bet­ur hvaða rekst­ur borg­ar­inn­ar eigi bet­ur heima hjá einkaaðilum. Þar hef ég t.a.m. nefnt bíla­stæðahús borg­ar­inn­ar. Að eiga þau og reka fell­ur ekki und­ir grunnþjón­ustu.

Reykja­vík sem dafn­ar

Und­an­far­in þrjú ár hef­ur átt sér stað metupp­bygg­ing íbúða í Reykja­vík. Töl­urn­ar tala þar sínu máli. Við vit­um hins veg­ar að það þarf að gera meira og halda áfram. Við vilj­um skipu­leggja lóðir fyr­ir 2.000 íbúðir á ári. Við vilj­um jafn­framt að Reykja­vík stuðli að því að það verði bæði fljót­legra og ódýr­ara að byggja í Reykja­vík. Þess vegna vilj­um við að farið sé að ráðlegg­ing­um OECD til að ein­falda um­gjörð bygg­inga­mála. Þar þurf­um við innviðaráðherra með okk­ur í lið.

Þess vegna á að kjósa Viðreisn

Í kosn­ing­um er ekki síst kosið um traust. Traust og ábyrgð helst í hend­ur þegar kjörn­ir full­trú­ar fara með sam­eig­in­lega hags­muni borg­ar­búa og fjár­muni þeirra. Fólk sem vinn­ur í þágu allra borg­ar­búa á að bera virðingu fyr­ir því að það er að vinna í umboði fólks og bera virðingu fyr­ir fjár­mun­um sem þeim er treyst fyr­ir. Í Reykja­vík skipt­ir þess vegna máli að kjósa fólk sem stend­ur fyr­ir skýra hug­mynda­fræði og ákveðin vinnu­brögð. Fólk sem get­ur sagt skýr­um orðum fyr­ir hvað það stend­ur.

Und­an­farið kjör­tíma­bil höf­um við starfað í meiri­hluta nokk­urra flokka. Þar höf­um við talað fyr­ir okk­ar stefnu­mál­um og náð mörg­um þeirra fram en vita­skuld ekki öll­um. Ég er stolt af því að borg­ar­full­trú­ar Viðreisn­ar hafa verið rödd skyn­samr­ar meðferðar á fjár­mun­um borg­ar­búa, skýrr­ar hug­mynda­fræði í skipu­lags­mál­um í þágu borg­ar­búa, verið rödd ný­sköp­un­ar, fyr­ir­tækja og at­vinnu­lífs­ins. Talað fyr­ir jafn­rétti og frjáls­lyndi. Það skipt­ir máli að kjósa fólk sem hef­ur skýra sýn fyr­ir Reykja­vík. Það er af þess­ari ástæðu sem kjósa á Viðreisn í Reykja­vík.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. maí 2022