Takmörkuð aðkoma bæjarstjórnar að samningi um Blikastaðaland

Á fundi bæjarstjórnar 4. maí sl. var samþykktur samningur Blikastaðalands ehf. sem er í eigu Arion banka og Mosfellsbæjar um uppbyggingu á Blikastaðalandi.

Samningurinn var samþykktur með 5 atkvæðum fulltrúa meirihlutans. Þar sem ég fulltrúi Viðreisnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar átti enga aðkomu að þessum samningi sat ég hjá við atkvæðagreiðsluna.

Samningurinn er líklega sá stærsti sem Mosfellsbær hefur gert til þessa og markar tímamót í uppbyggingu í Mosfellsbæ. Hann er að mörgu leyti okkur hagfelldur og í honum er kveðið á um að landeigendur greiði samtals 10 milljarða til uppbyggingar innviða á Blikastaðalandinu.

Það er vissulega fagnaðarefni að hafin sé uppbygging á Blikastaðalandi en það eru vonbrigði hvernig aðkoma kjörinna fulltrúa að samningnum var. Við bæjarfulltrúar fengum kynningu á honum rúmri viku áður en hann var samþykktur endanlega í bæjarstjórn. Það var sá tími sem við höfðum til þess að taka afstöðu til hans og vorum bundin trúnaði á þeim tíma.

Viðreisn vill ná breiðari samstöðu í stórum ákvarðanatökum sem þessi samningur sannarlega er. Eðlilegt hefði verið að bæjarstjórn, þar sem fulltrúar íbúa eiga sæti, hefði verið með í því að móta samningsmarkmið og verið upplýst að einhverju leyti um gang mála. Um svona samning þarf að vera trúnaður meðan á samningaviðræðum stendur en þegar við komum að borðinu var samningum lokið, og okkur boðið að samþykkja eða hafna honum.

Ég lýsti því meðal annars á fundinum að ég hefði viljað fá nánari greiningar á áhrifum þessarar uppbyggingar sem eru fyrirhuguð er á landinu. Við erum að tala um 9 þúsund manna byggð sem bætist við bæinn og það þarf að meta hvaða áhrif það hefur á bæjarfélagið í heild sinni. Einnig lét Viðreisn bóka að mikilvægt væri að uppbygging á Blikastaðalandi komi ekki í veg fyrir uppbyggingu á öðrum byggingarreitum í sveitarfélaginu.

Það bíður næstu bæjarstjórnar að fjalla áfram um þennan samning því lögum samkvæmt er skipulagsvaldið i höndum Mosfellsbæjar. Ég vona að þeim fulltrúum sem í henni munu sitja beri gæfa til þess að eiga betra samtal við íbúa um svona stór mál. Við í Viðreisn munum sannarlega beita okkur fyrir því.

Greinin birtist fyrst í Mosfelling 12. maí 2022