Það þarf bara vilja og þor

Nú hafa bæði Sví­ar og Finn­ar sótt form­lega um aðild að NATO. Ástæðan er aug­ljós en staðan í heims­mál­un­um hef­ur leitt til þess að hags­muna­mat þess­ara ríkja breytt­ist. Það má segja að þau hafi verið með nokk­urs kon­ar aukaaðild að banda­lag­inu líkt og Ísland og Nor­eg­ur hafa haft að Evr­ópu­sam­band­inu í gegn­um EES-samn­ing­inn. Sví­ar og Finn­ar hafa tekið þátt í æf­ing­um NATO en hvorki komið að ákv­arðana­töku né notið að fullu þess ör­ygg­is sem aðild­in veit­ir. Nú þegar á reyn­ir ligg­ur fyr­ir að þessi ríki velja að taka skrefið til fulls og tryggja sér sæti við borðið. Sví­ar og Finn­ar vilja vera full­gild­ir þátt­tak­end­ur, leggja sitt til mál­anna og njóta kosta aðild­ar til fulls. Það má læra af því.

Evr­ópu­sam­bandið er ekki hernaðarbanda­lag, en sam­starf Evr­ópu­sam­bands­ríkja á sviði ör­ygg­is- og varn­ar­mála hef­ur orðið meira og nán­ara á und­an­förn­um árum. Evr­ópu­sam­bandið hef­ur þannig lagt áherslu á sam­vinnu aðild­ar­ríkj­anna vegna áhættuþátta eins og far­sótta, nátt­úru­ham­fara og annarr­ar um­hverf­isógn­ar, skipu­lagðrar glæp­a­starf­semi, hryðju­verka­ógn­ar, netör­ygg­is og orku­ör­ygg­is.

Evr­ópu­sam­bandið býður ekki upp á sams kon­ar vörn gegn hernaðarógn­um eins og kveðið er á um í varn­ar­samn­ingi okk­ar við Banda­rík­in eða í 5. grein NATO-samn­ings­ins þar sem seg­ir efn­is­lega að árás á eitt banda­lags­ríki jafn­gildi árás á þau öll. Í samþykkt ráðherr­aráðs Evr­ópu­sam­bands­ins frá ár­inu 2004 er þó kveðið á um sam­eig­in­leg­ar varn­ir og sam­stöðu í varn­ar­mál­um. Sam­kvæmt henni – og ákvæði Lissa­bon-sátt­mál­ans frá ár­inu 2007 – er aðild­ar­ríkj­un­um skylt að koma til aðstoðar með öll­um ráðum ef nátt­úru­ham­far­ir eða áföll af manna­völd­um eiga sér stað í öðru aðild­ar­ríki eða ef það verður fyr­ir hryðju­verka­árás. Komi til vopnaðra átaka á yf­ir­ráðasvæði aðild­ar­rík­is er öðrum aðild­ar­ríkj­um skylt að bjóða fram hjálp og aðstoð eins og þau frek­ast geta.

Sam­eig­in­leg viðbrögð Evr­ópu­sam­bands­bands­ríkja á sviði ör­ygg­is- og varn­ar­mála taka þannig til sam­fé­lags­ör­ygg­is í heild sinni. Það er ekki síst á því sviði sem hlut­verk Evr­ópu­sam­bands­ins verður enn veiga­meira í þeirri breyttu heims­mynd sem við búum nú við. EES-samn­ing­ur­inn veit­ir Íslandi hins veg­ar ekki beina aðild að ör­ygg­is- og varn­ar­sam­starfi Evr­ópu­sam­bands­ins. Það ligg­ur því í aug­um uppi að hags­mun­ir Íslands kalla á að við tök­um ut­an­rík­is­stefnu og þjóðarör­yggi okk­ar til end­ur­skoðunar með það fyr­ir aug­um að sækj­ast eft­ir aðild­ar­viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið.

Ákvörðun Finna og Svía um aðild­ar­um­sókn að NATO er tek­in eft­ir nokk­urra vikna umræður en bygg­ir engu að síður á víðtæku sam­ráði. Það er nefni­lega hægt að bregðast hratt við þegar aðstæður krefjast án þess að nauðsyn­leg og gagn­rýn­in póli­tísk umræða sé und­an­skil­in. Það þarf bara vilja og þor.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. maí 2022