Um hvað snýst valið?

Þegar allt kemur til alls snýst valið á morgun um bæði málefni og trúverðugleika. Stefnumálin sjálf segja nefnilega ekki alla söguna. Það þarf líka að leggja mat á trúverðugleika framboðanna til að greina þau almennilega í sundur. Þá skiptir máli fyrir kjósendur að spyrja sig hverjum sé best treystandi til þeirra verka sem þarf að vinna.

Umbætur á grundvelli árangurs

Víða um land hafa framboð Viðreisnar kynnt skýra stefnu til næstu ára. Raunhæf markmið sem við ætlum að ná fram með ábyrgri stjórnun og stefnufestu að leiðarljósi. Því það er einmitt á grundvelli góðs árangurs og skýrrar framtíðarstefnu sem raunverulegar umbætur verða að veruleika.

Fyrri afrek framboðanna og þeirra flokka sem á bak við þau standa gefa góða vísbendingu um framtíðina. Árangur Viðreisnar er til dæmis augljós þegar litið er til Reykjavíkurborgar. Góður rekstur borgarinnar hefur ásamt þróttmiklu atvinnulífi skapað betra samfélag og tryggt raunverulegar umbætur í þágu borgarbúa. Trúverðugleikinn er því til staðar hjá Viðreisn.

Mikilvægt að vanda sig

Við höfum alltaf lagt upp með að sýna ábyrgð og vanda til verka þegar farið er með völdin sem okkur er treyst fyrir. Það er grundvallaratriði fyrir allt stjórnmálafólk. Þessi sýn er þó misáberandi í orðræðu frambjóðenda. Þau framboð sem bjóða fram undir formerkjum stærri flokka geta ekki komist hjá því að svara fyrir orð og gjörðir eigin flokka. Þau þurfa að sýna ábyrgð og veita kjósendum skýr svör ef þau vilja halda trúverðugleika sínum.

Mikilvægt er að hafa þetta hugfast á kjördag. Þessar kosningar snúast ekki síður um trúverðugleika. Því hann er lykilatriði ef við viljum tryggja raunverulegar umbætur og stefnufestu til framtíðar. Á morgun hafa kjósendur tækifæri til þess.

Merkjum X við C á morgun.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí 2022