Best í breyttum heimi?

Ég átti orðastað við Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dótt­ur ut­an­rík­is­ráðherra í vik­unni, þar sem ég spurði m.a. hvort í gangi væri vinna með end­ur­skoðað hags­muna­mat í ör­ygg­is­mál­um Íslands, miðað við breytta stöðu í Evr­ópu. Við erum ósam­mála um mik­il­vægi Evr­ópu­sam­bands­ins í þessu sam­bandi en sam­talið er nauðsyn­legt. Í máli ráðherra kom fram að umræðan um Evr­ópu­sam­bandið væri að nokkru leyti að breyt­ast í Evr­ópu. Það er auðvitað hár­rétt. Nær­tæk­ast fyr­ir okk­ur er að líta til þess að yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti dönsku þjóðar­inn­ar kaus í vik­unni með því að falla frá fyr­ir­vör­um og hefja þátt­töku í varn­ar­sam­starfi Evr­ópu­sam­bands­ins. Dan­ir eru þannig ekki í nein­um vafa um kosti aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu fyr­ir ör­yggi sitt og full­veldi. Í Nor­egi er vax­andi þungi í umræðum um að það sé tíma­bært að skoða Evr­ópu­sam­bandsaðild að nýju.

Eins mik­il­vægt og Evr­ópu­sam­bandið óneit­an­lega er fyr­ir frjáls viðskipti á milli landa, þá snýst sam­starfið í heild sinni um annað og meira. Síðari heims­styrj­öld­in tætti álf­una okk­ar nán­ast í sund­ur. Á síðustu ára­tug­um hafa þjóðir Evr­ópu færst nær hver ann­arri og til­vist Evr­ópu­sam­bands­ins var staðfest­ing á því mark­miði að aldrei aft­ur færu Evr­ópu­ríki í stríð hvert við annað. Þar vinna þjóðir Evr­ópu sam­an, ekki bara varðandi frjáls viðskipti held­ur líka lýðræði, mann­rétt­indi, þró­un­ar­starf, um­hverf­is­mál og vörn gegn ut­anaðkom­andi ógn­um, svo það helsta sé nefnt.

Ísland er stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu, öfl­ug­asta ör­ygg­is- og varn­ar­sam­starfi í heimi. Sem bet­ur fer. Það eru Dan­ir líka. Í ljósi breyttr­ar stöðu í heims­mál­un­um hafa þau nú tekið ein­arða af­stöðu með því að taka full­an þátt í varn­ar­sam­starfi Evr­ópu­sam­bands­ins en Dan­ir hafa til þessa verið eina aðild­ar­ríkið sem ekki tek­ur þátt í því sam­starfi. Eft­ir að danska þjóðin hafði sagt sitt í þessu máli, sagði Mette Frederik­sen, for­sæt­is­ráðherra Dana, að það væri mik­il­vægt að senda þau skila­boð til manna eins og Pútíns Rúss­lands­for­seta að þjóðir Evr­ópu stæðu sam­an gegn þeirri ógn sem skapaðist, þegar ráðist væri á eina þeirra. Atlants­hafs­banda­lagið yrði áfram mik­il­væg­asta stoðin í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um Dana en varn­ar­sam­starf ESB styrkti varn­irn­ar til aust­urs.

Er ekki rétt að viður­kenna þörf­ina á því að við end­ur­skoðum hags­muna­matið í ör­ygg­is­mál­um Íslands miðað við breytta stöðu í Evr­ópu? Eitt af því sem Dan­ir munu til dæm­is styrkja til muna, með því að taka þátt í varn­ar­sam­starfi Evr­ópu­sam­bands­ins, er netör­yggi. Við vit­um að stríð framtíðar­inn­ar verða háð með öðrum hætti en við höf­um þekkt til þessa, til dæm­is með aukn­um netárás­um. Hvar stönd­um við í þess­um mál­um? Hvar er best fyr­ir okk­ur að standa?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. júní 2022