Frelsi til að kveðja ofbeldið

Hvernig stend­ur á því að okk­ur hef­ur þótt í lagi svo árum og ára­tug­um skipt­ir að kerfið vinni gegn fólki sem vill losna úr of­beld­is­sam­bönd­um? Að ein­stak­ling­ur sem þarf að losna úr hjóna­bandi þar sem hann hef­ur verið beitt­ur of­beldi af maka sé háður því að mak­inn samþykki skilnaðinn á grund­velli of­beld­is­ins? Jafn­vel þótt hann hafi hlotið dóm fyr­ir. Að ferlið taki óra­tíma fyr­ir dóm­stól­um með til­heyr­andi kostnaði. Að tím­inn og kostnaður­inn þýði jafn­vel að fólk gef­ist upp og endi aft­ur í of­beld­is­sam­band­inu. Að það væri í öll­um til­fell­um best að hafa það ein­falt að gift­ast en erfitt að skilja?

Sem bet­ur fer hafa nú orðið kafla­skil í þess­um mál­um eft­ir að Alþingi samþykkti frum­varp Viðreisn­ar um breyt­ing­ar á hjú­skap­ar­lög­um sem auðveld­ar skilnaðarferlið fyr­ir fólk sem hef­ur orðið fyr­ir of­beldi af hálfu maka síns eða býr á heim­ili þar sem barn hef­ur verið beitt of­beldi. Með gildis­töku lag­anna 1. júlí 2023 mun nægja að fyr­ir liggi upp­lýs­ing­ar frá lög­reglu um út­kall vegna heim­il­isof­beld­is eða önn­ur gögn á borð við áverka­vott­orð eða mat sál­fræðings eða þá að heild­armat á aðstæðum og upp­lýs­ing­um gefi að öðru leyti til­efni til að ætla að það hjóna sem krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá hjón­un­um, hafi mátt þola lík­am­legt eða and­legt of­beldi af hálfu maka. Þegar skilnaðar er kraf­ist á þess­um grund­velli fyr­ir dómi eiga þolend­ur jafn­framt rétt á sér­stakri flýtimeðferð.

Samþykkt þessa máls er skref í átt að auknu rétt­læti fyr­ir þolend­ur heim­il­isof­beld­is, en það er enn mikið verk fyr­ir hönd­um. Það er því ánægju­legt að við af­greiðslu frum­varps­ins samþykkti Alþingi að beina því til ráðherra mála­flokks­ins að end­ur­skoða ákvæði hjú­skap­ar­laga og fram­kvæmd þeirra inn­an tveggja ára. Þá var sér­stak­lega tekið und­ir mik­il­vægi þess að breyta gjaf­sókn­ar­regl­um hið allra fyrsta á þann veg að þær taki í öll­um til­vik­um til fólks sem krefst skilnaðar á grunni heim­il­isof­beld­is.

Hjóna­bandið hef­ur verið mik­il­væg grunn­ein­ing í sam­fé­lagi okk­ar og því nauðsyn­legt að um það gildi skýr lög og regl­ur. Það er hins veg­ar sjálf­sögð og af­drátt­ar­laus krafa að þau lög og þær regl­ur hefti ekki frelsi fólks sem vill losna úr of­beld­is­sam­bandi. Að kerfið vinni ekki gegn fólki held­ur með því. Öðru­vísi er ekki hægt að tala um hjóna­bandið sem já­kvæða grunn­ein­ingu í sam­fé­lag­inu. Það hljót­um við öll að geta verið sam­mála um. Það eru líka ein­róma skila­boð Alþing­is. Loks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. júní 2022