Gjald á gust eða hörgul?

Þorsteinn Pálsson

Í 17. júní ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra um auðlindagjald á beislun vindorku. Þar sendi hún tvenn pólitísk skilaboð:

Í fyrsta lagi að settur yrði rammi um það hvernig arðurinn af þessari nýju auðlind renni til samfélagsins.

Í öðru lagi að samfélagsleg sátt yrði að nást um arðinn áður en lengra yrði haldið.

Þessi sjónarmið sá forsætisráðherra ekki ástæðu til að ræða við Alþingi aðeins tveimur dögum áður, er það fjallaði um nýtingu og vernd orkukosta.

Viðfangsefnið blasti strax við þegar ríkisstjórnin var mynduð fyrir fimm árum. Allur tíminn hefur farið í að tvístíga með íhugun og ákvarðanir.

Rök fyrir gjaldi

Viðfangsefnið þarf að skoða núna með hliðsjón af grænu skýrslunni, sem birt var í mars. Höfundar hennar eru trúnaðarmenn stjórnarflokkanna: Ari Trausti Guðmundsson, Sigríður Mogensen og Vilhjálmur Egilsson.

Þau fjalla sérstaklega um hagnað og mögulega gjaldtöku af vindorku. Niðurstaða þeirra er afdráttarlaus:

„Hvað varðar vindorku sérstaklega þá verður umframhagnaður ekki til vegna skorts á vindi því hann eyðist ekki hversu mikið sem af honum er tekið.“

Samkvæmt þessu standa engin rök til þess að leggja gjald á gustinn. En rík rök geta verið fyrir gjaldtöku af öðrum ástæðum.

Hörgull

Í grænu skýrslunni nefna höfundarnir þannig tvö atriði, sem leitt geti til umframhagnaðar og eðlilegrar gjaldtöku.

Annars vegar segja þau „að umframhagnaður geti myndast ef landnýting til vindorkuvera er svo takmörkuð að verðmæti lands hækki umtalsvert.“ Hins vegar „ef leyfi til vindorkuvera verða svo takmörkuð að það skapi sérstök tækifæri til umframhagnaðar.“

Síðan segja þau Ari Trausti, Vilhjálmur og Sigríður:

„Þá reynir á hvort tregða til útgáfu virkjanaleyfa vegna opinberrar stefnumörkunar eða annarra ástæðna framkalli slíka stöðu. Að öðru leyti þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvert ávinningur orkuframleiðslu rennur umfram aðra atvinnustarfsemi.“

Þetta er sem sagt spurning um hversu mikill hörgull framkallast á leyfum. Hugmyndafræðilegar forsendur fyrir gjaldtöku liggja þannig fyrir. Tvístig með ákvarðanir

Það er enginn þjóðarágreiningur um slíka gjaldtöku. Hún kallar ekki á flókna vinnu. Í framhaldi af grænu skýrslunni er þetta skattatæknilegt úrlausnarefni, sem Alþingi þarf vitaskuld að taka afstöðu til.

Það stendur hins vegar upp á forsætisráðherra að svara hinu: Hversu mikil á tregðan að vera?

Eða: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja þau 100MW á hverju ári næstu tvo áratugi, sem höfundar grænu skýrslunnar segja að þurfi til þess að ná megi markmiðum stjórnarsáttmálans um orkuskipti og hagvöxt með grænni iðnbyltingu?

Kjarni málsins er sá að engin rök standa til þess að tvístíga með þessar ákvarðanir eitt kjörtímabil í viðbót.

Leiðsögn vantar

Meðal þjóðarinnar er sátt um gjaldtöku fyrir einkarétt til fiskveiða. Í fimm ár hefur forsætisráðherra þó tekið þátt í að hindra að sú þjóðarsátt næði fram að ganga á Alþingi og ætlar að halda því áfram.

Gjaldtaka vegna vindorkuvirkjana byggist á því að framboð á opinberum leyfum verður fyrirsjáanlega minna en eftirspurnin.

Nú virðist forsætisráðherra ætla að tefja ákvarðanir um landnýtingu fyrir vindmyllur með tali um að fyrst þurfi að finna leiðir til að ná þjóðarsátt um gjaldtöku, sem enginn ágreiningur er um.

Það eru hins vegar skiptar skoðanir um landnýtingu. Fyrir þá sök er kallað á pólitíska leiðsögn. Hvar er hún?

Klemma

Útspil forsætisráðherra virðist vera hugsað sem nýr tafaleikur vegna ólíkra skoðana um landnýtingu. Slíkar tafir geta mögulega þjónað mismunandi pólitískum hagsmunum stjórnarflokkanna. En þær þjóna ekki almannahagsmunum.

Sjálfstæðisflokkurinn er bara á móti auðlindagjaldi í sjávarútvegi, ekki vegna vindorkuleyfa. VG ræður hins vegar illa við að leyfa landnýtingu fyrir þá miklu orkuöflun með vindorku, sem þörf er á.

Tafaleikir á báðum sviðum eru eina leiðin til að tryggja pólitískan stöðugleika.

Atvinnulífið bíður hins vegar eftir skýrum skilaboðum. Fá teikn eru um að þau komi á þessu kjörtímabili. Á meðan dregst Ísland aftur úr í loftslagsmálum. Þetta er pólitísk klemma, sem losa þarf um.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. júní 2022