Leiðréttum launaskekkjuna

Það eru ríf­lega fimm ár síðan stjórn­ar­flokk­arnir tóku við völd­um. Á hálfum ára­tug hefur stjórn­inni því gef­ist nægur tími til verka. Staðan á vinnu­mark­aði sýnir þó að enn er langt í land í jafn­rétt­is­mál­um.

Kerf­is­bundna órétt­lætið

Að und­an­förnu hefur Banda­lag háskóla­manna beint spjótum að þessum vanda. Í gagn­rýni þeirra segir að enn sé ójafnt gefið í íslensku sam­fé­lagi og að þar halli veru­lega á kon­ur. Á næstu árum þurfi atvinnu­líf og heild­ar­sam­tök því að vinna saman að sam­fé­lags­sátt og leið­rétta skakkt verð­mæta­mat „kvenna­starfa“ á opin­berum mark­aði. Sam­hliða því þyrfti í sam­ein­ingu að hemja mögu­legt höfr­unga­hlaup sem af slíkri leið­rétt­ingu gæti hlot­ist. Til þess þurfi skiln­ing meðal almenn­ings og atvinnu­lífs á því kerf­is­bundna órétt­læti sem tíðkast í virð­is­mati „kvenna­starfa“ á opin­bera mark­aðn­um.

Hér er ég sam­mála BHM enda eru þessi orð í fullu sam­ræmi við þings­á­lykt­un­ar­til­lögu okkar í Við­reisn frá 2017 sem fjall­aði um þjóð­ar­sátt um bætt launa­kjör kvenna­stétta. Til­lagan var sam­þykkt ári síðar og var fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra falið þetta hlut­verk og fá aðila vinnu­mark­að­ar­ins og sveit­ar­fé­lög til að tryggja jafn­ræði við launa­setn­ingu ólíkra starfs­stétta. Síðan hefur lítið til þess­arar til­lögu spurst enda málið komið til rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem enn og aftur finnst skipta máli hvaðan til­lögur koma í stað þess að taka á vanda­mál­inu og fara af krafti í þetta brýna við­fangs­efni.

Samt blasir við ófremd­ar­á­stand í heil­brigð­is­kerf­inu þar sem álag er gríð­ar­legt og hjúkr­un­ar­fræð­ingar leita í önnur störf, hætta eða enda í örorku. Þessi snjó­bolta­á­hrif leiða síðan til þess að mikil þekk­ing og reynsla hverfur út úr heil­brigð­is­kerf­inu. Staðan á Land­spít­al­anum og í opin­bera geir­anum er bein afleið­ing þess að ekki hefur tek­ist að bæta kjör kvenna­stétta. Sú mis­skipt­ing er eitt stærsta vanda­mál heil­brigð­is­kerf­is­ins. Fólk veigrar sér við að leita til spít­al­ans eða á heilsu­gæslu vegna álags­ins. Á meðan laun hjúkr­un­ar­fræð­inga og ann­arra kvenna­stétta eru ekki sam­keppn­is­hæf verður staðan áfram þessi. Það er póli­tísk ákvörð­un.

Póli­tíska for­ystu vantar

Þegar álagið er ómennskt og hjúkr­un­ar­fræð­ingar neyddir til að segja upp vegna bug­unar felur rík­is­stjórnin nefnd að skoða mál­ið. Það kann hún. En stað­reynd­irnar tala sínu máli og ástandið í heil­brigð­is­kerf­inu þar með.

Við erum vissu­lega í fyrsta sæti þegar kemur að jafn­rétt­is­mál­um. For­sæt­is­ráð­herra bendir rétti­lega á að jafn­laun­vottun hafi skipt miklu máli, þótt eitt fyrsta verk rík­is­stjórn­ar­innar hafi verið að fresta gild­is­töku hennar um eitt ár. Margt hefur áunn­ist. En þetta þýðir líka að við þurfum að vera í for­ystu til að laga það ójafn­rétti sem til staðar er. Þetta jafn­rétt­is­mál, að leið­rétta kjör kvenna­stétta innan opin­bera geirans, er mik­il­vægt vel­ferð­ar­mál og eitt það brýn­asta sem þarf að taka föstum tökum nú í aðdrag­anda kjara­samn­inga.

Við erum lítið sam­fé­lag. Allt of lítið til að fjöl­mennar kvenna­stéttir séu látnar bera uppi vel­ferð­ar­kerfi á launum sem byggja á skökku gild­is­mati. Þessu er hægt að breyta. Hæg eru heima­tökin ef póli­tísk for­ysta er til stað­ar.

Fyrir síð­ustu kjara­samn­inga missti rík­is­stjórnin þennan bolta. Nú er aftur tæki­færi til að grípa bolt­ann og beita sér raun­veru­lega í þágu þess að bæta launa­kjör kvenna­stétta. Skapa þjóð­ar­sátt um þá leið. Eða eins og BHM orð­aði það: „Ójöfn launa­setn­ing, þar sem hallar á konur á opin­berum mark­aði, er ein­fald­lega ekki verj­andi fyrir íslenskt sam­fé­lag lengur – og hefur reyndar aldrei verið það.“

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 8. júní 2022