Pólitík í biðflokki

Þorsteinn Pálsson

Ísland er á eftir mörgum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við í aðgerðum í loftslagsmálum.“

Þetta er ekki tilvitnun í ólundarfugl í stjórnarandstöðu. Orðin lét Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra falla á loftslagsdeginum í Hörpu í byrjun maí.

Þannig er staða loftslagsmála eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur setið í hartnær fimm ár.

Vera má að ráðherrann sé að losa sjálfan sig undan ábyrgð á athafnadofa ríkisstjórnarinnar fram til þessa. En það breytir ekki hinu að það er virðingarvert að ráðherra segi satt um stöðu svo mikilvægra mála.

Falleinkunn

Fyrir síðustu kosningar gáfu Ungir umhverfissinnar umsagnir um stefnu stjórnmálaflokka í loftslagsmálum. VG fékk nánast fullt hús stiga.

Á dögunum greindi Vísir frá nýju raunveruleikamati samtakanna. Það segir að samdráttur í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 2005 til 2030 verði aðeins 4,3% en ekki 55% eins og stefnt er að. Í vitnisburði um ríkisstjórnina nota þau orðið: Falleinkunn.

Unga fólkið segir að stjórnvöld haldi landnotkun og stóriðju fyrir utan sínar tölur. Í því liggi helsti munurinn.

Ugglaust má deila um aðferðafræði Ungra umhverfissinna. En hlutfallið milli álits á stefnunni og mats á raunveruleikanum sýnir að VG hefur litlu áorkað á þessu sviði, þrátt fyrir fimm ár í stjórnarforystu og endurnýjaðan stjórnarsáttmála.

Von

Stefnan í loftslagsmálum hefur verið metnaðarfull. En flestar veigamiklar ákvarðanir um framkvæmdina hafa verið í biðflokki eins og önnur helstu mál.

Þannig segja Samtök atvinnulífsins að skuldavandi ríkissjóðs hafi verið settur í biðflokk fyrir næstu ríkisstjórn að leysa. Ákvarðanir um ný skref í varnar- og öryggismálum og evrópskri efnahagssamvinnu eru líka í biðflokki fyrir næstu ríkisstjórn. Og sjávarútvegsmálin eru einnig í þessum biðflokki.

Í mars birti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra græna skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum.

Skýrslan staðfestir að eftir fimm ára setu á ríkisstjórnin eftir að taka allar helstu pólitísku ákvarðanirnar, sem máli skipta á þessu sviði. En röggsemin við gerð skýrslunnar á tveimur mánuðum gefur vonir um að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi ákveðið að leggja allt að veði til að verða fyrsti ráðherrann á öllum þessum tíma, sem rífur mál úr biðflokki.

Fyrir þinglok

Þyngsti áfellisdómur skýrslunnar er sú niðurstaða að fjárfestingar í orkumálum hafi ekki fylgt eftir markmiðum í loftslagsmálum.

Skýrslan segir svo að velja þurfi milli þessara tveggja leiða:

Annars vegar er græn iðnbylting með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum. Hins vegar er sá kostur að slá af, horfa inn á við, draga saman orkusækna atvinnustarfsemi og líta til annarra verðmæta.

Þetta val er kvöl ríkisstjórnarinnar.

Ef fyrri leiðin er farin, á sama tíma og markmiðum í loftslagsmálum er náð, þarf samkvæmt skýrslunni að auka raforkuframleiðslu sem nemur 100 MW á ári næstu 20 til 30 ár.

Ætli umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að nema þetta risa álitaefni úr biðflokki verður hann að gera tvennt nú fyrir þinglok: Annars vegar að afgreiða rammaáætlun. Hins vegar að kynna hvora leiðina ríkisstjórnin ætlar að velja eftir fimm ára íhugun.

Fyrir kjarasamninga

Velji ríkisstjórnin hagvöxt og virkjanir þarf að fylgja tímasett áætlun um 100 MW á ári til viðbótar. Eigi aftur á móti að virkja minna en ná jafnframt markmiðum í loftslagsmálum þarf að ákveða hversu miklu minna og birta greinargerð um áhrif þess á lífskjör í landinu.

Til þess að ná fram breytingum þarf ráðherra að gera samkomulag við VG um nýtt jafnvægi milli loftslagsverndar og náttúruverndar. Verði það uppgjör áfram í biðflokki fram á næsta þing fellur hann einfaldlega á tíma. Þungamiðjan í efnahagsstefnu stjórnarsáttmálans er mikill hagvöxtur. Kjósi ríkisstjórnin að fara þá leið í grænu skýrslunni, sem víkur í einhverju frá þeim markmiðum, þarf sú ákvörðun augljóslega að liggja fyrir áður en kjarasamningar verða endurnýjaðir á allt öðrum forsendum.

Ráðherra hefur sannarlega knappan tíma til mikilla ákvarðana.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní 2022