Stærsta miðjumálið aftur á dagskrá

Þorsteinn Pálsson

Söguleg ákvörðun Finna og Svía, að sækja um fulla aðild að NATO, er til marks um snögg umskipti í alþjóðamálum. Í kjölfarið sitja öll Norðurlönd við sama borð .

Þessi nýja staða mun verulega styrkja varnar- og öryggissamstarf Norðurlanda. Á þetta hefur utanríkisráðherra réttilega bent.

Norræn samvinna

Náin efnahagssamvinna er óhjákvæmilegur þáttur í árangursríku varnarsamstarfi. Í raun tveir uppistöðuþræðir í sama vef.

Finnar og Svíar hafa um nokkurt skeið verið eins konar aukaaðilar að NATO með sérstökum samstarfssamningum. Á sama hátt hafa Ísland og Noregur verið eins konar aukaaðilar að ESB með aðild að innri markaðnum, sem er þungamiðjan í starfsemi þess.

Lokaskref Íslands og Noregs að fullri aðild að ESB myndi á sama hátt og full NATO aðild Finna og Svía efla norrænt samstarf enn frekar. Öll Norðurlönd sætu þá saman við bæði borðin.

Málamiðlun

Regluverk Evrópusambandsins byggir á sömu hugmyndafræði og norræna módelið. Með öllum sínum kostum og göllum er það einhver árangursríkasta miðjupólitík sögunnar.

Spurningin um fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu er spurning um enn eitt mikilvægt miðjupólitískt skref stjórnmálanna.

Þær miklu sviptingar, sem nú eiga sér stað í viðskipta- og efnahagsmálum og öryggismálum í heiminum, kalla á að þetta miðjupólitíska verkefni verði sett á dagskrá að nýju af fullum þunga.

Nýleg skoðanakönnun bendir til þess að kjósendur séu að minnsta kosti opnir fyrir þeirri umræðu.

Orð fjármálaráðherra

Fjármálaráðherra tefldi nýlega fram afar sterku sjónarmiði inn í rökræðuna. Í greinargerð með fjármálaáætlun til ársins 2027 segir hann:

„Á smáu myntsvæði eins og Íslandi hafa miklar vaxtahækkanir umfram stærstu hagkerfi heims einnig óæskileg hliðaráhrif í formi aukinna líkinda á innstreymi sveiflukennds skammtímafjármagns. Meðal annars af þeim ástæðum er mikilvægt að stefna í fjármálum hins opinbera sé almennt aðhaldssamari en í stærri hagkerfum.“

Hér staðfestir fjármálaráðherra mjög afdráttarlaust að krónunni fylgir mikill fórnarkostnaður.

Tvær leiðir

Margir hafa rætt þennan vanda á undan fjármálaráðherra. Í síðustu kosningum bentu frambjóðendur Viðreisnar til að mynda á þessa fórn skattborgaranna.

Nú deila menn ekki lengur um staðreyndina. Það er framför. Hins vegar draga menn af henni ólíkar ályktanir.

Annars vegar eru þeir sem telja nauðsynlegt að þrengja meira að velferðinni en grannþjóðirnar gera í þeim tilgangi að viðhalda smáu myntkerfi.

Hins vegar eru þeir sem vilja opna umræðu um þátttöku í fjölþjóðlegu myntsamstarfi til þess að geta betur varið velferðarkerfið.

Orð fjármálaráðherra gengislækka þá órökstuddu alhæfingu í stjórnarsáttmálanum að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Um leið eru þau góð ástæða til að setja aðildarspurninguna á dagskrá á ný.

Greining hagfræðiprófessors

Gylfi Zoega hagfræðiprófessor skrifaði rökfasta grein í Vísbendingu í byrjun apríl um smáríki og styrjaldir.

Þar ræðir hann áhrif umbrotanna í heiminum og nauðsyn þess að smáríki styrki fjölþjóðlega samvinnu um hvort tveggja: varnir og viðskipti.

Áhrifin koma ekki aðeins fram í vöruskorti heldur nýjum langvarandi átökum lýðræðisþjóða og einræðisþjóða, sem munu valda óvissu um leikreglur í alþjóðlegum viðskiptum.

Ályktun Gylfa Zoega er þessi. „Af þessum sökum hefur mikilvægi Evrópusambandsins aukist til muna fyrir Ísland.“ Og lokaniðurstaða hans er svohljóðandi: „Það er tími til að velja hvar í þessu nýja landslagi stórvelda Ísland verður. Vonandi verður það meðal lýðræðisríkja Evrópu.“

Framsýni

Glögg greining hagfræðiprófessorsins á íslenskum hagsmunum í breyttri heimsmynd, sýnir hversu brýnt það er að taka aftur á dagskrá spurninguna um lokaskrefið frá innri markaði ESB til fullrar aðildar.

Þunginn í röksemdum hans er ekki minni en vigtin í orðum fjármálaráðherra um veikleika krónunnar.

Þegar við gengum í EFTA og síðar þegar aðildin að innri markaði ESB var ákveðin, sameinuðust andstæðingar og efasemdamenn um þessa röksemdafærslu: Það er svo mikið að gera vegna vanda gærdagsins að við megum ekki eyða tíma í að horfa til morgundagsins.

Viðreisnarstjórnin og Viðeyjarstjórnin vísuðu báðar þröngsýni af þessu tagi á bug. Nú er þörf fyrir slíka framsýni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní 2022