Stóðst ríkisstjórnin prófið í rammaáætlun?

Engin hreyfing hefur verið hvað varðar rammaáætlun frá árinu 2016. Það er ábyrgðarhluti að ekki hefur tekist að vinna málið hraðar en raun ber vitni í ljósi þeirra samfélagslegu hagsmuna sem eru að baki. Það er því fagnaðarefni að rammaáætlun sé loks að ná fram að ganga. Sömuleiðis er jákvætt að í fyrsta sinn eru tilgreindir virkjunarkostir í vindorku.

Verkefnið er að ná fram heilbrigðu jafnvægi milli nýtingar og verndar. Komandi kynslóðum stendur ógn af loftslagsbreytingum og orkuskipti eru grundvallarþáttur um að sporna gegn þeim. Metnaðarfull markmið sem og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum gera að verkum að orkuskipti eiga að vera forgangsmarkmið. Aðgerða er þörf í þágu orkuskipta og til þess þarf aukinn aðgang að endurnýjanlegri orku, sem hægt er að ná fram með betri nýtingu þeirra auðlinda sem þegar eru nýttar, með styrkingu dreifikerfis um landið allt, sparsemi í notkun og aukinni orkuvinnslu. En samhliða ógninni af loftslagsbreytingum er sífellt betri skilningur og áhersla á mikilvægi og verðmæti óbyggðra víðerna sem ríkur vilji er til að standa vörð um. Það hefur þess vegna mikla þýðingu að hafa skýrar leikreglur og stjórntæki á borð við rammaáætlun til að stuðla að skilningi og sátt í samfélaginu og til þess að ná fram því jafnvægi sem stefnt er að.

Mikilvægt að vinna hraðar

Lærdómur undanfarinna ára hlýtur að vera sá að færri kostir séu lagðir fram í hverri tillögu. Hagsmunirnir að baki eru miklir, margir þessara kosta eru umdeildir og málefnið stendur mörgum tilfinningalega nærri. Hvað varðar mikinn fjölda virkjunarkosta má nefna að 28 virkjunarkostir voru í biðflokki án þess þó að nokkur virkjunaraðili hafi óskað eftir mati á þeim. Þetta eru virkjunarkostir sem Orkustofnun fól verkefnisstjórn að fjalla um, í samræmi við heimild stofnunarinnar í lögum. Þessir virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk fyrst og fremst vegna þess að ekki liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um viðkomandi virkjunarkosti. Þetta hefur hins vegar þau áhrif að á meðan er annarri landnýtingu á svæðinu takmörk sett. Óskað var eftir því að Orkustofnun myndi draga alla þessa virkjunarkosti til baka. Mjög jákvætt var að Orkustofnun skyldi fús til þess og með því stuðla að því að vinna við þingsályktunartillöguna yrði einfaldari.

Þau taki ákvörðun sem bera ábyrgðina

Alþingi er ekki bundið af tillögum verkefnisstjórnar og getur gert breytingar á tillögunum. Þetta er hin eðlilega aðferðafræði og mikilvægt að endanleg ákvörðun sé á hendi þeirra sem bera á henni pólitíska ábyrgð. Það er því ekki gagnrýnisvert eitt og sér að þingið geri breytingartillögur. Þær verða hins vegar að vera byggðar á sterkum rökum í þágu almannahagsmuna. Tillögur verkefnisstjórnar um virkjunarkosti byggja á mati faghópa sem skipaðir eru sérfræðingum sem leiðir til þess að gera verður ríkar kröfur til þingsins um að breytingar séu vandlega rökstuddar og ljóst sé á hvaða forsendum og rökum þær hvíla. Það er hér sem verulega vantar upp á af hálfu ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Breytingartillögur um Héraðsvötn og Kjalölduveitu eru illa rökstuddar, þar sem þessir kostir eru færðir úr verndarflokki. Þessar tillögur stand­ast einfaldlega ekki lágmarkskröfur um að þær séu vandlega rökstuddar, að ljóst sé á hvaða forsendum þær byggja og síðast en ekki síst að þær séu í þágu heildarhagsmuna en ekki sérhagsmuna.

Pólitísk hrossakaup

Ef borin er virðing fyrir hinu mikilvæga viðfangsefni blasir við að rökstyðja ákvarðanir. Stundum eru hlutirnir ekkert flóknari en þeir virðast. Um Héraðsvötn blasir við að pólitísk hrossakaup ríkisstjórnarflokkanna hafa leitt af sér niðurstöðu sem fer algjörlega gegn mati sérfræðinga og verður ekki rökstutt með ríkum almannahagsmunum. Tillagan er áfellisdómur um vinnubrögð þeirra flokka sem þar standa að baki. Umfjöllun ríkisstjórnarflokkanna um Kjalölduveitu vekur sömuleiðis spurningar en ekki eru færð fram rök fyrir því hvað gerir að verkum að aftur þurfi að meta þann kost.

Misvísandi rök sem sett eru fram um neðri hluta Þjórsár er annað atriði sem skilur eftir spurningar. Annars vegar er talað um að líta á svæðið sem heild og að horfa eigi til allra þriggja virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár við það mat. Þar virðist mega lesa út úr orðunum að heildstætt mat þriggja kosta sé fram undan. Engu að síður árétta ríkisstjórnarflokkarnir að virkjunarkosturinn Hvammsvirkjun standi óbreyttur. Hver er þá staðan? Með þessari framsetningu skila ríkisstjórnarflokkarnir niðurstöðu sem skapar réttaróvissu fyrir alla hlutaðeigandi aðila.

Hið heilbrigða jafnvægi

Viðreisn hefur talað fyrir því að orkufyrirtæki skulu nýta sem best þá raforku sem má framleiða á núverandi virkjanasvæðum. Flokkunin frá verkefnastjórn byggir á sömu nálgun. Ríkisstjórnin víkur núna frá þessum viðmiðum án þess að fyrir liggi haldbær rökstuðningur um ákveðnar breytingartillögur. Þá er ekki heldur fjallað um hversu mikil raforka færist milli flokka, það er hvaða áhrif það hefur á þá raforku sem verður í nýtingarflokki eftir breytingartillögur meirihlutans. Ekkert mat er um hver áhrif þessara breytingartillagna verða. Að sama skapi er ekki fjallað um hagkvæmni virkjunarkosta sem færast milli flokka eða þjóðhagsleg áhrif þeirra. Hver verða áhrifin á markmið stjórnvalda um orkuskipti? Verða þau dýrari eða ódýrari við þessar breytingar meirihlutans?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní 2022