Tvær heitar kartöflur

Þorsteinn Pálsson

Þjóðin hefur um ára­bil staðið and­spænis tveimur stórum verk­efnum í auð­linda­málum.

Annað þeirra snýst um gjald­töku fyrir einka­rétt til veiða í sam­eigin­legri auð­lind. Hitt lýtur að orku­öflun til þess að ná mark­miðum um orku­skipti og hag­vöxt.

Klemman er sú sama í báðum til­vikum:

Jað­rarnir í pólitíkinni, lengst til hægri og lengst til vinstri, byggja sam­starfið við ríkis­stjórnar­borðið á gagn­kvæmu neitunar­valdi. Flokkarnir næst miðjunni eru sundraðir meðal annars vegna þess að sá stærsti þeirra er bundinn í ríkis­stjórn af neitunar­valdi tveggja jaðar­flokka.

Nefnd og nefnda­kerfi

Bæði málin eru heitar kar­töflur í pólitískum skilningi. Í full fjögur ár gætti ríkis­stjórnin þess að snerta hvoruga þeirra.

Á þessu ári hafa tveir ráð­herrar á­rætt að nálgast kar­töflurnar, án þess þó að snerta þær. Nálgunin felst í skipun nefnda. En nefnda­skipanir geta verið ó­líkrar náttúru.

Um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra skipaði í byrjun árs þriggja manna nefnd. Eftir tvo mánuði skilaði hún grænni skýrslu með skýrum kostum.

Mat­væla­ráð­herra stofnaði svo á dögunum heilt nefnda­kerfi. Það er með fjóra starfs­hópa, eina sam­hæfingar­nefnd, eitt yfir­ráð og alls fjöru­tíu og sex stjórn­mála­menn, em­bættis­menn, sér­fræðinga og hags­muna­gæslu­full­trúa.

Góður grunnur til á­kvarðana

Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur farið með orku­málin í bráðum ára­tug. En þing­menn hans hafa til þessa kosið að að­hafast ekkert.

Fram­sókn og Við­reisn, innan og utan ríkis­stjórnar, hafa aftur á móti talað tæpi­tungu­laust fyrir því að afla orku til að tryggja orku­skipti í tíma.

Snaggara­legt verk­lag Guð­laugs Þórs Þórðar­sonar benti til að hann hefði í hyggju að bæta stöðu Sjálf­stæðis­flokksins á þessu sviði. Græna skýrslan er engin úti­deyfa. Hún stillir upp skýrum pólitískum spurningum til á­kvörðunar.

Undir­búnings­tími virkjana er langur meðal annars vegna mikil­vægra um­hverfis­sjónar­miða. Ljóst er því að ekki má draga deginum lengur að setja fram tíma­setta tuttugu ára orku­öflunar­á­ætlun byggða á grænu skýrslunni. Það hefði reyndar átt að gerast í byrjun síðasta kjör­tíma­bils.

Brennandi á­hugi á rétt­læti

Daginn sem Svan­dís Svavars­dóttir kynnti risa­stóra nefnda­kerfið sagði hún í við­tali við RÚV að mark­miðið væri tvenns konar: Annars vegar að leysa ó­á­nægju vegna sam­þjöppunar veiði­heimilda og hins vegar ó­rétt­látrar skiptingar á á­góðanum af sam­eigin­legri auð­lind.

Í við­tali á Hring­braut sagðist ráð­herrann brenna fyrir auknu rétt­læti í sjávar­út­vegi.

For­stjóri Sam­herja sagði svo í við­tali við Frétta­blaðið daginn eftir að hann fagnaði nefndunum.

Sá fögnuður gæti stafað af því að hann deili með ráð­herranum brennandi á­huga á meira rétt­læti.

En fögnuðurinn gæti líka stafað af hinu að hann deili með mörgum öðrum þeirri hugsun að svo þvælið nefnda­kerfi sé lík­legra til að flækja en leysa á­greininginn.

Verk­efni fyrir ríkis­stjórn

Á­greiningurinn er hug­mynda­fræði­legur. Hvorugt verk­efnið leysist því í nefnd. Það þarf að höggva á hnútana við ríkis­stjórnar­borðið.

Mat­væla­ráð­herra reynir að seinka för síns máls upp á borð ríkis­stjórnar til að skapa ekki þrýsting á Sjálf­stæðis­flokkinn. Með því varð­veitir hún pólitískan stöðug­leika en hættir á að brennandi á­hugi hennar og þjóðarinnar á auknu rétt­læti lendi í úti­deyfu eitt kjör­tíma­bil í við­bót.

Orku­ráð­herra reynir hins vegar að flýta för síns máls til á­kvarðana við ríkis­stjórnar­borðið til þess að þrýsta á VG. Hann virðist hafa metnað til að ná raun­veru­legum árangri, en er að falla á tíma. Þó að græna skýrslan hafi verið til­búin í mars bólar samt ekkert á á­kvörðunum.

Best fyrir þjóðina

Á­fram­haldandi stöðug­leiki í að­gerða­leysi á þessum tveimur sviðum auð­linda­mála þýðir meira ó­rétt­læti og meiri ó­vissu í lofts­lags­málum og í þjóðar­bú­skapnum.

Hefð­bundin mála­miðlun milli jaðar­flokkanna myndi þýða hálft rétt­læti í sjávar­út­vegi og hálfan árangur í orku­öflun.

For­maður Við­reisnar, Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, stakk hins vegar upp á þeirri mála­miðlun í ára­móta­grein í Morgun­blaðinu að jaðar­flokkarnir féllu frá neitunar­valdi sínu á báðum þessum sviðum.

Þá hefði mat­væla­ráð­herra öruggan meiri­hluta fyrir rétt­læti í sjávar­út­vegi með eðli­legu gjaldi fyrir tíma­bundinn nýtingar­rétt. Og orku­ráð­herra hefði góðan meiri­hluta fyrir tíma­settri á­ætlun um orku­öflun til orku­skipta og hag­vaxtar.

Er þetta ekki bara best fyrir þjóðina?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júní 2022