Dæmafár milliliður

Þorsteinn Pálsson

Í pólitík er það yfirleitt til vinsælda fallið að tala um forystu Íslands og sérstöðu.

Við hreykjum okkur þó sárasjaldan af sjálfstæðum gjaldmiðli landsins. Krónan er okkar einmana mælikvarði á þjóðarhag og okkar sérstæði milliliður í innlendum viðskiptum og við geymslu verðmæta.

Fá dæmi eru um hliðstæðan millilið, sem við viljum jafna okkur til.

Sameiginlegi kassinn

Í greinargerð með síðustu fjármálaáætlun lýsti fjármálaráðherra veikleikum íslensku krónunnar. Hann sagði hreinskilnislega að við þyrftum fyrir þær sakir að sýna meira aðhald í opinberum rekstri en aðrar þjóðir.

Að þessu leyti erum við sérstök. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að flytja skuldavandann yfir á næstu ríkisstjórn að dómi Samtaka atvinnulífsins.

Annar kostur er að þrengja meir að velferðarkerfinu en grannþjóðirnar þurfa eða hækka skatta meir en þær. Þriðji kosturinn er að taka upp alþjóðlega gjaldgenga mynt til þess að standa jafnfætis öðrum þjóðum í ríkisfjármálum.

Þegar Ísland varð fullvalda vildum við halda áfram aðild að Norræna myntbandalaginu. Það hafði verið forsenda atvinnubyltingarinnar í sjávarútvegi í byrjun síðustu aldar. Því miður leystist bandalagið upp. En í dag eigum við mögulega kost á aðild að enn öflugra myntbandalagi í Evrópu.

Hvort er betra að þrengja meir að velferðarkerfinu en grannþjóðirnar og halda krónunni eða fara í fjölþjóðlegt myntsamstarf?

Vextir og verðbólga

Seðlabankastjóri segir sem satt er að það sé líka verðbólga í útlöndum. Og réttilega segir hann að vextir hækki líka í útlöndum. Að þessu leyti erum við eins og aðrar þjóðir.

En það er önnur hlið á þessum peningi.

Þegar faraldurinn skall á hrundi krónan og verðbólgan fór af stað. Þetta gerðist hvergi annars staðar. Hjá grannþjóðunum fór verðbólgan fyrst af stað þegar hjólin fóru að snúast á ný. Hjá okkur fer verðbólgan af stað bæði í samdrætti og uppsveiflu.

Annar vandi okkar er að vextir hækka miklu meir en í grannlöndunum.

Ein ástæða fyrir því er sú að stór hluti fyrirtækja stendur utan krónuhagkerfisins og tekur lán í útlöndum. Þau eru meira háð vöxtum erlendra seðlabanka en Seðlabanka Íslands. Vextir hans ná líka illa til verðtryggðra lána.

Því þarf að þrengja meir að launafólki og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Byrðunum í baráttunni við verðbólguna er þannig misskipt í ríkari mæli hér en annars staðar.

Borgar þessi sérstaða sig? Er hún réttlát?

Lífeyrissparnaðurinn

Við erum sérstök að því leyti að eiga eitt öflugasta söfnunarkerfi félagslegra lífeyrisréttinda í heimi.

En við erum öðruvísi en þær fáu þjóðir, sem standa í sömu sporum. Þær ávaxta allan eða mest allan sparnaðinn utan eigin hagkerfis. Þetta er gert til að draga úr áhættu lífeyrisþega og koma í veg fyrir bólumyndun og aðra röskun á heimamarkaði.

Við ávöxtum minnihluta lífeyrissparnaðarins erlendis. Afleiðingin er meiri áhætta fyrir lífeyrisþega og meiri bólumyndun á eignamörkuðum, sem aftur eykur misskiptingu. Sjóðirnir eru bæði ráðandi eigendur banka og stærstu viðskiptavina þeirra. Það er ekki sérlega heilbrigt.

Ef við gerðum eins og samanburðarþjóðirnar myndi krónan hrynja. Enginn vill það. En verði haldið áfram að þröngva mest öllum lífeyrissparnaðinum inn í miklu minna peningakerfi er raunveruleg hætta á að söfnunarkerfið bresti.

Ólíklegt er að við getum til lengdar haldið bæði söfnunarkerfinu og krónunni. Hvort skiptir þá meira máli fyrir launafólk, félagslega lífeyriskerfið eða krónan?

Til umhugsunar

Hér hafa verið nefnd þrjú mikilvæg svið þar sem okkar sérstæði milliliður er til verulegra vandræða. Rík ástæða er því til að hugleiða hvort aðild að evrópska myntbandalaginu gæti ekki verið betri kostur.

Hér er mest í húfi fyrir launafólk og lítil og meðalstór fyrirtæki. Þegar sumir geta valið að nota annan og traustari millilið er þetta líka spurning um réttlæti.

Með sameiginlegum millilið eins og evru gætum við barið í augljósa bresti í þjóðarbúskapnum. Um leið hefðum við betri fótfestu til að styrkja sérstöðu landsins á öðrum sviðum, hvort heldur horft er til velferðar, menningar, rótgróinna atvinnugreina eða nýsköpunar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. júlí 2022