Enginn vill í Evrópu­sam­bandið!!!

Þorsteinn Pálsson

Það vill enginn fara í Evrópu­sam­bandið.“

Þessi til­vitnun er ekki í ræðu formanns Mið­flokksins.

Kristján Kristjáns­son stjórnandi Sprengi­sands lét þessi orð falla í þætti sínum 19. júní, daginn eftir að greint var frá því að í annað skiptið á þessu ári sýndi skoðana­könnun að miklu fleiri kjós­endur styddu aðild að Evrópu­sam­bandinu en væru henni and­vígir.

Pott­lok

Hér á hlut að máli annar af tveimur allra bestu stjórn­endum pólitískra um­ræðu­þátta í landinu. Um­mælin skrifast hugsan­lega á fljót­færni og skipta litlu máli. Þau eru bara smátt dæmi um hversu þétt pott­lok hefur verið sett á um­ræður um þetta mikil­væga á­lita­efni.

Það eru fyrst og fremst stjórnar­flokkarnir þrír og Sam­tök at­vinnu­lífsins, sem beitt hafa á­hrifa­valdi sínu á síðustu árum til þess að kæfa um­ræðu um að Ís­land stígi loka­skrefið frá aðild að innri markaði Evrópu­sam­bandsins til fullrar aðildar.

Frá fólkinu

Þessi mark­vissa þöggunar­stefna hefur haft á­hrif á vett­vangi stjórn­mála, í at­vinnu­lífinu, fjöl­miðlum og jafn­vel innan sam­taka laun­þega. En ó­rök­studdar al­hæfingar duga ekki enda­laust til að bæla niður um­ræður af þessu tagi.

Það á­huga­verðasta við þessar tvær skoðana­kannanir er að við­horfs­breytingin, sem þær sýna, er sjálf­sprottin. Hún kemur ekki í kjöl­far um­ræðu­þrýstings eða á­róðurs­her­ferðar.

Fólkið finnur ein­fald­lega sjálft að sviptingar í al­þjóða­málum kalla á endur­mat á ís­lenskri hags­muna­gæslu meðan leið­togar at­vinnu­lífsins og stjórnar­flokkanna leggja koll­húfur.

Aðildar­um­sókn Finna og Svía að NATO spratt upp úr svipuðum breytingum í skoðana­könnunum. Þar tók pólitíkin for­ystu í um­ræðunni en reyndi ekki að setja pott­lok á hana.

Um­skipti

Þó að aðildar­spurningin hafi ekki verið á dag­skrá í ára­tug sýndu kannanir að allt að þriðjungur þjóðarinnar var henni að jafnaði fylgjandi. Nú er það tæpur helmingur, rúmur þriðjungur and­vígur og aðrir ó­á­kveðnir. Þetta eru mikil um­skipti.

Allir flokkar, nema Mið­flokkurinn, fá rúm­lega 20 prósent af fylgi sínu upp í rúm­lega 80 prósent frá stuðnings­fólki aðildar.

Á höfuð­borgar­svæðinu er stuðningur við aðild mjög af­gerandi. Á lands­byggðinni er hlut­fallið lægra en eigi að síður eru fleiri með en á móti. Þar gætir senni­lega á­hrifa frá vaxandi ferða­þjónustu.

Dreifing

Þrátt fyrir form­lega and­stöðu VG gegn aðild eru fleiri kjós­endur þess með henni en á móti. Fram­sókn var stuðnings­flokkur aðildar fyrir 13 árum en er nú á móti. Samt er rúm­lega þriðjungur kjós­enda hennar hlynntur aðild.

Þegar horft er til þess að stuðningur við aðild er meiri á höfuð­borgar­svæðinu en á lands­byggðinni er ljóst að þar er af­gerandi meiri­hluti kjós­enda VG fylgjandi aðild. Eins er lík­legt að hátt í 40 prósent stuðnings­fólks Fram­sóknar á því svæði séu með aðild og nokkru hærra hlut­fall þeirra, sem taka af­stöðu.

Ætla má að æ erfiðara verði að virða sjónar­mið svo stórs hluta kjós­enda að vettugi.

Hátt eða lágt?

Rúm­lega fimmtungur kjós­enda Sjálf­stæðis­flokksins styður aðild. Menn geta velt því fyrir sér hvort það er hátt hlut­fall eða lágt.

Hafa má í huga að út á svipað heildar­fylgi í al­þingis­kosningum hefur flokkurinn haft helmings á­hrif í ríkis­stjórn í ára­tug.

Í því ljósi er erfitt að segja að þetta hlut­fall sé svo lágt að dæma eigi það fólk með öllu til á­hrifa­leysis um þetta mál.

Far­vegur

Full aðild snýst um ein­hverja mestu hags­muni Ís­lands bæði í augum þeirra sem eru með og á móti. Lýð­ræðis­lega klípan er sú að stærri hluti þjóðarinnar er nú með en meiri­hluti þing­manna á móti. Hvort tveggja þarf að virða.

Þetta gerist vita­skuld með fjöl­mörg mál. En klípan er al­var­leg fyrir þá sök að svo miklir hags­munir eru í húfi. Spurningin er stærri en svo að unnt sé að láta henni ó­svarað.

Lýð­ræðið býr yfir far­vegi til að leysa stjórn­skipu­legar þver­stæður af þessu tagi. Það er þjóðar­at­kvæði.

Það er ekki galla­laus leið. Hitt er hættu­legra lýð­ræðinu ef hún er úti­lokuð eða reynt verður á­fram að kæfa um­ræðuna með full­yrðingum um að enginn vilja stíga loka­skrefið til fullrar aðildar að Evrópu­sam­bandinu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. júlí 2022