Geltandi kjánar

Valdasjúkur karl efnir til stríðs í austurhluta Evrópu. Í Bandaríkjunum þrengir fámenn valdaklíka að frelsi kvenna á svívirðilegan hátt. Á Íslandi er það helst að frétta að illa upplýstir kjánar gera sér leik að því að gelta á hinsegin fólk af því að kjánarnir halda að það sé töff. Sá misskilningur væri auðvitað drepfyndinn ef málið væri ekki grafalvarlegt. Það er nefnilega rangt að aðeins valdasjúkt fólk geri heiminum ógagn. Kjánar geta gert það líka. Þetta vita allir. Nema kannski kjánarnir.

Hugmyndin að gelta að hinsegin fólki á rætur að rekja til sömu hugmyndafræði og liggur að baki innrás Rússa í Úkraínu og þess að þrengja svo um munar að yfirráðarétti kvenna yfir eigin líkama. Þessi hugmyndafræði snýst um völd af þeim toga sem hættulegt fólk sækist eftir og kjánar aðstoða það við. Völd sem fást með því að halda öðru fólki í ótta. Völd sem felast í því að hefta frelsi annars fólks. Þetta er draumsýn þeirra sem ráða ekki við að verða stór nema með því að troða á öðrum.

Það er sorglegra en orð fá lýst að fylgjast með því hvernig hópar íslenskra kjána taka að sér verkið hér á landi. Gera aðsúg að samborgurum sínum sem hafa það til saka unnið – í augum kjánanna – að þora að vera það sem þau eru. Að lifa frjáls. Að vera ekki hrædd. Kjánarnir skilja ekki að aðeins með því að við, íbúar þessa lands, lifum lífinu frjáls og óhrædd, er samfélagið okkar frjálst. Kjánarnir halda að þeir séu töff, en átta sig ekki á því að það er verið að nota þá af þeim sem óttast frjálst samfélag. Óttast að fólk lifi hér óhrætt, hvert með sínum hætti.

Góðu fréttirnar eru auðvitað að þessir geltandi kjánar eru ekki margir. Það hættulega er hve margir átta sig ekki á því hvaða óskunda þeir geta gert. Fólki sem þekkir ekki til gæti jafnvel þótt þetta smá fyndið, alla vega saklaust þó það sé smekklaust. Það er alls ekki þannig. Það er langt frá því að vera saklaust að afmennska fólk á þennan hátt. Sérstaklega þegar um er að ræða börn og ungmenni. Geltið á sér kannski ekki djúpa merkingu í huga þess sem geltir, kannski bara létt grín á djamminu. Gleymt á morgun. En það er ekki gleymt í huga þeirra sem verða fyrir þessari andstyggð, skilur eftir ör á sálinni og getur í verstu tilfellum verið dauðans alvara. Er kjánaskapurinn þess virði?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu  12. júlí 2022