Gjaldtaka af auðlind

Ég man eft­ir viðtali við kvik­mynda­leik­ara sem sagðist aldrei hætta að undra sig á að eft­ir því sem hún yrði rík­ari, því minna þyrfti hún að borga. Það væru alltaf ein­hverj­ir aðrir til­bún­ir til að taka upp veskið. Ég veit ekki al­veg af hvaða rót­um svona auðmanna­dek­ur er sprottið. Kannski er það aðdáun, kannski minni­mátt­ar­kennd. Kannski eitt­hvað annað? Ég hef held­ur ekki fengið skyn­sam­lega skýr­ingu á því af hverju aft­ur og aft­ur koma upp mál þar sem ís­lensk stjórn­völd heykj­ast á því að krefja auðmenn um eðli­legt gjald fyr­ir veitta þjón­ustu, að ég tali nú ekki um nýt­ingu á þjóðarauðlind­um.

Und­an­farna daga hafa fjöl­miðlar flutt frétt­ir af því að fimm daga stæði fyr­ir litla einkaþotu á Reykja­vík­ur­flug­velli kosti minna en stæði fyr­ir bíl í bíla­kjall­ara í miðbæn­um. Og hvernig það er allt að átta sinn­um ódýr­ara að leggja einkaþotu þar held­ur en á sam­bæri­leg­um flug­völl­um á öðrum Norður­lönd­um.

Ef stærri vél, 42 tonna einkaþotu, er lagt á Reykja­vík­ur­flug­velli í sól­ar­hring kost­ar það um það bil 65 þúsund krón­ur. Þá eru fyrstu sex klukku­tím­arn­ir ekki tald­ir með. Að sögn Isa­via eru þeir gjald­laus­ir til að flug­vél­ar sem sinna sjúkra­flutn­ingi séu ekki rukkaðar um stæðis­gjöld. Ekki fylg­ir sög­unni af hverju er ekki hægt að veita slík­um vél­um und­anþágu, þó rukkað sé frá þeirri stundu sem einkaþot­urn­ar lenda. Ekki sex tím­um síðar. Sama gjald á Kefla­vík­ur­flug­velli er um 70 þúsund krón­ur. Á Arlanda-alþjóðaflug­vell­in­um í grennd við Stokk­hólm kost­ar sól­ar­hrings­dvöl fyr­ir 42 tonna vél um 215 þúsund krón­ur. Á Bromma-flug­vell­in­um, sem er inn­an­lands­flug­völl­ur í útjaðri Stokk­hólms, kost­ar dvöl­in hins veg­ar meira en 400 þúsund krón­ur á sól­ar­hring.

Sam­kvæmt frétt­um er reiknað með að um 900 einkaþotur lendi á Reykja­vík­ur­flug­velli í ár. Þessu fylgja vel þegin viðskipti fyr­ir ferðaþjón­ust­una. Ég ætla að láta umræðu um um­hverf­isáhrif og áhættu bíða ann­ars tíma. Það seg­ir sig hins veg­ar sjálft að flest­ir farþeg­arn­ir eru vel efnaðir og myndu ekki láta hærri stæðis­gjöld koma í veg fyr­ir Íslands­ferðina. Hver eru þá rök­in fyr­ir því að eig­end­um einkaþotna eru boðin stæði á inn­an­lands­flug­vell­in­um í miðri Reykja­vík, á dýr­asta og eft­ir­sótt­asta bletti lands­ins, á út­sölu­verði? Af hverju verða markaðssjón­ar­miðin út und­an í stefnu stjórn­valda, þegar auðmenn eiga í hlut? Þetta lít­ur út fyr­ir að vera skóla­bók­ar­dæmi um van­hæfni þegar litið er til al­manna­hags­muna en má kannski kalla garg­andi snilld þegar sér­hags­mun­irn­ir eru und­ir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. júlí 2022