Nýjan spretthóp, forsætisráðherra

Rík­is­stjórn sósí­al­demó­krata í Dan­mörku náði fyr­ir skömmu víðtæku sam­komu­lagi á þjóðþing­inu um fram­gang aðgerða í lofts­lags­mál­um. Sá stuðnings­flokk­ur stjórn­ar­inn­ar sem er lengst til vinstri er þó ekki með.

Ann­ars veg­ar er um að ræða gjald á los­un til þess að skapa græna hvata í at­vinnu­líf­inu. Hins veg­ar er um að ræða ákvörðun um að fjór­falda orku­öfl­un með vindorku á landi og fimm­falda vindorku úti á sjó á næstu átta árum. Þetta sam­komu­lag á einnig að flýta fyr­ir því að Dan­ir losni und­an gas­kaup­um frá Rúss­um.

Erum á eft­ir öðrum þjóðum

Danska stjórn­in hef­ur setið í tæp þrjú ár. Þetta er í annað skipti sem hún ger­ir sam­komu­lag við stjórn­ar­and­stöðuna um aðgerðir í lofts­lags­mál­um. Enda get­ur þver­póli­tísk samstaða verið dýr­mæt. Skila­boðin til at­vinnu­lífs­ins eru skýr. Það veit hvað það get­ur gengið að mik­illi orku til orku­skipta og inn­an hvaða tíma­marka.

Aðstæður eru með öðrum hætti hér heima. Rík­is­stjórn und­ir for­ystu VG hef­ur setið í tæp fimm ár. Nú í vor viður­kenndi um­hverf­is­ráðherra að Ísland stæði að baki þeim þjóðum í lofts­lags­mál­um sem við vilj­um helst taka mið af.

Eins og kunn­ugt er var spurn­ing­um um orku­öfl­un til orku­skipta ekki svarað með af­greiðslu ramm­a­áætl­un­ar um miðjan júní.

Sam­fé­lags­sátt um auðlinda­gjald

For­sæt­is­ráðherra sagði svo í þjóðhátíðarræðu sinni að lengra yrði ekki haldið með öfl­un vindorku til orku­skipta fyrr en samstaða hefði náðst um að sam­fé­lagið fengi rétt­mæt­an hlut af auðlinda­arðinum.

Okk­ur brá nokkuð þegar við heyrðum þenn­an boðskap þar sem við viss­um ekki annað en að góð sam­fé­lags­sátt væri um auðlinda­gjald af þessu tagi rétt eins og í sjáv­ar­út­vegi.

Auðlinda­gjald í sjáv­ar­út­vegi hef­ur nefni­lega hvorki strandað á sam­fé­lag­inu né á vilja meiri­hluta þing­manna. Svo það sé skýrt. For­sæt­is­ráðherra veit best á hvaða skeri það mál hef­ur strandað.

Ein­mitt í því ljósi var ánægju­legt að heyra svar um­hverf­is­ráðherra þegar Þor­björg Gunn­laugs­dótt­ir, þingmaður Viðreisn­ar, spurði í umræðuþætti þann 19. júní um af­stöðu hans til auðlinda­gjalds. Ráðherr­ann lýsti án hiks yfir ein­dregn­um stuðningi og sagðist vilja, rétt eins og Viðreisn hef­ur ít­rekað lagt til, að byggðarlög­in fengju að njóta auðlinda­gjalds­ins.

Þörf á skjót­um viðbrögðum

Rétt er í þessu sam­bandi að minna á að í grænu skýrslu um­hverf­is­ráðherra frá í mars er góð grein gerð fyr­ir for­send­um gjald­töku af vindorku. Sú und­ir­bún­ings­vinna ligg­ur því fyr­ir.

Í ljósi þeirr­ar al­var­legu stöðu sem um­hverf­is­ráðherra hef­ur lýst, að Ísland drag­ist nú aft­ur úr öðrum þjóðum í lofts­lags­mál­um, má það ekki ger­ast að mis­skiln­ing­ur um skort á sam­stöðu um auðlinda­gjald af vindorku leiði til meiri tafa en þegar hafa orðið á nauðsyn­leg­um fram­kvæmd­um.

At­vinnu­lífið hér eins og ann­ars staðar þarf skýr skila­boð. Þar bíða marg­ir eft­ir skýrri línu til að geta haf­ist handa um að ná mark­miðum um orku­skipti og græna iðnbylt­ingu.

Eft­ir umræður í þing­flokki Viðreisn­ar höf­um við skrifað for­sæt­is­ráðherra bréf til þess að bregðast við þess­um aðstæðum.

Þar leggj­um við til að for­sæt­is­ráðherra skipi þegar í stað sprett­hóp til þess að semja frum­varp til laga um auðlinda­gjald vegna virkj­un­ar vindorku. Sprett­hóp­ur­inn með al­manna­hag að leiðarljósi fái tvo mánuði til að skila til­lög­um svo Alþingi geti þannig af­greitt þær á haustþingi í sept­em­ber.

Spurn­ing um vilja

Nefnd um­hverf­is­ráðherra skilaði á aðeins tveim­ur mánuðum fyrr á ár­inu viðamik­illi skýrslu um nauðsyn­lega orku­öfl­un með til­liti til mark­miða í lofts­lags­mál­um. Þar er meðal ann­ars skil­greint á hvaða grund­velli megi leggja slíkt gjald á.

Græna skýrsl­an var mun viðameira verk en felst í út­færslu á frum­varpi af þessu tagi. Fyrst unnt var að vinna hana á tveim­ur mánuðum er vel ger­legt að semja frum­varp um auðlinda­gjald á jafn löng­um tíma. Þetta er fyrst og fremst spurn­ing um vilja. Ekki tafa­leiki.

Viðreisn er reiðubú­in að leggja lið við und­ir­bún­ing máls­ins og stuðla að ör­uggri af­greiðslu þess á Alþingi. Aðal­atriðið er að þetta atriði má ekki tefja fram­gang nauðsyn­legr­ar orku­öfl­un­ar með vindorku þannig að við get­um náð mark­miðum um orku­skipti fyr­ir árið 2040.

Skila­boðin til for­sæt­is­ráðherra eru skýr. Hafi ein­hvern tím­ann verið bæði til­efni og tæki­færi til að skipa sprett­hóp er það núna um þetta mál.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2022