Á­nægjan aldrei ó­keypis hjá ríkis­sjóði

Þorsteinn Pálsson

Fram eftir síðustu öld stóðu verka­lýðs­fé­lög í bar­áttu um brauðið. Nú snúast kjara­samningar um að skipta þjóðar­kökunni, eins og hag­fræðingar kalla það.

Rúm­lega 60 prósent kökunnar koma í hlut launa­fólks og tæp 40 prósent í hlut fjár­magns­eig­enda. Sneið launa­fólks er nú aftur ná­lægt lang­tíma­meðal­tali að stærð, eftir að hafa minnkað veru­lega í kjöl­far krónu­hrunsins.

Hlut­verkið

Í vaxandi mæli hafa fé­lög launa­fólks og fyrir­tækja sett fram kröfur á ríkis­sjóð, ýmist um að stækka eða minnka þá sneið, sem hann tekur til sín frá launa­fólki og fjár­magns­eig­endum.

Ríkis­stjórnin lék aðal­hlut­verkið við lausn kjara­samninga á al­mennum vinnu­markaði 2019. Tákn­mynd þess blasti við þegar hún kynnti niður­stöður þeirra í ráð­herra­bú­staðnum.

Stærsta efni þeirra kjara­samninga var mikil og al­menn skatta­lækkun. Allir voru á­nægðir með hana. Hin hliðin á þeirri á­nægju kemur svo fram í vaxandi ó­á­nægju með stöðu Land­spítalans. Á­nægjan er aldrei ó­keypis hjá ríkis­sjóði.

Þetta leiðir hugann að hlut­verki ríkis­stjórnar við gerð kjara­samninga á al­mennum vinnu­markaði. Sú spurning snertir um leið á­lita­efni um lýð­ræði.

Helminga­skiptin

Síðustu kjara­samningar fóru gegn því prinsippi Sjálf­stæðis­flokksins að láta á­byrgðina hvíla á aðilum vinnu­markaðarins. En prinsipps­brotið þjónaði aftur á móti höfuð­stefnu­máli flokksins um lækkun skatta.

Nú er þessu öfugt farið. Megin­kröfur verka­lýðs­fé­laganna kalla á aukin út­gjöld ríkis­sjóðs. SA segir svo að stilla eigi ríkis­stjórninni upp við vegg á enda­sprettinum. Þetta þjónar vel höfuð­stefnu­máli VG um aukna sam­neyslu.

Sjálf­stæðis­flokkurinn verður að sætta sig við þetta leik­skipu­lag aftur af því að hans mál fengu fram­gang síðast.

Brota­löm

Fram­sókn er eini flokkurinn í stjórninni, sem talar fyrir því að hún móti sjálf­stæða efna­hags- og kjara­stefnu. Það hefur komið fram í til­lögum hennar um aukna tekju­öflun til að standa undir þátt­töku ríkis­sjóðs í bar­áttunni við verð­bólguna.

Á þetta sjónar­mið hefur ekki verið hlustað. Jaðar­flokkarnir hafa ekki á­huga. Á­stæðan er senni­lega sú að hvorki verka­lýðs­fé­lögin né SA telja að það þjóni augna­bliks hags­munum sínum.

Að­dragandi kjara­samninga endur­speglar nú í annað skipti að í ríkis­stjórnar­sam­starfi jaðar­flokkanna hefur ekki tekist að móta sjálf­stæða stefnu um efna­hags­leg og fé­lags­leg mark­mið.

Það var ekki út í bláinn þegar Seðla­banka­stjóri sagði að hags­muna­öflin stjórnuðu landinu, þó að hann hafi þar farið út fyrir verk­svið sitt.

Þetta er helsta brota­lömin í stöðunni.

Milli­stétt án máls­vara

Að frá­töldum kröfum um aukin ríkis­út­gjöld birtast þrjár myndir varðandi endur­nýjun kjara­samninga:

Í fyrsta lagi: For­ystu­fólk verka­lýðs­fé­laga á al­mennum vinnu­markaði talar bara um nauð­syn þess að hækka laun þeirra allra tekju­lægstu hlut­falls­lega meira en sem nemur vexti þjóðar­kökunnar.

Í öðru lagi: Tals­menn SA verjast því að launa­hækkanir stjórn­enda margra fyrir­tækja, langt um­fram stækkun kökunnar, eigi að hafa for­dæmis­gildi.

Í þriðja lagi: Enginn talar fyrir milli­stéttina á al­mennum vinnu­markaði. Hún lýtur bara því lög­máli að skipta ekki stærri köku en er til. Það sem fer um­fram er froða, sem við köllum verð­bólgu. Þó að hún mæli launa­hækkun rýrir hún raun­veru­leg kjör.

Raun­sæi BHM

Á síðustu mánuðum hefur for­maður BHM einn rætt hispurs­laust um endur­nýjun kjara­samninga á grund­velli hags­muna milli­stéttarinnar.

Að vísu verður ekki sagt að hann fari fram með lág­stemmdar kröfur. En rök­semdirnar taka greini­lega mið af veru­leikanum, sem glöggt kemur fram í grein sem hann skrifar í síðasta tölu­blað Vís­bendingar.

Þar er dregið fram með skýrum hætti að myndin af þjóðar­kökunni er ekki ein­föld. Sumar greinar standa betur en aðrar og það eru skekkjur í þjóðar­bú­skapnum, sem þarf að leið­rétta.

Hann er ekki að fara fram á að semja um efna­hags­stefnuna, heldur að ríkið hafi stefnu, sem mæti grund­vallar­sjónar­miðum um „jafn­rétti og jafn­vægi.“

Málið er þetta: Ríkis­stjórnin á ekki að láta hags­muna­sam­tökin á­kveða stefnuna í efna­hags- og vel­ferðar­málum eins og síðast. Hún á að hafa sjálf­stæða stefnu. Á þeim grunni eiga aðrir að semja. Og hún þarf að vera til­búin að semja við eigin starfs­menn, ekki síðar en eldri samningar renna út.

Í hvorugt stefnir eins og sakir standa.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. ágúst 2022