Rjúfum þögnina

Þegar þing kom sam­an að aflokn­um kosn­ing­um í fyrra flutti ég ásamt öðrum þing­mönn­um Viðreisn­ar til­lögu á Alþingi um að fela ut­an­rík­is­ráðherra að meta stöðu Íslands í fjölþjóðasam­vinnu í ljósi umróts í heim­in­um og þeirra miklu breyt­inga sem orðið hafa í alþjóðamál­um.

Í kjöl­farið á inn­rás Rússa í Úkraínu lögðum við svo fram til­lögu um að fela ut­an­rík­is­ráðherra að und­ir­búa fjórþætt viðbrögð af hálfu Íslands til að styrkja varn­ir og ör­yggi lands­ins, auka borg­ara­lega þátt­töku í NATO og efla efna­hags­lega sam­vinnu.

Skemmst er frá því að segja að þögn­in var eina viðbragð rík­is­stjórn­ar­flokk­anna.

Þörf brýn­ing

Að feng­inni þess­ari reynslu fannst mér ánægju­legt að lesa brýn­ingu Björns Bjarna­son­ar fyrr­ver­andi ráðherra á heimasíðu hans 6. ág­úst. Þar sagði hann: „Þögn­in um ut­an­rík­is- og varn­ar­mál er meiri hér en í nokkru ná­granna­landi.“

Til­efni þess­ara um­mæla er ný grund­vall­ar­stefna NATO og nýtt frum­varp sem lagt var fram í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings í byrj­un þessa mánaðar um víðtæka sókn á norður­slóðum á sviði þjóðarör­ygg­is, sigl­inga, rann­sókna og viðskipta. Þar er meðal ann­ars gert ráð fyr­ir að komið verði til móts við ósk­ir Íslands um víðtæk­an fríversl­un­ar­samn­ing.“

Í grein sinni gagn­rýn­ir Björn Bjarna­son að þeir ráðherr­ar og emb­ætt­is­menn sem sátu leiðtoga­fund NATO í júní hafi ekki skýrt frá áhrif­um hinn­ar nýju grund­vall­ar­stefnu banda­lags­ins á stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar eða þjóðarör­ygg­is­stefn­una. Síðan seg­ir hann:

„Nú þegar stjórn­mála­menn hefja fundi að nýju, rík­is­stjórn­in hélt fyrsta fund sinn eft­ir sum­ar­leyfi í gær (5. ág­úst), hljóta þeir að taka stöðu Íslands í um­heim­in­um til umræðu. Ekki veit­ir af að gera þjóðinni grein fyr­ir því sem gerst hef­ur og hvert stefn­ir. Hljóta að verða sér­stak­ar umræður um þessi mál strax og þing kem­ur sam­an síðsum­ars, hjá því verður ekki kom­ist.“

Þögn­in er póli­tík

Ég hygg að við Björn Bjarna­son séum á einu máli um flest sem snýr að ut­an­rík­is- og varn­ar­mál­um nema spurn­ing­una um að stíga loka­skrefið frá aðild að innri markaði Evr­ópu­sam­bands­ins til fullr­ar aðild­ar.

Al­veg sér­stak­lega erum við sam­mála um mik­il­vægi umræðunn­ar á þess­um ör­laga­tím­um.

Í þessu sam­bandi er nauðsyn­legt að átta sig á hvers vegna þessi stóru hags­muna­mál þjóðar­inn­ar eru sveipuð þögn. Ástæðan er hvorki skiln­ings­leysi né kæru­leysi. Ræt­ur þagn­ar­inn­ar liggja í hug­mynda­fræðileg­um grund­velli meiri­hluta­sam­starfs­ins á Alþingi. Þögn­in er póli­tík.

And­stæðing­ar NATO setja mörk­in

Þó að for­sæt­is­ráðherra hafi lítið sagt um nýja grund­vall­ar­stefnu NATO hef­ur ráðherr­ann eigi að síður staðhæft að stefn­an taki fyrst og fremst til aust­ur­hluta banda­lags­ins en ekki til Íslands og Norður­slóða.

Ég er sann­færð um að ut­an­rík­is­ráðherra sér þetta frá víðara sjón­ar­horni.

Vand­inn er að stjórn­ar­sam­starfið bygg­ist á því að eini flokk­ur­inn á Alþingi sem er and­víg­ur aðild að NATO set­ur mörk­in og ræður í raun viðbrögðum við breytt­um aðstæðum og hversu langt Ísland geng­ur. Þegar svona hátt­ar til er þögn­in létt leið og ljúf.

Þetta er hins veg­ar ekki skamm­tímapóli­tískt ástand. Meiri­hlut­inn á Alþingi tel­ur að lang­tíma­hags­mun­ir Íslands í ut­an­rík­is- og varn­ar­mál­um séu best tryggðir með sam­starfi sem bygg­ist á þess­um grunni.

Það þarf að byrja á að rjúfa þögn­ina um þenn­an veik­leika rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Sam­vinna um efna­hag og varn­ir

Við í Viðreisn höf­um litið svo á að efna­hags- og viðskipta­sam­vinna sé jafn mik­il­væg og varn­ar- og ör­ygg­is­sam­vinn­an. Þess vegna höf­um við talað fyr­ir því að stíga loka­skrefið frá aðild að innri markaði Evr­ópu­sam­bands­ins til fullr­ar aðild­ar.

Að sama skapi höf­um við heils­hug­ar stutt að Ísland leitaði eft­ir nán­ara viðskipta­sam­starfi við Banda­rík­in.

Við þurf­um að dýpka varn­ar- og ör­ygg­is­sam­vinnu við banda­lagsþjóðir okk­ar bæði í Am­er­íku og Evr­ópu. Það sama gild­ir um efna­hags- og viðskipta­sam­starfið beggja vegna Atlants­hafs­ins.

Það er því ekki beint rök­rétt að segja að frek­ara efna­hags­sam­starf við banda­lagsþjóðir í Am­er­íku sé af hinu góða en af hinu illa við banda­lagsþjóðir í Evr­ópu.

Kynna þarf samn­ings­mark­mið

Mik­il­vægt er að rík­is­stjórn­in kynni fljót­lega samn­ings­mark­mið varðandi fríversl­un­ar­samn­ing við Banda­rík­in.

Þeir víðtæku fríversl­un­ar­samn­ing­ar sem Banda­rík­in gera fela jafn­an í sér hindr­un­ar­lausa versl­un með land­búnaðar­af­urðir. Það er fagnaðarefni ef stjórn­ar­flokk­arn­ir eru í al­vöru til­bún­ir í slík­ar viðræður.

Þetta er mik­il­væg stefnu­breyt­ing. Eft­ir hana eru ekki leng­ur gild rök gegn opn­un heima­markaðar með land­búnaðar­vör­ur frá Evr­ópu.

En hér er að ýmsu að hyggja. Við sjá­um að Bret­ar eru í klípu með þessi mál. Bresk­ir bænd­ur og neyt­end­ur eru til að mynda á varðbergi gagn­vart banda­rísk­um regl­um um heil­brigðis­kröf­ur og neyt­enda­vernd.

Þetta sýn­ir aðeins að samn­ings­mark­miðin þurfa að vera skýr frá upp­hafi. Og þau þarf að ræða.

Aðskild­ar viðræður

Veru­leik­inn er sá að varn­ar­sam­vinna við banda­lagsþjóðir okk­ar í NATO nær ekki full­um til­gangi nema viðskipta- og efna­hags­sam­vinn­an sé víðtæk og sterk.

Það breyt­ir ekki hinu að við þurf­um að halda samn­ing­um um varn­ir ann­ars veg­ar og viðskipti hins veg­ar aðskild­um. Varn­arþörf verður ekki met­in út frá viðskipt­um. Í sam­töl­um við Banda­rík­in þarf það að vera skýrt.

Í Evr­ópu ger­ir stofn­ana­skipu­lagið sjálf­krafa ráð fyr­ir þess­um aðskilnaði. Hann get­ur hins veg­ar reynst flókn­ari gagn­vart Banda­ríkj­un­um. Við þurf­um bara að gæta að þess­um þætti.

Viðreisn er vel nestuð

Ísland á meira und­ir fjölþjóðasam­vinnu í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um og á sviði efna­hags- og viðskipta­mála en grann­rík­in. Samt ræðum við þessi mál minna; nán­ast ekk­ert eins og sak­ir standa.

Viðreisn hef­ur einn flokka á Alþingi lagt fram ít­ar­leg­ar til­lög­ur um und­ir­bún­ing að nýrri stefnu­mörk­un á þess­um sviðum. Þeim fylg­ir vandaður rök­stuðning­ur í grein­ar­gerðum. Við kom­um því vel nestuð til þeirr­ar umræðu sem Björn Bjarna­son kall­ar nú rétti­lega eft­ir.

Rjúf­um þögn­ina.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. ágúst 2022