Það sem tala þarf um

Þorsteinn Pálsson

ASÍ boðar hörð átök á vinnu­markaði.

Eitt aðildar­sam­band hefur opin­ber­lega lagt fram kröfur. Ekki er vitað hverjar þær eru. Við­brögð SA eru ó­kunn. Allt er á huldu um kröfur annarra.

Það eina sem al­menningur fær að heyra eru til­kynningar um átök þegar að­eins ellefu vikur eru þar til gildandi samningar renna út og engar efnis­legar við­ræður hafa átt sér stað svo vitað sé.

Pukur

Þetta pukur með kjarna málsins gerir það að verkum að boðun á­taka hljómar eins og þau séu sjálf­stætt mark­mið.

Fjöl­miðla­við­tölum um átök fylgir jafnan á­eggjan um að­komu ríkisins. For­sætis­ráð­herra svarar henni með því að vísa til fjölda funda í þjóð­hags­ráði.

Vandinn er að al­menningur veit lítið sem ekkert hvert verka­lýðs­fé­lögin eru að fara og alls ekkert um stefnu ríkis­stjórnarinnar.

Enginn af tals­mönnum stærstu fé­laga og sam­banda í ASÍ talar um að ljúka eigi nýjum samningum um leið og þeir eldri renna út.

Önnur nálgun

Kjara­samningar opin­berra starfs­manna opnast fimm mánuðum seinna. For­maður BHM virðist nálgast við­fangs­efnið með nýjum hætti. Í grein í Við­skipta­blaðinu í síðustu viku segir hann:

„Nú­verandi á­stand kallar að mínu mati á aðra nálgun. Í tveggja stafa verð­bólgu­um­hverfi er ekki á­sættan­legt að horfa fram á hefð­bundinn drátt í gerð kjara­samninga – að það geti liðið allt frá hálfu til eins árs frá því að kjara­samningar renna út þar til nýir liggja fyrir.“

Þetta er metnaðar­fullt mark­mið fyrir um­bjóð­endur hans. Fari svo að átök og kjara­samningar á al­mennum markaði dragist á langinn þarf ríkis­stjórnin annað hvort að hafna þessu sjónar­miði eða sýna á spilin og segja kjós­endum hver efna­hags- og kjara­stefna hennar er.

Brota­löm

Þar komum við að þeirri kenni­setningu að ríkið leiði ekki kjara­samninga af því að grund­völlur þeirra er sam­keppnis­hæfni at­vinnu­lífsins.

Í síðustu al­mennu kjara­samningum lék ríkis­stjórnin hins vegar slíkt lykil­hlut­verk að þeir voru kynntir í ráð­herra­bú­staðnum. Orð­ræðan bendir svo til að hlutir séu að falla í þann sama far­veg aftur.

Svo er hitt að burt­séð frá mál­flutningi ASÍ þarf að hafa í huga að ráðandi fyrir­tæki í SA standa utan krónu­hag­kerfisins. Hags­munir þeirra liggja því ekki nema að tak­mörkuðu leyti í sam­keppnis­stöðu þess. Þetta er brota­löm í kerfinu.

Það getur ein­fald­lega farið eftir að­stæðum hvort rétt er að byrja samninga á al­menna markaðnum eða þeim opin­bera. Það eru efnis­tökin, sem skipta öllu máli.

Stefna í stað fram­sals

Kjarni málsins er sá að ríkis­stjórnin þarf að hafa skýra efna­hags- og kjara­stefnu í stað þess að fram­selja það hlut­verk til þjóð­hags­ráðs.

Hún þarf að segja um­búða­laust hversu mikil eða lítil launa­hækkun sam­ræmist efna­hags­legum mark­miðum lýð­ræðis­lega kjörinna stjórn­valda.

Til þess að tryggja al­vöru fram­lag ríkis­sjóðs í bar­áttunni við verð­bólguna þarf hún einnig að fallast á tekju­öflunar­hug­myndir Fram­sóknar í þeim til­gangi að lækka skuldir en ekki til að auka út­gjöld, nema vegna þeirra verst settu.

Að auki þarf hún að tala af meira raun­sæi en seðla­banka­stjóri.

Boð­skapur seðla­banka­stjóra er að efna­hags­lífið og ríkis­sjóður standi betur en gerist hjá grann­þjóðunum. Hann telur þó nauð­syn­legt að setja hemil á laun al­mennings en gagn­rýnir ekki launa­hækkanir til stjórn­enda margra fyrir­tækja, sem á­kveðnar eru á allt öðrum for­sendum.

Mis­vísandi skila­boð af þessu tagi skapa ekki al­mennan skilning á nauð­syn hóf­semi við gerð kjara­samninga.

Veru­leikinn

Veru­leikinn er aftur á móti þessi:

  • Það er kominn halli á við­skipti við út­lönd.
  • Fyrir stríðið var þegar spáð helmingi minni hag­vexti út kjör­tíma­bilið en í ár.
  • Ís­land þarf að hækka vexti marg­falt meir en grann­ríkin til að hemja sömu verð­bólgu.
  • Í fjár­mála­á­ætluninni segir að Ís­land þurfi mun meira að­hald í opin­berum rekstri en önnur lönd vegna krónunnar.
  • Skuldir skatt­borgaranna í ríkis­sjóði hækka um 100 milljarða króna á hálfu ári vegna verð­tryggingar en ekki í grann­löndunum.
  • Sam­keppnis­staða Ís­lands í al­þjóða­við­skiptum og er­lendri fjár­festingu hefur fallið skarpt og er nú á botni í nýrri ó­háðri saman­burðar­könnun.

Þetta þarf að tala um.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. ágúst 2022