Upp úr skotgröfunum

Umræðan um heil­brigðis­kerfið okk­ar er enn og aft­ur kom­in ofan í skot­graf­irn­ar. Er kerfið vel fjár­magnað eða reka stjórn­völd svelti­stefnu þegar kem­ur að heil­brigðismál­um? Er kerfið und­ir­mannað eða of­mannað? Rangt mannað? Er Land­spít­al­inn vel rek­inn eða er rekst­ur­inn þar botn­laus hít sem gleyp­ir allt fjár­magn án þess að staðan lag­ist af nokkru viti?

Sam­an­b­urður við þau lönd sem við vilj­um helst bera okk­ur sam­an við er ekki alltaf ein­fald­ur. Við verj­um lægra hlut­falli af lands­fram­leiðslu til heil­brigðismála en við erum yngri þjóð sem þar af leiðandi þarf ekki jafn dýrt heil­brigðis­kerfi. Svo fel­ast tölu­verðar áskor­an­ir í fá­menn­inu og dreif­býl­inu, bæði hvað varðar rekstr­ar­kostnað og mönn­un. Af­leiðing­in er skort­ur á mik­il­vægri og oft og tíðum nauðsyn­legri heil­brigðisþjón­ustu. Tug­ir þúsunda eiga ekki fast­an heim­il­is­lækni og bið eft­ir tíma get­ur hlaupið á vik­um, jafn­vel mánuðum. Biðlist­ar eft­ir til­tekn­um aðgerðum eru lengri en nokkru sinni. Sama á við um þjón­ustu Ráðgjaf­ar- og grein­ing­ar­stöðvar­inn­ar þar sem börn geta þurft að bíða hátt í tvö ár.

List­inn yfir brýn­ar áskor­an­ir í heil­brigðis­kerf­inu er mun lengri en hér nefni ég bara til viðbót­ar þá þjóðarskömm að sjúk­ling­ar liggja á göng­um á bráðamót­töku Land­spít­al­ans dög­um sam­an vegna rúma­skorts á spít­al­an­um. Ímyndið ykk­ur að liggja inni á sjúkra­húsi og fá þær frétt­ir að fram und­an sé erfið og tví­sýn bar­átta við krabba­mein. Bætið svo við þá mynd að þið liggið ekki inni í sjúkra­stofu held­ur frammi á gangi þar sem er stans­laus er­ill og fólk á þönum fram og til baka. Þið eruð fyr­ir, jafn­vel svo mikið að stund­um þarf að færa rúmið ykk­ar til að aðrir kom­ist fram hjá. Ímyndið ykk­ur!

Prófið líka að setja ykk­ur í spor mann­eskju sem er lögð inn á sjúkra­hús vegna slæmra höfuðverkja. Rann­sókn­ir standa yfir og vondu frétt­irn­ar lúra þarna ein­hvers staðar í bak­grunni. Ímyndið ykk­ur að liggja ekki í sjúkra­rúmi inni á sjúkra­stofu, held­ur á bekk frammi á gangi. Ekki í nokkra klukku­tíma held­ur í ein­hverja sól­ar­hringa. Hvernig er þetta hægt? Þessi staða er óboðleg fyr­ir bæði starfs­fólk og sjúk­linga.

Efna­hags­mál­in verða fyr­ir­ferðar­mik­il á næst­unni; vax­andi verðbólga, vaxta­hækk­an­ir og kjara­mál. Verk­efni stjórn­valda verða ærin. En áskor­an­irn­ar í heil­brigðis­kerf­inu hverfa ekki á meðan. Við skuld­um sjúk­ling­um og heil­brigðis­starfs­fólki að taka af krafti á bráðavand­an­um á meðan fundið er út úr því hvar megi laga til í rekstri og hvar þurfi að bæta í fjár­magni til lengri tíma litið. Það er okk­ur ekki sæm­andi að ræða þau mál áfram í skot­gröf­um. Það er okk­ur ekki held­ur sæm­andi að láta þessa stöðu viðgang­ast leng­ur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst 2022