Spurn­ing­in sem eng­inn spyr

Þorsteinn Pálsson

Síðustu mánuði hefur veðrið vikið fyrir vöxtunum, sem helsta umræðuefni daglegs lífs.

Forysta verkalýðsfélaganna birtir reglulega svimandi útreikninga um áhrif vaxtahækkana á heimilin. Enginn getur andmælt þeim.

Sagan endurtekur sig. Verðbólgan þrengir mest að þeim sem lakast eru settir.

Svarið

Seðlabankinn segir að þetta sé vopnið sem bíti. Það er kórrétt.

Forysta verkalýðsfélaganna vill grípa til annarra vopna. Andsvarið er þó auðvelt. Horfið bara á efnahagslegu ringulreiðina í Tyrklandi þar sem aðrar leiðir voru reyndar.

Til þess að sætta lágtekjuheimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki við vaxtahækkanir Seðlabankans svarar ríkisstjórnin því til að vextir hækki líka í útlöndum. Það er rétt.

Spurningin

Spurningin sem enginn spyr er hins vegar þessi: Hvers vegna þarf vaxtavopnið í íslenska krónuhagkerfinu að bíta tíu sinnum fastar en í danska krónuhagkerfinu þegar verðbólga er nánast sú sama í báðum hagkerfunum?

Kannski er hitt þó enn stærri spurning: Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki skýrt þennan mikla mismun út fyrir launafólki og stjórnendum lítilla og meðalstórra fyrirtækja?

Ríkisstjórnin þarf ekki að skýra þetta út fyrir þeim stóra hluta fyrirtækja, sem hefur yfirgefið krónuhagkerfið. Þau taka lán í erlendum myntum og kæra sig kollótt um þessa mismunun. Hún bitnar aðallega á starfsfólki þeirra.

Ójöfnuður

Þessi mismunun skerðir lífskjör heimila á Íslandi í ríkari mæli en í grannríkjunum. Hún veikir um leið samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum.

Samkeppnisstaða fyrirtækjanna utan krónuhagkerfisins, sem geta tekið erlend lán, raskast hins vegar minna. Þetta er eina sjáanlega skýringin á því að ríkisstjórnin kemst upp með að loka augunum fyrir þessum alvarlega ójöfnuði í þjóðarbúskapnum.

Ef þessi fyrirtæki hefðu þurft að þola sömu vaxtahækkanir og heimilin hefði forysta atvinnulífsins brýnt raustina fyrir löngu.

En eru ekki bara eðlilegar skýringar á þessum mun á vaxtahækkunum hér og í Danmörku? Jú, vitaskuld.

Spurningin er aftur á móti sú hvort þær eru þess eðlis að við sannfærumst um að þær þjóni hagsmunum íslenskra heimila í bráð og lengd.

Skýringar

Almenna skýringin er sú að það leiði einfaldlega af eðli hlutanna að vextir þurfi að vera hærri í svo litlu peningakerfi. Það er rétt.

Andsvarið er bara þetta: Fá heimilin eitthvað í staðinn, sem vegur ójöfnuðinn upp? Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt fram á það.

Önnur skýring er sú að hagvöxtur sé svo mikill. Um þessar mundir er hagvöxturinn sá sami hér og í Danmörku. Í fyrra var hagvöxtur að meðaltali heldur meiri á evrusvæðinu en í ár hefur Ísland sigið fram úr því meðaltali. Þetta er alltént ekki fullnægjandi skýring á tíföldum mun.

Svo

Svo er sagt að vextir þurfi að vera hærri hér af því að þeir bíta ekki á þau fyrirtæki sem taka erlend lán. Þetta er rétt. Spurningin er: Þurfa heimilin að sætta sig við þann ójöfnuð eins og lögmál náttúrunnar?

Eins er á það bent að vextir þurfi að vera hærri hér til þess að laða erlent fjármagn inn á verðbréfamarkaðinn. Þetta er líka rétt.

En spurningin er aftur: Af hverju eiga íslensk heimili að sætta sig við að borga útlendum fjármagnseigendum vexti, sem heimilin í þeirra eigin löndum eru ekki tilbúin til að greiða?

Skýringarnar eru að einhverju eða öllu leyti skotheldar. Þær vekja bara erfiðar spurningar. Þess vegna forðast ríkisstjórnin að ræða þær.

Framtíðarsýn

Af hverju í ósköpunum jöfnum við ekki stöðu heimilanna og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með því að tengjast erlendri mynt eða ganga í alþjóðlegt myntbandalag? Það gera ekki bara flestar þjóðir af sömu stærð heldur líka þær stærri.

Árum saman hefur svarið verið: Það tekur tíma. Við viljum gera eitthvað strax. En heimilin sitja enn í sama farinu af því að skjóta varanlega heimatilbúna töfralausnin er ekki til.

Er ekki kominn tími á kerfisbreytingu, sem byggir á framtíðarsýn? Forysta launafólks og stjórnendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja mættu spyrja þannig.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. september 2022