Áfangi á viðsjárverðum tímum

að hefur alla tíð verið eitt af erindum Viðreisnar að varpa ljósi á nauðsyn þess að Ísland taki ný skref í alþjóðasamvinnu. Ekki síst með því að taka lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu.

Innrás Pútíns í Úkraínu hefur svo kallað á enn meiri árvekni í öryggis- og varnarmálum. Lýðræðisþjóðum Evrópu hefur ekki staðið meiri ógn af alræði síðan eftir seinni heimsstyrjöld. Breytt heimsmynd krefst þess að við tryggjum hagsmuni landsins betur. Pólitíska, efnahagslega, sem hagsmuni öryggis og varna. Oftar en ekki fer þetta saman.

Í ágúst tók ég eindregið undir ákall Björns Bjarnasonar, fyrrum ráðherra, um sérstaka umræðu um þessi mál um leið og þing kæmi saman. Við í Viðreisn tókum það frumkvæði eins og jafnan áður.

Segja má að svör forsætisráðherra og formanns utanríkisnefndar við fyrirspurnum mínum hafi endanlega gert formlega stefnu VG í öryggis- og varnarmálum að dauðum bókstaf. Þau marka upphaf að nýjum áfanga í víðtækari samstöðu á Alþingi um þessi efni en verið hefur.

Lifandi pólitík VG er nú þessi: Hagsmunir Íslands eru best tryggðir í samstarfi við vinaþjóðir þess. Herstöð er ekki forgangsatriði en ekki útilokuð ef NATO telur það nauðsynlegt. Tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna stendur á traustum grunni.

Þessi nýi áfangi í pólitískri samstöðu er fagnaðarefni. Reyndar hefur lengi legið fyrir að stór hluti kjósenda VG styðji þessi skref. Nýjar kannanir sýna einnig að meirihluti kjósenda VG er hlynntur aðild að Evrópusambandinu rétt eins og meirihluti þjóðarinnar.

Formaður utanríkisnefndar benti réttilega á að rödd Norðurlanda innan NATO verði nú sterkari eftir inngöngu Finna og Svía. Eins teljum við í Viðreisn að rödd Norðurlandanna yrði sterkari innan ESB ef Ísland og Noregur tækju skrefið til fullrar aðildar. Við ætlum líka að halda áfram forystu um þá umræðu. Fyrst og síðast til þess að styrkja pólitíska og efnahagslega stöðu landsins á viðsjárverðum tímum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. október 2022