Hraðari máls­með­ferð og ein­faldara reglu­verk á bygginga­markaði er lykil­at­riði

Stóra verkefni íslensks efnahagslífs og stjórnmála næstu ár verður að koma húsnæðismarkaðnum í jafnvægi. Byggingastarfsemi er stór hluti efnahagslífsins og nam um 9% vergrar landsframleiðslu fyrir Covid og um 8% vinnuafls. Í tímans rás hefur húsnæðismarkaðurinn sveiflast mikið, mun meira en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Nú er svo komið að eftirspurn eftir húsnæði er langt umfram framboð sem hefur leitt til gríðarlegra hækkana á fasteignaverði. Að búa í öruggu húsnæði og að hafa efni á öruggu húsnæði skiptir okkur öll máli. Meginhutverk stjórnvalda er að skapa ramma um þessa mikilvægu efnahags- og samfélagsstoð með einhverjum fyrirsjánleika, þar sem samkeppnishindranir eru síður til staðar og að vinna að því að stytta þann tíma sem tekur að koma verkefnum af stað. Því er ágætt að minna sig á það reglulega að hvorki ríki né sveitarfélög byggja íbúðir. Hlutverk þeirra er að klára skipulag og móta starfsumhverfi þeirra sem byggja íbúðir. Ein af þeim leiðum til að koma í veg fyrir langvarandi skort er að einfalda þetta umhverfi og stytta þann tíma sem tekur að byggja húsnæði. Það er merkilegt til þess að vita að það getur tekið um fimm ár að koma nýrri íbúðablokk á laggirnar, þar af er byggingartíminn um tvö ár. Sóknarfærin eru svo sannarlega fyrir hendi.

Í nóvember 2020 kom út skýrsla OECD um samkeppnismat á íslenskum byggingamarkaði. Við lestur hennar má sjá að mikil sóknarfæri til hagræðingar liggja í því að gera regluverkið þannig úr garði að það styðji betur við virka samkeppni. OECD greinir 447 mögulegar samkeppnishindranir þegar kemur að skipulagsmálum, byggingareglugerðum, byggingavörum og löggildingu starfsgreina. Tillögur til úrbóta eru 316 talsins.

Helstu tillögur að úrbótum í skipulagsmálum voru m.a. að

  1. endurskoða í heild ferli skipulagsákvarðana sveitarfélaga með það að markmiði að einfalda og skýra verklagið.
  2. taka til skoðunar að draga úr kröfum um fjölda bílastæða í Reykjavík vegna áhrifa á byggingakostnað, eða móta minna íþyngjandi leiðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
  3. Endurskoða ferli og reglur sem gilda um úthlutun lóða til að skýra ferlið og auka framboð lóða í samræmi við eftirspurn. Reglur um lóðaúthlutun ættu ekki að hygla þeim fyrirtækjum sem fyrir eru á markaði. Þær ættu heldur ekki að vera óþarflega hamlandi, t.d. hvað varðar skil á lóðum.

Helstu tillögur til einföldunar á mannvirkjalögum voru m.a.

  1. Að einfalda ferlið við veitingu byggingarleyfa með því að setja skýra tímafresti og skilyrði. Umsóknarferlið ætti að vera að fullu rafrænt. Skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfa ættu að byggjast á áhættumati á tegund bygginga. Að öðrum kosti ættu smærri og einfaldari verkefni að geta fengið flýtimeðferð.
  2. Tilkynningarskyldu um minni háttar framkvæmdir, sem ekki eru háðar byggingarleyfi, ætti að afnema eða einfalda verulega. Skilyrði um aðkomu tiltekinna starfsgreina að framkvæmdum ætti að miða við tegund framkvæmda.
  3. Endurskoða má ákvæði sem kveða á um skilyrði um lágmarksgæði og aðgengi fyrir alla í því skyni að auka vægi markmiðsmiðaðra ákvarðana í stað forskriftarákvæða sem takmarka hvernig tilteknum markmiðum megi ná.

Einnig eru fjölmargar tillögur er snúa að byggingarvörum og helstu niðurstöður þar eru að innleiðing reglugerða ESB um byggingavörur hafi verið gerð með víðtækari hætti en nauðsynlegt er. Lögin hér eru því meira íþyngjandi en skuldbindingar Íslands eru samkvæmt EES samningnum. Niðurgreiðslur á flutningskostnaði vegna byggingarframkvæmda eru til þess fallnar að draga úr samkeppni samkvæmt OECD.

Varðandi löggildingu starfsgreina kemur í ljós að lögverndaðar starfsgreinar hér á landi eru töluvert fleiri en í öðrum Evrópulöndum og löndum innan OECD.

Niðurstöður skýrsluhöfunda eru þær að miklir möguleikar felist í því að einfalda regluverkið þannig að það styðji betur við virka samkeppni. Þannig má skapa sveigjanlegra umhverfi, fleiri störf og auka framleiðni og vöxt í hagkerfinu.

Mín niðurstaða eftir lestur þessarar skýrslu er sú að mikilvægt skref til að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn sé að einfalda þetta umhverfi og stytta þann tíma sem það tekur að koma verkefnum á koppinn. Það þarf ekki alltaf að dæla peningum í hítina, betra er að skoða hvort ekki sé hagkvæmara að einfalda og laga þau kerfi og það umhverfi sem við vinnum í. Aðilar á markaði geta ekki brugðist hratt við breytingum í þunglamalegu kerfi. Það er mikilvægt að ríki og sveitarfélög fari í þá vinnu að einfalda regluverkið með það að leiðarljósi að geta brugðist hraðar við þeim sveiflum sem einkenna húsnæðismarkaðinn án þess þó að fórna öryggi og gæðum.

Það er þó aftur á móti mjög áhugavert að ekki sé verið að byggja á öllum þeim lóðum sem þegar eru tilbúnar og jafnvel búið að úthluta. Þá er einnig vert að taka til skoðunar hvernig bankar hafa mögulega haft áhrif á sveiflumyndun á þessum markaði með lánastefnu sinni og með henni ýtt undir óeðlilega þenslu og skort í gegnum tíðina í stað þess að leita leiða til að stuðla að þeim stöðuleika sem húsnæðismarkaðurinn þarf svo sárlega. En það er efni í aðra grein.

Greinin birtist fyrst á Vísi 11. október 2022