Loftslag, lífskjör og lýðræði

Haustfundur Landsvirkjunar í síðustu viku varpaði sterku ljósi á stöðu orkumála á Íslandi og í umheiminum og tengsl þeirra við orkuskipti og losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig birtist þar veikleiki ríkisstjórnarinnar í málaflokknum. Alla forystu skortir.

Ríkisstjórnin birti í byrjun mars stöðuskýrslu um orkumál. Þar voru settar fram nokkrar sviðsmyndir sem segja má að skiptist í tvær meginleiðir til að ná fullum orkuskiptum fyrir 2040.

Önnur leiðin gerir ráð fyrir aukinni raforkuvinnslu og hóflegum hagvexti. Hin leiðin felur í sér lokun stóriðju, hverrar orka nýtist þess í stað í orkuskipti. Sú leið felur í sér minni hagvöxt, efnahagslega óvissu og hættu á tilfærslu kolefnislosunar stóriðjunnar til annarra landa frekar en raunverulegan samdrátt.

Vilhjálmur Egilsson, sem stýrði vinnunni um stöðuskýrsluna, kom fram á dögunum og lýsti stuðningi við fyrri leiðina. Það varð til þess að Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokks VG, steig fram og talaði verulega óskýrt fyrir einhverri útgáfu af seinni leiðinni, ásamt því að saka Vilhjálm um ítrustu öfgar.

Flestir áttu von á því að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra myndi eyða þessari óvissu um stefnu stjórnvalda á haustfundi Landsvirkjunar en hann kaus að opna fundinn með því að leiða þetta val hjá sér rétt eins og köttur, sem fer í kringum heitan graut.

Forstjóri Landsvirkjunar lauk fundinum hins vegar með skörpum rökstuðningi fyrir fyrri leiðinni. Hann flutti ræðuna og rökin, sem ég hygg að flestir hafi átt von á að kæmu frá ráðherranum.

Ég skil ráðherrann þannig að hann sé á sömu skoðun. Hann getur bara ekki sagt það berum orðum til að ögra ekki VG. Ríkisstjórnin á að hafa forystu um þetta val og Alþingi að taka ákvörðunina. En það er togstreita innan ríkisstjórnar. Meðan hún treystir sér ekki til að varða leiðina og segja skýrt hvernig orkuskiptum skuli náð er hætta á að framvindan ráðist af sérhagsmunum frekar en almannahagsmunum. Þetta veikir lýðræðið og trú almennings á vegferðinni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. október 2022