Frá skattborgurum til eldri borgara

Þorsteinn Pálsson

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók á dögunum þá einstæðu ákvörðun að flytja skuldbindingar ríkissjóðs frá framtíðar skattborgurum til framtíðar eldri borgara.

Um er að ræða átján ára gamla áhættu vegna ríkisábyrgðar á útlánum Íbúðalánasjóðs, sem nú heitir ÍL-sjóður. Hrunið jók á vandann og síðan hefur verið aukið við hann með reglulegu millibili, þar á meðal af núverandi ríkisstjórn.

Freistandi er að meta þessa stóru aðgerð út frá algengum pólitískum viðmiðum.

Hver var aðdragandi og undirbúningur aðgerðarinnar? Hvernig standast rökin? Hvar liggur aðgerðin á skalanum frá hægri til vinstri? Og á hvaða siðferðilega grunni byggir hún?

Undirbúningurinn

Vandinn hefur verið skýr frá því að skýrsla um stöðu sjóðsins var birt 2013. Frá þeim tíma hafa ríkisstjórnir vanrækt að mestu þá afdráttarlausu árlegu lagaskyldu að gera tillögur um að koma jafnvægi á fjárhag ríkisábyrgðarsjóðs.

Allt fram á síðasta ár hafa að auki verið teknar ákvarðanir, sem hafa þyngt ríkisábyrgðarvandann.

Viðræðutilboði ríkisstjórnarinnar til lífeyrissjóða fylgdi sú ákvörðun að niðurstaðan yrði ákveðin með lögum ef ekki semdist. Þetta gæti verið nauðung, sem leiðir til ógildingar samninga. Ekki er að sjá að lögfræðileg athugun hafi farið fram á þessu áhættuatriði.

Álitaefni er hvort stjórnarmenn lífeyrissjóða gerist sekir um umboðssvik semji þeir um atriði, sem leiða til skerðinga á lífeyrisréttindum. Ekki er að sjá að þessi lagalega óvissa hafi verið könnuð.

Niðurstaðan sýnir níu ára samfelld frávik frá ábyrgri fjármálastjórn og allsendis ófullnægjandi mat á alvarlegum lögfræðilegum álitaefnum.

Rökin

Helstu rökin fyrir aðgerðinni eru þau að spara eigi 150 milljarða króna. Ríkisstjórnin ætlar eldri borgurum að borga brúsann fyrir skattborgara. Það er yfirfærsla á skuldbindingum en ekki sparnaður.

Önnur rök eru þau að heimilt sé að víkja stjórnarskrárvörðum eignarréttindum til hliðar með vísan í neyðarlögin frá 2008. Ríkisstjórnin fellir þessi rök sjálf með því að afneita með öllu að neyðarástand ríki.

Þá færir ríkisstjórnin fram þau rök að aðgerðin hafi verið nauðsynleg af því að hún vilji ekki binda framtíðarkynslóðum bagga. Þessi rök standast ekki af þeirri einföldu ástæðu að aðgerðin felur í sér að baggarnir eru fluttir frá framtíðar skattborgurum til framtíðar eldri borgara.

Niðurstaðan er sú að því fer fjarri að röksemdafærslan standist þær kröfur, sem eðlilegt er að gera til ríkisstjórnar.

Vinstri og hægri

Þótt eignarrétturinn fari ekki lengur fyrir brjóstið á öðrum en hörðustu sósíalistum er afstaða til hans enn helsta viðmið um það hvort menn liggja til vinstri eða hægri í pólitík.

Aðgerðin er reist á þeirri hugsun að víkja megi eignarrétti einstaklinga til hliðar að geðþótta til þess að bæta stöðu ríkissjóðs.

Afstaðan til möguleika sjálfstæðrar millistéttar til sparnaðar og fjárhagslegrar fyrirhyggju er annað viðmið í þessu samhengi. Þetta borgaralega markmið víkur fyrir þörfum ríkissjóðs.

Niðurstaðan er sú að aðgerðin liggur að þessu leyti verulega langt til vinstri.

Siðfræði og sanngirni

Þrátt fyrir framansagt getum við hugsað okkur að aðgerðin standist bæði almenn lög og stjórnarskrárvernd eignarréttinda. En þá er spurningin: Væri hún að gefnum þeim forsendum sanngjörn og siðferðilega réttmæt?

Hver er munurinn á ábyrgð skattborgara og eldri borgara? Eldri borgarar eru færri og bera því þyngri bagga hver og einn. Réttindi þeirra skerðast hlutfallslega jafnt. Skattborgararnir eru fleiri. Þeir tekjulægri borga hlutfallslega minna og fyrirtækin bera sína bagga.

Að þessu virtu er ljóst að meiri sanngirni felst í því að skattborgarar greiði fyrir þessar vanrækslusyndir en eldri borgarar.

Aðgerðin víkur því með afgerandi hætti frá almennum siðferðilegum hugmyndum um réttlæti.

Ábyrg fjármálastjórn

Lög um ríkisábyrgðir kveða á um að ríkisstjórn beri að gera árlega tillögu um aðgerðir til að koma jafnvægi á fjárhag ríkisábyrgðasjóðs ef nauðsyn krefur.

Þó að þetta hafi að miklu leyti verið vanrækt í níu ár er réttast að byggja ábyrga fjármálastjórn áfram á eðlilegri og réttlátri hugsun gildandi laga. Engin rök standa til að breyta þeirri leikreglu.

Hitt á ekkert skylt við ábyrgð að færa vandann yfir á eldri borgara.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. nóvember 2022